Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 17:42:33 (3033)

1997-02-03 17:42:33# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:42]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að láta í ljós óánægju mína yfir því að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér staddur þar sem ég ætlaði að eiga orðastað við hann í fyrirspurnatíma fyrr í dag en var þá beðin um að fresta því og sagt að hann yrði viðstaddur þessa umræðu. (Gripið fram í.) Það er gott að heyra að hann muni koma hér á eftir.

Hæstv. forsrh. sagði hér áðan að hækkun atvinnutekna á mann hafi ekki verið um 6% á sl. ári eins og búist var við heldur 8--9%. Gott og vel. Þetta er að sjálfsögðu meðaltal og segir ekkert um kaup eða tekjur þeirra sem lægra eru launaðir í landinu eða um dreifinguna á launakökunni. Um leið og fyrirtækin skila æ meiri hagnaði og engum dylst að sægreifarnir, sem fá þjóðarauðlindina frítt til afnota á silfurfati, hafa það gott, þá er til stór hópur Íslendinga, launþegar, bændur, bótaþegar og atvinnulausir sem eru undir fátæktarmörkum og sá hópur er tvímælalaust stærri en símakönnun Félagsvísindastofnunar bendir til. Hækkun atvinnutekna úr 6% í 8% er einfaldlega vegna þess að þeir ríku eru að verða ríkari á meðan við stjórnvölinn situr ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. og skyldi engan undra.

Þessi bakgrunnur gerir þá samninga sem fram undan eru mjög sérstaka. Hvernig á fiskverkafólk eða verkakonan að sætta sig við að fá örlitla launahækkun eða jafnvel standa í stað á meðan sægreifarnir hagnast um milljarða eða milljónir a.m.k. og milljónatugi á því að leigja eða selja kvóta sem fiskverkafólkið á eins og aðrir þegnar þessarar þjóðar? Hvernig eiga þeir að sætta sig við að það er túlkað sem ávísun á óðaverðbólgu að hækka lágmarkslaun í 70 þús. kr. og að allt talið um lækkun á jaðarsköttum hefur enn ekki borið árangur í aðgerðum?

[17:45]

Þá er það einnig athyglisvert varðandi bakgrunn þessara samninga eða þessarar samningalotu sem seint ætlar að fara í gang að vinnutímatilskipun ESB hefur að því er virðist valdið straumhvörfum varðandi kröfur verkalýðsfélaga. Vonandi verður það til þess að þessir samningar losi fólk úr yfirvinnuprísundinni til hagsbóta fyrir börn og fjölskyldur þessa lands og að framleiðni fyrirtækja aukist, annars vegar við það að fólk er ekki of þreytt í vinnutímanum og hins vegar við það eitt að hin svokallaða óunna yfirvinna verður lögð af.

Herra forseti. Vegna væntanlegra kjarasamninga, m.a. við opinbera starfsmenn, vil ég minna á að allar tiltækar launakannanir sýna verulegan launamun á milli karla og kvenna, m.a. könnun fjmrh. á launum í eigin ráðuneyti. Árið 1985 staðfesti Alþingi fyrir Íslands hönd samning Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1982 um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Þar segir m.a. í 11. gr., með leyfi forseta:

,,Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að afnema mismunun gagnvart konum á sviði atvinnu.`` Og í d-lið 11. gr. segir: ,,Tryggja skal konum rétt til sömu umbunar, þar með talið fríðinda, og sömu meðhöndlunar gagnvart vinnu sem er jafngild og sömu meðhöndlunar við mat á gæðum vinnu.``

Þá segir í 4. gr. jafnréttislaganna frá 1991, með leyfi forseta:

,,Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.``

Er þar bæði átt við grunnkaup og frekari þóknun eða aðrar greiðslur. Við setningu starfsmannalaganna sl. vor lét ég og fleiri alþingismenn í ljós áhyggjur af því að nýtt fyrirkomulag kjarasamninga mundi ekki tryggja betur að launamunur kynjanna verði leiðréttur. En hæstv. fjmrh. taldi að nýju lögin gætu komið að gagni í þeim tilgangi. Nú virðist það vera krafa flestra innan ASÍ a.m.k. að færa umsamda kauptaxta sem næst raunverulegu kaupi, þ.e. að auka vægi umsaminna kauptaxta í launamynduninni með því að fella yfirborganir og umsamin viðbótarálög inn í taxtana. Með þessu er talið líklegt að laun hinna lægst launuðu muni hækka og jafnframt að launamunur kynjanna muni minnka. Sú ályktun er að mínu mati réttmæt miðað við tiltækar kannanir sem benda til að mesti launamunurinn komi fram í sporslum og svokallaðri óunninni yfirvinnu, bílagreiðslum o.fl. Því vil ég spyrja hæstv. fjmrh., sem enn er ókominn og mun ég því beina fyrirspurn minni til hæstv. forsrh.: Er ætlun ríkisstjórnarinnar að fylgja svipaðri stefnu og fram hefur komið við kröfugerð ASÍ? Einnig vil ég spyrja hæstv. fjmrh. eða hæstv. forsrh. hvort hann hyggist gera eitthvað með þá staðreynd að háskólamenntaðar konur njóti ekki í sama mæli menntunar sinnar í launum og karlar. Þetta kom skýrt fram í áðurnefndri könnun um kynbundinn launamun. Verður eitthvað gert í þessu? Eða með öðrum orðum: Hvaða ráðstafanir hefur ríkisstjórnin gert til að tryggja að þeir samningar sem fram undan eru verði ekki áfram samningar kynjamismununar? Hæstv. forsrh. ýjaði að því að eitthvað hefði verið gert. En hvað nákvæmlega hefur ríkisstjórnin gert?