Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 14:12:17 (3052)

1997-02-04 14:12:17# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[14:12]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Málið sem hér er til meðferðar er margþætt og því miður ástæða til að verja dálitlum tíma í að fara yfir það, enda kannski ekki að furða því að orkumálin eru nú ekki lítill hluti þjóðarbúskaparins á Íslandi. Í raun og veru eru orkumálin fyrir Íslendinga undirstöðuþáttur lífskjara í framtíðinni. Það getur maður sagt alveg hiklaust og samt horft fast í augun á mönnum sem hér sýsla aðallega við sjávarútveg og sitja á stólum í þessum sal. Ég held að málið sé þannig að orkumál og orkuverð séu að mörgu leyti úrslitaundirstaða framtíðarþróunar lífskjara á Íslandi. Þess vegna eru full rök fyrir því að ræða málið nokkuð rækilega auk þess sem það skiptir gríðarlegu máli í þessu samhengi að þegar virkjað er þá göngum við vel um landið. Í þessum efnum mun alltaf sitt sýnast hverjum og þannig er það einnig nú þó svo að, herra forseti, ég sé þeirrar skoðunar að sá ágreiningur sem uppi er í þessu máli hafi ekki fengið að koma fram.

Ég tel því miður að efasemdir og spurningar einstakra þingmanna og bæjarfulltrúa og borgarfulltrúa í þessu máli hafi verið lokaðar inni. Ég tel að undirbúningurinn að þessu máli og það hvernig embættismenn hafa lokað það af ásamt örfáum stjórnmálamönnum úr stjórnarflokkunum, þremur eða fjórum mönnum, hafi gert það að verkum að málið gefi í fyrsta lagi tilefni til að velta vöngum um stöðu lýðræðisins og þingræðisins. Það er satt að segja alveg ótrúlegt að málið sem er svona undirbúið og snertir svona marga og snýst um svona miklar stærðir og stóra hluti af okkar lífskjörum, snýst um 50 milljarða í skuldum, snýst um 20--30 milljarða í eignum, snýst um 3--4% af meðaltalsframfærslukostnaði hvers einasta heimilis í landinu, skuli vera jafnlokað og það er. Það er óskaplega alvarlegt umhugsunarefni að mál af þessu tagi skuli ekki fá opnari umfjöllun. Ég er sannfærður um að margir þeir ágætu einstaklingar, sem hafa talið sig og munu telja sig nauðbeygða til að styðja málið hér, gera það vegna þess að þeir eru með aðra hluti í huga innan eigin flokka eða samtaka. Og það er mjög alvarlegt að mál af þessu tagi skuli vera þannig að ekki sé hægt að taka afstöðu til þess frjálst og óháð frá afstöðu þeirri sem menn kunna að hafa t.d. til ríkisstjórnar eða bæjarstjórnarmeirihluta.

[14:15]

Mér finnst, herra forseti, eftir að ég hef farið yfir þetta mál og eftir að hafa talað við nær alla sem málið snertir, að óhætt sé að fullyrða að það er óánægja með þetta mál alls staðar, miklu meiri en fram hefur komið og fram mun koma í atkvæðagreiðslum, miklu meiri. Og ég fullyrði, eftir samtöl við einstaka aðila í stjórnarflokkunum m.a. hér í þessari stofnun, langt umfram þá sem hafa tjáð sig um málið, að margir eru með spurningarmerki í málinu en telja sig bundna, neydda til að samþykkja málið vegna þess að annað mundi skapa erfiðleika fyrir viðkomandi ráðherra, skapa erfiðleika fyrir ríkisstjórnina, skapa erfiðleika fyrir viðkomandi flokk, kannski í einhverju alveg óskyldu máli sem á sama tíma er verið að sýsla með í stjórnarflokkunum hvort sem það er að einkavæða bankana eða eitthvað annað. Ég er að segja það, hæstv. forseti, að ég óttast að verið sé að braska með óskyld mál í þessu dæmi. Mér finnst það vont af því að þetta er stórt mál. Þetta vil ég segja í fyrsta lagi og segja að ég met mikils að hv. formaður iðnn. Stefán Guðmundsson, sá sómamaður, hefur lagt sig fram um að láta vinna málið vel í nefndinni. En ég er alveg sannfærður um að innra með honum og eftir samtöl sem hann hefur átt við íbúa Norðurl. v., þá er hann áhyggjufullur yfir málinu. Það er ekki nokkur spurning. Fjöldamargir eru áhyggjufullir yfir málinu vegna þess að þetta gæti þýtt hærra orkuverð. Fjöldamargir eru áhyggjufullir yfir málinu vegna þess að þarna er verið að reyra, eins og mig minnir að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi orðað það hér á dögunum, er verið að reyra í raun og veru kerfið allt fast í Landsvirkjunarklóna ef svo mætti að orði kveða. Ég hef þetta reyndar ekki eftir hv. þm., ég tek það fram, en efnislega var það nokkurn veginn þetta sem mér fannst hann vera að segja. Og um leið eru aðrir þeirrar skoðunar að hættan sé sú að arðgreiðsluáherslan verði til þess að raforkuverðið hækki um mörg hundruð millj. kr. á ári umfram það sem hefði þurft að vera. Og það er alveg sama þó að það standi hérna í nefndarálitinu. Það skiptir engu máli. Það er alveg sama þó að hæstv. ráðherra Finnur Ingólfsson hafi sagt þetta. Það skiptir engu máli. Það eina sem skiptir máli er að arðurinn er einn nefndur í frv. Í 2. gr. frv. er ekki talað um neitt nema arðinn og þess vegna flyt ég tillögu á sérstöku þskj. um að verðlagsmálin verði skoðuð áður.

