Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 17:59:42 (3039)

1997-02-03 17:59:42# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:59]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó ég sé ekki meira sammála ræðu hv. þm. en hann var ræðu minni þá verð ég að segja að það var frekar gott að sjá þessi hressilegu tilþrif stjórnarliða í þessum ræðustól. Það hefur ekki farið mjög mikið fyrir slíku í þessari umræðu. Hann hefur orð á því að mjög hæft fólk sé í verkalýðshreyfingunni að semja og halda um mál launamanna. Ég tek undir það. Ég er búin að hitta margt hæft fólk að undanförnu sem starfar í verkalýðshreyfingunni. Það ber bara svo við að þetta hæfa fólk er áhyggjufullt. Þetta hæfa fólk hefur látið í ljósi þau sjónarmið sem við í stjórnarandstöðunni í málefnalegum ræðum okkar höfum flutt hingað inn. Hér hefur ekki verið æsingurinn, hér hefur ekki verið málefnalega farið illa með þó menn hafi reynt að halda því fram. Þessi sjónarmið höfum við flutt hingað inn á Alþingi og þetta er ekki uppákoma. Það að ræða kjaramál á slíkum tíma er ekki uppákoma á Alþingi. Það er alvarleg umræða sem við leiðum hingað inn.