Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 13:33:13 (3050)

1997-02-04 13:33:13# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta StG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[13:33]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um málefni Landsvirkjunar og ég tala fyrir hönd meiri hluta iðnn.

Landsvirkjun var stofnuð árið 1965. Markmiðið þá var að koma á öflugu raforkufyrirtæki sem var reyndar ein af forsendum þess að hægt væri að ráðast í þær virkjunarframkvæmdir sem nauðsynlegar voru til að mæta vaxandi orkuþörf. Í upphafi áttu ríkið og Reykjavíkurborg Landsvirkjun til helminga og hlutverk fyrirtækisins var að sjá Suður- og Vesturlandi fyrir rafmagni. Það var síðan á árinu 1983 sem lögunum um Landsvirkjun var breytt og fól sú breyting í sér m.a. að orkuveitusvæði Landsvirkjunar varð landið allt og jafnframt eignaðist Akureyrarbær hluta í Landsvirkjun þegar Laxárvirkjun sameinaðist fyrirtækinu.

Það frv. um Landsvirkjun sem við fjöllum hér um var samið á vegum sérstakrar viðræðunefndar eignaraðila í Landsvirkjun um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki Landsvirkjunar og var hún skipuð af iðnrh. í febrúarmánuði 1996. Til viðræðna var stofnað að ósk borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjórans á Akureyri, en eignarhlutur Reykjavíkur í Landsvirkjun er 44,525% og Akureyrarbæjar 5,475%. Eignarhlutur ríkisins er því 50%.

Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið á sinn fund Halldór Kristjánsson og Jón Ingimarsson frá iðnrn., Halldór Jónatansson og Örn Marinósson frá Landsvirkjun, Júlíus Jónsson og Albert Albertsson frá Hitaveitu Suðurnesja, Kristján Haraldsson frá Orkubúi Vestfjarða, Jakob Björnsson bæjarstjóra á Akureyri, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, formann stjórnar veitustofnana Reykjavíkur, Kristján Jónsson, forstjóra Rariks, Gunnar Sigurðsson og Magnús Oddsson frá Akranesveitum, Arngrím Blöndahl, bæjarstjóra á Eskifirði og fulltrúa Sambands sveitarfélaga á köldum svæðum, Runólf Maack og Magnús Baldursson frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Guðjón Ingva Stefánsson frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Lárus Ögmundsson frá Ríkisendurskoðun og Þórð Friðjónsson, forstjóra Þjóðhagsstofnunar og formann orkunefndar. Umsagnir bárust frá Bæjarveitum Vestmannaeyja, Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Hitaveitu Suðurnesja, Orkubúi Vestfjarða, Rafveitu Sauðárkróks, Rafveitu Hafnarfjarðar, Ríkisendurskoðun, Sambandi sveitarfélaga á köldum svæðum og samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi.

Að baki frv. þessu liggur samningur milli ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar um breytingu á sameignarsamningi sömu aðila um Landsvirkjun og vinnunefndar eignaraðila um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki Landsvirkjunar.

Hvað varðar það umfangsmikla verk að meta áhrif mismunandi rekstrarforms á stöðu Landsvirkjunar á alþjóðlegum mörkuðum og vegna mats á verðmæti fyrirtækisins fékk nefndin bandaríska fjármálafyrirtækið J.P. Morgan til að vera ráðgefandi í þessum efnum. Ég tel að það hafi verið vel ráðið og reyndar forsenda þeirra viðræðna sem fram fóru um þennan þátt málsins að njóta jafnyfirgripsmikillar þekkingar og þetta fyrirtæki býr yfir. Mat sitt á virði Landsvirkjunar byggir J.P. Morgan á eftirtöldum forsendum:

Að orkuverð til almenningsveitna haldist óbreytt á föstu verðlagi til og með ársins 2000.

Að orkuverð lækki um 3% á ári á árunum 2001--2010.

Að árleg aukning eftirspurnar á almennum markaði verði um 2%.

Að verðbólgan verði að meðaltali 3%.

Að orkuverð til stóriðju fylgi núgildandi samningum.

Að fyrirtækið verði áfram undanþegið arðgreiðslu skatta.

Að einkafjárfestar geri a.m.k. 7% arðsemiskröfur.