Ég held því að þessi vinnubrögð sem verið er að reyra menn fasta í, þar sem minni hluti stjórnmálakerfisins í landinu er að knýja fram ákvörðun, muni ekki skapa frið um Landsvirkjun til lengri tíma. Ég er sannfærður um að orkumálin verða á dagskrá á næstu vikum og missirum. Og ég segi hér vegna þess að ég er algjörlega sannfærður um að það er rétt, Landsvirkjun mun í framhaldi af þessum ákvörðunum klofna. Einhverjir munu segja: Farið hefur fé betra. Ég tel hins vegar að á því séu margar hliðar sem ég kem að hér á eftir.

Í þriðja lagi mun ég í ræðu minni gera grein fyrir þeim tillögum sem ég flyt, í fjórða lagi fara yfir umsagnir þar sem kemur fram hjá öllum að þeir hafa áhyggjur af þessu. Ég heyri að hæstv. ráðherra ber yfirleitt fyrir sig t.d. borgarstjórn Reykjavíkur í þessu máli, en í umsögn borgarstjórans í Reykjavík kemur fram að menn hafa áhyggjur af stöðunni. Ég tel að þegar menn lesa þessar umsagnir, þá munu þeir átta sig á því að skynsamlegast væri að hinkra með málið, fresta því og vera ekki að knýja það fram hér í gegnum þingið.

Í gær vorum við, herra forseti, að ræða um það að bæta lífskjörin. Við vorum að ræða um það hvernig kjörin yrðu hér á næstu árum. Hérna er tillaga um að hækka rafmagnsverðið um 500 millj. kr. á ári á næstu árum með því að taka það inn í sköttum, þ.e. í arðgreiðslum til eigendanna. Og ég segi: Það er efnahagslega betra og það er betra fyrir kjörin í landinu að rafmagnið sé ódýrt. Veruleikinn er sá að það er úrslitaatriði ef við ætlum að byggja upp góð lífskjör á Íslandi til komandi ára og áratuga, að kostnaðarþættir eins og raforka og og vextir séu eins ódýrir og lágir og mögulegt er. Allt sem íþyngir rafmagnsverði eins og hér er verið að gera stefnir þess vegna gegn batnandi lífskjörum að mínu mati.

