Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 18:16:34 (3047)

1997-02-03 18:16:34# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[18:16]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að það er að sjálfsögðu fullur vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar og reyndar samninganefndarinnar sem fer með þessi mál í umboði ráðherra að vinna að því að koma á fullu launajafnrétti. Það tekur hins vegar tíma. Ég held að allir geri sér grein fyrir því. Lögin sem samþykkt voru í fyrravetur eru skref í þá átt að opna fyrir sveigjanleika, t.d. það að breyta vinnutímanum sem ætti að vera hagfellt ef taka á tillit til fjölskyldulífs. Ég bendi einnig á að réttindin breyttust þannig að nú er heimilt að taka tillit til réttinda karla hvað varðar fæðingarorlof sem ætti að hjálpa konum á vinnumarkaði. En það er hárrétt hjá hv. þm. að ekki er hægt að tryggja eitt eða neitt af hálfu ríkisins því að að stærstum hluta til er um að ræða samningsatriði og það þarf auðvitað tvo til að semja um þau. Það er því ekki hægt að segja hér og nú hver niðurstaðan verður fyrr en kjarasamningar hafa átt sér stað þannig að ég held að ekki sé hægt að hafa fleiri orð um það hér.