Iðnn. hefur kynnt sér ítarlega niðurstöður viðræðunefndarinnar og þau gögn sem hún studdist við í starfi sínu. Á fundum nefndarinnar hefur sérstaklega verið fjallað um arðgjafar-, gjaldskrár- og arðgreiðslumarkmið Landsvirkjunar. Stefnt skal að því að arðgjöf af því eigin fé sem í Landsvirkjun er bundið verði 5--6% á ári en arðgreiðslur reiknist af lægri fjárhæð, þ.e. 14 milljörðum kr. Útborgaður arður verði aðeins lítill hluti af arðgreiðslustofni og getur stighækkað eftir því sem afkoma fyrirtækisins og skuldastaða batnar. Jafnframt er að því stefnt að gjaldskrá Landsvirkjunar til almenningsveitna verði í meginatriðum óbreytt að raungildi til ársins 2000, en lækki síðan að raungildi um 2--3% á ári frá árinu 2001 til 2010. Í þessu sambandi er rétt að minna á að í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, hefur frá upphafi verið ákvæði um arðgreiðslur til eigenda af sérstökum eiginfjárframlögum og Landsvirkjun hefur í nokkur skipti greitt arð til eigenda. Samkomulagið felur í sér málamiðlun milli eðlilegra sjónarmiða um hæfilegar arðgreiðslur til eigenda og þess meginmarkmiðs að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót. Það er skilningur meiri hluta nefndarinnar, sem einnig hefur komið fram af hálfu iðnrh., að markmiðið með lækkun gjaldskrár gangi framar arðgreiðslumarkmiðum.

Fram hefur komið sú gagnrýni, m.a. frá nokkrum umsagnaraðilum um þetta mál, að þau arðgjafar-, gjaldskrár- og arðgreiðslumarkmið Landsvirkjunar, sem finna má á bls. 28 í athugasemdum með frv., séu eingöngu sett til að bæta fjárhagslega stöðu eigenda Landsvirkjunar. Einnig er vísað til þess að vegna óvissu um þróun orkumála sé ekki mikið gefandi fyrir yfirlýsingar um lækkun á gjaldskrá. Vegna þessa sé ég ástæðu til að geta þess hér sem hæstv. iðnrh. sagði við 1. umr. málsins í þessum ræðustól að milli stjórnarflokkanna væri pólitísk samstaða að nýta arðinn sem ríkið fær af fyrirtækinu, sem er helmingur af útgreiddum arði hver sem hann verður á hverjum tíma, til beinna aðgerða til atvinnusköpunar á þeim svæðum sem ekki njóta arðsins vegna eignaraðildar annarra sveitarfélaga. Ég tel nauðsynlegt að þetta komi hér skýrt fram vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað.

Til að draga úr tortryggni til ég nauðsynlegt að ítreka enn að lækkun orkukostnaðar er skýr stefnumörkun núv. ríkisstjórnar og meiri hluta Alþingis og frá því meginmarkmiði verður ekki hvikað. Sameigendum ríkisins í Landsvirkjun má vera það ljóst og jafnframt að sem eignaraðili Landsvirkjunar mun ríkið láta markmið um lækkun gjaldskrár ganga framar arðgreiðslumarkmiðum. Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. staðfesti það við þessa umræðu sem hann sagði við 1. umr. málsins að arðgreiðslur til hluthafa verði víkjandi fyrir markmiðum um lækkun orkuverðs.

Í núgildandi lögum er stjórn Landsvirkjunar gert að leita eftir tillögu Þjóðhagsstofnunar áður en gjaldskrá er sett, en frv. gerir ráð fyrir að þessi skylda falli niður. Á fundum nefndarinnar hafa vaknað spurningar um verðlagseftirlit með verðákvörðunum stjórnar Landsvirkjunar. Umsögn Þjóðhagsstofnunar hefur í sjálfu sér ekki verið verðlagseftirlit. Síður er þörf á henni þegar fyrir liggur samningur eigenda Landsvirkjunar um gjaldskrármarkmið, framangreind yfirlýsing iðnrh. um forgang þeirra umfram arðgreiðslumarkmið. Þá getur í þessu sambandi reynt á samkeppnislög.

Ég vil ítreka að ekki hefur verið um eiginlegt verðlagseftirlit að ræða við setningu gjaldskrár Landsvirkjunar og ég treysti stjórn Landsvirkjunar til að setja fyrirtækinu gjaldskrá af fullri ábyrgð þótt Þjóðhagsstofnun geri ekki tillögur um hana.

Í apríl 1996 skipaði iðn.- og viðskrh. ráðgjafarnefnd til að endurskoða löggjöf um vinnslu, flutning og dreifingu orku, svonefnda orkulaganefnd. Skilaði nefndin tillögum að framtíðarskipan orkumála í október sl. Snemma á þessu ári hyggst iðnrh. leggja fram till. til þál. um skipan orkumála þar sem tekið verður á þeim hugmyndum sem orkunefndin hefur sett fram. Meginatriði breytinganna á sviði orkumála felast í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins og þætti þar sem samkeppninni verður við komið. Meðal áfanga til lengri tíma litið í að koma á markaðsbúskap í raforkumálum er stofnun raforkuflutningafyrirtækis sem menn hafa nefnt Landsnet til að skilja að orkuvinnslu annars vegar og hins vegar raforkuflutning og dreifingu. Í tengslum við þá breytingu að samkeppni verði í auknum mæli innleidd í raforkumálum er eðlilegt að almenn samkeppnislög nái yfir raforkumarkaðinn og hlutverk Samkeppnisstofnunar varðandi eftirlit með raforkufyrirtækjum verði skilgreint.