Ég ætla að víkja að einu almennu atriði, áður en ég kem að meginmáli mínu, herra forseti, og það er tap á undanförnum missirum. Menn hafa ákveðið að hafa leynd um orkuverð þegar seld er orka til stóriðjufyrirtækja. Stjórn Landsvirkjunar tók um það ákvörðun í tengslum við stækkun álverksmiðjunnar að hafa leynd um orkuverðið. Fyrir því eru viðskiptaleg rök og þau eru alveg tvímælalaus. Ég segi alveg eins að mér fannst pínulítið óþægilegt að standa frammi fyrir því að tekin hafði verið ákvörðun um það. Niðurstaðan varð svo sú að iðnn. Alþingis fékk allar upplýsingar um orkuverðið í einstökum atriðum. Ég segi hins vegar að ef sú leið er farin sem gert er ráð fyrir í þessu frv. að henda Alþingi út úr Landsvirkjun, þá er ekki hægt að afgreiða stóriðjusamninga framvegis öðruvísi en að orkuverð til stóriðju sé uppi á borðinu í smáatriðum. Menn þurfa að gera sér alveg ljóst að þetta almenna atriði er úrslitaþáttur og það mun hafa veruleg áhrif á umfjöllun um stóriðjusamninga á næstu árum. Reyndar verð ég að segja eins og er að mér finnst krafan um leynd í þessu efni að sumu leyti hjákátleg vegna þess að auðvitað er það þannig að samkeppnisaðilar t.d. í stóriðju vita um svona hluti í raun og veru. (GÁS: Þú gerðir það áðan.) Nei, það gerði ég ekki. Stjórn Landsvirkjunar samþykkti þetta án míns atkvæðis og ég þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni sem af drengskap kallaði hér fram í til þess að gefa mér kost á að fría mig af þessari ákvörðun. En það er ljóst að ég féllst ekki á það.

Þegar ég sagði hér áðan, herra forseti, að ég teldi að verulegur hluti af stjórnmálakerfinu væri óánægður með þetta mál, þá hef ég margt fyrir mér. Ég ætla bara að vekja athygli umfram það sem heyrðist hér við 1. umr. á einu. Það er umfjöllun málsins í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar var samningurinn samþykktur samhljóða en þar voru hjásetur tvær með mjög alvarlega gagnrýni á málið. Það var borgarfulltrúi Guðrún Zoëga og borgarfulltrúi Gunnar Jóhann Birgisson. Þau höfðu bæði veigamikil rök í þessu máli. Og þegar ég lít til þeirra og lít til umræðunnar hér við 1. umr., þá eru það rök fyrir því að umræðan um þessi mál mun halda áfram. Menn munu ekki láta læsa sig inni. En hitt verð ég hins vegar að segja að ég undrast það að trúnaðarmenn Framsfl. sem oft og tíðum hafa talið sig talsmenn dreifbýlis hafa lítið haft sig frammi í þessu máli, ég undrast það. Það vekur áhyggjur og spurningar og ég endurtek: Ég skora á þá að tala núna í 2. umr. Ég skora á þá að tala, læðupokast ekki hér í bakherbergjum heldur tala, segja skoðun sína, gera grein fyrir því af hverju þeir styðja mál af þessu tagi. Það er óhjákvæmilegt að þeir geri sér grein fyrir því að sú ákvörðun sem hér er verið að taka mun hafa í för með sér hækkun á raforkuverði um 500--700 millj. kr. á ári. Það liggur fyrir. Og spurningin er hvort þeir hinir hugumprúðu riddarar Framsfl., réttlætisins um land allt, á Rangárvöllum og víðar, hvort þeir munu ekki ríða hér fram til mikillar orrustu á eftir á grundvelli stjórnarskrárákvæðanna um að menn eigi eingöngu að hlíta samvisku sinni. Og samviskan heitir samviska. Hún heitir t.d. ekki Finnur Ingólfsson, jafnvel þótt hann sé hæstv. ráðherra.

Virðulegi forseti. Ég mun þessu næst víkja að nokkrum atriðum í umsögnum einstakra aðila. Ég ætla fyrst að segja frá því að þetta frv. hefur þó örugglega getið eitt mjög jákvætt af sér og það er að búið er að stofna ný samtök. Það eru samtök sveitarfélaga á köldum svæðum. Þessi samtök voru stofnuð fimmtudaginn 21. nóvember 1996 og þar mættu forustumenn sveitarfélaga víðs vegar að af á landinu, frá Eskifirði, Bolungarvík sýnist mér og norðan úr Húnavatnssýslu ef ég þekki menn rétt hér. Þar var varað var sérstaklega við þessu frv. Og ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hann að segja við fólkið á köldu svæðunum? Á því bara að vera kalt áfram eða hvað? Hvað ætlar hann að segja við fólkið á köldu svæðunum þegar verðið á húshituninni fer að hækka? Hvað ætlar hann að segja við þetta fólk? Ég held að nauðsynlegt sé að það komi fram og að skýrt verði hvað ráðherrann ætlar að segja við fólkið á köldu svæðunum því að því er kalt núna, einkum og sér í lagi þeim sem ætluðu að orna sér við kosningaloforð Framsfl., þeim er nöturkalt. Því væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvernig hæstv. ráðherra ætlar að taka á þessu.

