Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 17:34:33 (3030)

1997-02-03 17:34:33# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti það nokkuð kjarkað af hv. þm. að draga inn í þessa umræðu um kjaramál frammistöðu Framsfl. í heilbrigðismálum. Sérstaklega drap hún á þann sparnað sem nú er verið að reyna að ná fram á sjúkrahúsum landsbyggðarinnar.

Ég kem hér einungis til þess að leiðrétta hrapallegan misskilning hjá hv. þm. Hún hélt því fram áðan í ræðustól að sá sparnaður og niðurskurður væri framkvæmdur í samráði við heimamenn. Þess vegna er rétt að hér komi fram að á fundi heilbr.- og trn. í morgun var staddur fulltrúi frá heilbrrn. sem staðfesti að aðferðin sem var viðhöfð í þeim efnum var svona: Fyrst ákváðu menn að skera niður á tilteknum stöðum og þegar það lá fyrir var haft samráð. Og það eina sem heimamönnum var boðið upp á var að koma með tillögur um annars konar niðurskurð. En upphæðin var ákveðin án nokkurs samráðs í ráðuneytinu sjálfu þannig að það er geip eitt að halda því fram að hér hafi raunverulegt samráð verið viðhaft. Það er fráleitt.