Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 17:32:13 (3028)

1997-02-03 17:32:13# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:32]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að búa á Íslandi, sagði hv. þm. Við tökum undir það. Það er fallegt í verstöðinni ef vel veiðist, en það er misgott. Það versta er sennilega hvernig nú er búið að ungum barnafjölskyldum í landinu. Það er verst vegna þess, og þá er ég í þessu samhengi að ræða um þá sem á annað borð hafa vinnu, að þetta fólk, sem þarf á miklum tekjum að halda vegna þess að það er þannig statt á æviferlinum að það hefur mikil útgjöld, þarf að leggja á sig mikla vinnu til þess að afla tekna til þess að geta skuldsett sig fyrir húsnæði. Þannig er komið fyrir þessu fólki að búið er að læsa það inni í fátæktargildru. Við vitum að launin eru út af fyrir sig lág, en þótt bæði tvö leggi á sig stóraukna vinnu, þrátt fyrir það að vinnutíminn er að meðaltali þriðjungi lengri heldur en í grannlöndunum, og gerum okkur vonir um að hagvöxturinn leyfi enn þá meiri yfirvinnu og aukavinnu, þá eru þau læst inni í vítahring vegna þess að skattkerfið og bótakerfið og vaxtastigið á Íslandi, samanber tölur um skuldir heimilanna, gerir að þessu fólki eru allar bjargir bannaðar. Það getur ekki lengur unnið sig út úr fátæktargildrunni. Og það er það versta við það að búa á Íslandi og þar hefur hæstv. ríkisstjórn gersamlega brugðist.