Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 18:17:55 (3048)

1997-02-03 18:17:55# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[18:17]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið merkileg umræða fyrir margar sakir og kannski mest fyrir það áhugaleysi sem einkennt hefur þá ráðherra sem hafa verið til svara fram eftir degi. Almennt má segja að í þessum sal hafi verið nokkurt áhugaleysi ríkjandi af hálfu stjórnarliða.

Ég átti svo sem ekki von á málefnalegum viðbrögðum frá forsrh. eða félmrh. en það var engu að síður mikilvægt að freista þess að fá umræðu um tregðuna í samningunum og kalla eftir stefnu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er ekkert annað en taka því þegar menn velja að vera með skæting eins og hér hefur komið fram.

Hins vegar ætla ég, af því að fjmrh. gekk í salinn svona skömmu áður en umræðu lauk, að hrósa honum fyrir að hann kom hér með tilraun til málefnalegra umræðna og í sínu stutta innleggi veitti hann upplýsingar og hér hefðu með slíkum viðbrögðum getað orðið góð skoðanaskipti í dag um stöðuna á vinnumarkaði og um hvað menn eru að fjalla.

Forsrh. ásakaði okkur um að vera með gamlar og hefðbundnar ræður. Ég tel að ég hafi farið málefnalega yfir alvarlegar aðfinnslur verkalýðshreyfingarinnar, staðreyndir sem blasa við og það sem verkalýðshreyfingin hefur upplifað framkvæmd laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Ráðherrann nefndi að svona ræður væru ekki fluttar í nágrannalöndunum. Nei, þær eru ekki fluttar í nágrannalöndunum. Það er af því að þar er öðruvísi samskiptaform. Þar eru öðruvísi stjórnendur og þar eru öðruvísi samskipti á vinnumarkaði. Og ef við lítum til Norðurlandanna þá eru þar þjóðfélög jafnaðarmanna og þar er öðruvísi brugðist við vanda en hér.

Reyndar fer fram umræða þar um hvernig og hvar á að ákveða launin. Sú umræða er að fara fram í Svíþjóð og Noregi sem og hér. Hjá okkur er mjög þrýst á um einstaklingsbundna samninga í vinnustaðasamningum og á því keyrir VSÍ grimmt. En ef við ákveðum að fara þá leið þá er verið að ákveða launin dreift og það þarf að gæta að því hvar stefnumörkunin fer fram því það er mjög auðvelt að grafa undan heildarhagsmunum.

Mér finnst líka mikill orðhengilsháttur hjá ráðherranum þegar hann ásakaði mig fyrir að fara rangt með hverjir væru að tala sig í verkfall. Ég er hér með ljósrit af þessu viðtali sem ég vísaði til og m.a. í fyrirsögninni stendur: ,,Óttast að menn séu að tala sig í verkföll.`` Hverjir eru þá ,,menn``? Eru það ekki trúnaðarmenn launþega sem á einhverjum lokatíma ákveða að þetta sé leiðin? En ég ætla líka að nefna annað sem stendur í þessu viðtali og þar orðar ráðherrann það svo: ,,að menn flækjast út í verkföll, sem engum verða til gagns``.

Við höfum verið að tala um kaupmátt og fjallað um kaupmátt lægstu launa. Einnig þar var því brugðið við að ég færi með rangar upplýsingar. Það sem ég færi með væru niðurstöður frá Dagsbrún sem væru niðurstöður á samantekt áranna 1993--1995 og það væri allt annað en það sem ráðherrann væri að skoða. Þetta er ekki rétt. Ráðherrann er fastur í meðaltölum þegar hann nefnir sínar prósentur. Það var skoðað bæði árið 1995 og 1996. Ég hef haft samband við Dagsbrún til að kanna það og fá það staðfest og þar var upplýst að þær niðurstöður og tölur séu staðfestar af ASÍ og VSÍ. Það er nefnilega þannig að m.a. loðnutekjur hafa skapað hátt meðaltal og meðaltal á landinu öllu er allt annað en meðaltal hér á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt gögnum kjararannsóknarnefndar lengist vinnutími á landinu öllu um tæpa klukkustund en á höfuðborgarsvæðinu styttist vinnutími verkamanna um hálfa klukkustund á sama tímabili. Þetta eru m.a. forsendur þeirra upplýsinga sem ég hef komið fram með hér og finnst mikilvægt að geta um í þessari lokaræðu minni.

Virðulegi forseti. Þetta er nánast í fyrsta sinn sem öll landssambönd gera kröfur sem byggja á launajöfnuði. Forsrh. talar um að mesti launajöfnuðurinn sé hér. Við þekkjum öll umræðuna um jaðarskattana og við ættum aðeins að staldra við til að átta okkur á hvaða laun menn eru að bera saman. Er ekki ólíkt að bera saman stöðuna hér og t.d. í Noregi þar sem lægstu laun og bætur eru langtum hærri? Við höfum talað um launajöfnuð niður á við. Hér er launajöfnuður niður á við og lægstu launin langt undir því sem nokkur mundi láta sér detta í hug að unnt væri að lifa af. Þess vegna, virðulegur forseti, þarf að hækka lægstu laun. Þau eru of lág. Öll laun almenns launafólks eru lág.

Virðulegi forseti. Bara til að það komi fram hér þá erum við ánægð með að loðnusamningarnir náðust. En ég vek athygli á orðum hæstv. utanrrh. Hann lagði mikla áherslu á að þeir voru sérstakir og minnti á að þeir væru út af tímaákvæðum.

Virðulegi forseti. Í lokin ætla ég að bera fram þrjár spurningar fyrir forsrh.:

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að koma til móts við láglaunafólkið? Hv. 9. þm. Reykv. fór mjög vel yfir það og ég ætlast til að ráðherra svari. Hver er afstaða ráðherrans til fyrirtækjasamninga? Er hann sammála okkur sem teljum að skapa verði leikreglur þannig að báðir aðilar komi jafngildir að borðinu til samninga? Og hver er afstaða ráðherrans til 70 þús. kr. lágmarksdagvinnulauna fyrir fullvinnandi fólk?