[13:45]

Meiri hlutinn leggur til breytingu á 1. gr. frumvarpsins. Er það gert til að taka af allan vafa um að Landsvirkjun er ekki ætlað að fara í samkeppni á innanlandsmarkaði með því að taka að sér verkefni þar eða eiga hlut í innlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknir, ráðgjöf og aðra þjónustu innan lands á sviði orkumála.

Haft hefur verið samráð við sameigendur ríkisins um þessa breytingartillögu. Ég tel óhjákvæmilegt að víkja nokkrum orðum að áliti sem iðnn. barst frá Ríkisendurskoðun vegna þessa máls. Í frv. er gert ráð fyrir að ráðherrar skipi fulltrúa ríkisins í stjórn Landsvirkjunar í stað þess að Alþingi kjósi þá. Um þetta segir Ríkisendurskoðun að stofnuninni sýnist frv. koma til með að skerða verulega eftirlit eða öllu heldur eftirlitsmöguleika þingsins með Landsvirkjun. Ég fagna því vissulega að Ríkisendurskoðun skuli standa vörð um eftirlitsvald Alþingis en ég tel þó að nýskipan á stjórn Landsvirkjunar sé meira í takt við nútímaverkaskiptingu á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Ég bendi einnig á að langmestur hluti þess góða eftirlits sem Alþingi hefur haft með Landsvirkjun er í gegnum fyrirspurnir til iðnrh. og á því verður væntanlega engin breyting. Ég held að ótti Ríkisendurskoðunar sé ástæðulaus að þessu leyti og eins og stofnunin reyndar ýjar að í umsögn sinni þá eru beinir möguleikar þingsins til að hafa eftirlit með rekstri fyrirtækisins með því að kjósa menn í stjórn þess formlegs eðlis en síður efnislegir.

Ríkisendurskoðun gerir í öðru lagi athugasemd við að frv. geri ráð fyrir því að felld verði niður heimild eigenda Landsvirkjunar til að tilnefna sérstaka endurskoðendur til að endurskoða reikninga fyrirtækisins ásamt hinum eiginlega endurskoðanda fyrirtækisins. Bendir stofnunin réttilega á að þessi heimild hefur verið á hendi ráðherra en ekki þingsins. Ríkisendurskoðun telur þetta ákvæði sem verið hefur í lögum í raun ekki nægjanlegt. Stofnunin telur að það sé andstætt meginreglum 6. gr. laganna um Ríkisendurskoðun að stofnunin skuli ekki annast endurskoðun reikninga fyrirtækisins. Ég bendi á að Landsvirkjun er sameignarfélag ríkis og tveggja sveitarfélaga. Ekki er hægt að slíta félaginu eða selja hlut eins ef eigendur eru ósammála eins og gildir með hlutafélög. Ríkisvaldinu ber því að virða þá samninga sem eigendur Landsvirkjunar gera eins og kostur er. Sameigendurnir hafa orðið ásáttir um að ársfundur kjósi endurskoðanda fyrirtækisins líkt og gerist í hlutafélögum. Ekkert er komið fram um að það muni minnka eftirlit með reikningum fyrirtækisins og ekki er ástæða til að tortryggja þetta fyrirkomulag. Ríkisendurskoðun bendir sjálf á í umsögn sinni að stofnunin hafi eftir sem áður heimild í 6. gr. laga um hana, heimild til að rannsaka reikningsskil fyrirtækisins og kalla eftir upplýsingum og gögnum sem þýðingu geta haft við slíka rannsókn. Þetta er að mínu mati nægjanlegur og ágætur öryggisventill. Við getum svo rætt um það við umfjöllun um frv. um Ríkisendurskoðun sem lagt var fram á hinu háa Alþingi nú rétt fyrir jólin hversu víðtækt hið almenna endurskoðunarumboð Ríkisendurskoðunar eigi að vera í þeim félögum sem ríkissjóður á helming í eða meira en þar kunna að verða skiptar skoðanir.

Virðulegi forseti. Meiri hluti iðnn. leggur til að þetta frv. verði samþykkt með einni breytingu. Eins og ég vék að áður er það breyting á 1. gr. og það er gert til þess að taka af allan vafa um það að Landsvirkjun sé ekki ætlað að fara í samkeppni við fyrirtæki hér innan lands í þessum efnum. En við leggjum sem sé til að 1. gr. frv. orðist svo:

,,Landsvirkjun er heimilt að hagnýta þá þekkingu og búnað sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála til verkefna erlendis með því að taka að sér verkefni fyrir fyrirtæki eða stofna og eiga hlut í erlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknir, ráðgjöf eða aðra þjónustu á sviði orkumála eða aðra starfsemi tengda orkumálum.``

Undir þetta nál. skrifa Stefán Guðmundsson, Guðjón Guðmundsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Árni R. Árnason, Hjálmar Árnason og Pétur H. Blöndal.