Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 18:09:53 (3045)

1997-02-03 18:09:53# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[18:09]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Því miður kom ég því ekki við að vera í umræðunum í dag vegna starfa minna í ráðuneytinu en ég vissi af því að hér höfðu verið fluttar fyrirspurnir sem kannski snerta fjmrh. Ég mun í ræðu minni fyrst og fremst víkja að atriðum sem komu fram í ræðu hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur. Þótt ég kunni ekki ræðuna, vegna þess að ég var ekki viðstaddur, þá mun ég samt nefna nokkur atriði sem geta þá gefið tilefni til frekari skoðanaskipta á eftir.

Hv. þm. minnti á lög sem gilda um jafnrétti kynjanna og vísaði einnig til þess í ræðu sinni að Alþýðusamband Íslands hefur látið frá sér fara efni sem nota á í kjarasamningum. Þá sagði hv. þm. í ræðunni að kynjamismunun hefði komið í ljós í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið m.a. af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Jafnréttisráðs. Af því tilefni vil ég taka fram að þótt þetta sé rétt, þá virðist vera a.m.k. sums staðar sem minni munur sé en menn héldu þegar tekið er tillit til menntunar og má geta þess að í könnun sem fjmrn. lét fara fram hjá stofnunum þess virðist þar vera meira samræmi milli menntunar og launa.

Ég vil einnig láta það koma fram hér að það virðist gerast á alþjóðavettvangi og sjálfsagt hér líka að ungar, vel menntaðar konur eiga tiltölulega auðvelt með að fá vinnu meðan fullrðnir karlar sem eru lítt menntaðir detta út af vinnumarkaði. Þetta er sú breyting sem menn sjá gerast í atvinnulífi flestra landa þar sem miklar skipulagsbreytingar eiga sér stað í atvinnulífinu. Ber auðvitað að taka tillit til þess þannig að ég held að ljóst sé þegar til framtíðar er horft líti mál miklu betur út fyrir menntaðar konur.

Þá er og spurt: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera og hvernig hefur ríkisstjórnin lagt upp sína ferð í kjarasamningum? Því er til að svara að ríkisstjórnin hefur fjallað um plagg sem samninganefnd ríkisins hefur lagt fram í kjarasamningaviðræðum og ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa kafla úr því plaggi sem fjallar sérstaklega um jafnréttismál, en annars staðar í því plaggi er fjallað um önnur mál. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir sértækum leiðum m.a. til að jafna launamun kynjanna. Af hálfu fjmrh. hefur þegar verið ákveðið að taka þátt í tilraunaverkefni um kynhlutlaust starfsmat til þess að meta hvort sú leið er fær.

Annað atriði sem er að finna í jafnréttisáætluninni og hefur veruleg áhrif á möguleika þess að koma á jafnrétti er það hvernig ákvarðanir um tilhögun vinnutíma eru teknar og á hvaða forsendum sú ákvarðanataka byggist. Það skiptir töluvert miklu máli hvers konar reynsla er metin til starfsreynslu. Þannig getur það haft áhrif á launakjör hvort eingöngu leiðir til starfsreynslu sem viðkomandi hefur öðlast með launaðri vinnu eða hvort eingöngu er miðað við hvenær viðkomandi lauk formlegri menntun svo að tvö dæmi séu tekin.

Við samningsgerð verði lögð áhersla á að kanna hvaða leiðir eru vænlegastar til þess að starfsmenn geti samþætt fjölskyldulíf og starf í meira mæli en nú er, t.d. með sveigjanlegri vinnutíma og að starfsmenn geti sinnt vinnu að hluta til frá heimili. Fæðingarorlof verði skoðað með hliðsjón af væntanlegum breytingum á almennum vinnumarkaði, aukið verði vægi lífaldurs þar sem starfsreynsla er á annað borð lögð til grundvallar launabreytingum.``

Hér lýkur lestrinum sem er upp úr áhersluatriðum SNR í komandi kjarasamningum. Þetta er skjal frá því í nóvember og lagt var af stað með þetta veganesti í kjarasamningana. Ég vonast til þess, virðulegi forseti, þó mér sé það fyllilega ljóst að þetta getur ekki verið neitt svar við þeim spurningum sem kom fram hjá hv. þm. af þeirri ástæðu að ég hlustaði ekki á ræðuna, en í trausti þess að þessar upplýsingar gagnist þó í umræðunni, leyfi ég mér að benda á þessi atriði sem koma mjög rækilega fram í áhersluatriðum samninganefndar ríkisins og mér er kunnugt um að samninganefndin hefur haldið á þessum málum þannig að þessi áhersluatriði hafa verið kynnt í samningaferlinu fyrir hin einstöku félög sem hafa samningsumboð af hálfu viðsemjenda ríkisins.