Í umræðunni um þessi mál, hæstv. forseti, hefur verið talað um hvaðan peningarnir koma. Hvaðan eru eignirnar sem Landsvirkjun á? Eru það eignir sem hafa myndast af eigin fé Reykjavíkur, ríkisins og Akureyrar, af beinhörðum peningum sem hafa verið lagðir inn í þetta fyrirtæki? Eða hvað? Og í öllum umsögnum um málið er spurt um þetta aftur og aftur. Landsvirkjun tók saman fyrir iðnn. fróðlegt yfirlit sem heitir Minnisblað um Marshall-aðstoð til stórframkvæmda árin 1948--1953 og er fskj. I með nefndaráliti mínu. Þar kemur fram að verulegur hluti af kostnaðinum við Sogsvirkjanirnar var borgaður af Marshall-fé. Og ég segi, herra forseti, það fé, ef einhver á það, á þjóðin öll saman. Og að reikna það inn sem einhvern hluta af eiginfjárframlögum er ekki sanngjarnt af því að þegar þessi lán voru tekin var gerður samningur um það um endurgreiðslu þeirra í Mótvirðissjóð, sem var þó ekki gert nema með höppum og glöppum eins og menn þekkja, en það er auðvitað þjóðin öll sem kom að þessu en ekki bara þeir sem eru skráðir eigendur þessa fyrirtækis.

Aftur og aftur spurðu menn í hv. iðnn.: Hvað er búið að borga í þetta fyrirtæki? Hvað er í raun og veru búið að borga inn í Landsvirkjun? Hvað hefur hver aðili borgað inn í Landsvirkjun? Í raun og veru komu engar nýjar upplýsingar fram um það. En í fórum okkar fundust upplýsingar um eiginfjárframlög, arðgreiðslur og ábyrgðargjald frá upphafi til ársins 1996, skjal sem var aldrei lagt fram í iðnn. en þar sem fram kemur að samtals hafa eigendurnir lagt fram --- hvað? Ekki 14 milljarða eins og á að fara að reikna tekjurnar af, 5,5% á ári, heldur 2 milljarða 149 millj. kr., sem sagt, sjöunda part af þeirri tölu sem á að fara að reikna arðinn af. Hér er um að ræða þau einu raunverulegu peningaframlög inn í fyrirtækið af hálfu eigendanna. Ég segi eins og er: Það er ranglátt að setja hlutina þannig upp að arður sé reiknaður af sjö sinnum hærri tölu, hann greiddur til eigenda og þessi arður verður þá a.m.k. ekki notaður til að lækka raforkuverðið á köldu svæðunum eða annars staðar í landinu.

[14:30]

Ég tel, herra forseti, að þetta sé einn alvarlegasti þáttur þessa máls. Hér er verið að taka ákvörðun um skattlagningu á raforkunotendur í landinu um gríðarlega háa upphæð. Menn sjá kannski best hvað hún er há með því að skoða hver heildarrafmagnssala Landsvirkjunar er á ári. En þannig er það, herra forseti, að þegar verið er að reikna þessi 5,5% þá eru þau reiknuð af reiknaðri eiginfjárstöðu upp á 14 milljarða. Út úr því koma 500--700 millj. kr. Hvað ætli Landsvirkjun selji mikið í peningum af raforku á ári? Það er auðvelt að finna það. Hún seldi á síðasta ári rafmagn til almenningsrafveitna fyrir 5,4 milljarða kr. alls. Niðurstaða þessa frv. ef það verður að lögum þýðir að tíunda hver króna sem Skagfirðingar borga fyrir rafmagn á næsta eða þar næsta ári fer til að borga eignaraðilum arð. Tíunda hver króna, þ.e. 500--700 millj. kr. af 5--6 milljörðum króna. Það á líka að setja málið í þetta samhengi. Með öðrum orðum með því að þetta væri ekki til ef menn vildu hafa það þannig þá væri hægt að lækka verðið á raforku um einn tíunda strax frá því sem það verður eftir að þessi löggjöf væri orðin að veruleika. Finnst mönnum þetta sanngjarnt í stöðunni? Vita menn þetta? Það er auðvitað alveg ótrúlegt að við búum við þá sérkennilegu stöðu í okkar þjóðfélagi, því miður, að hér er varla til neitt það sem má kalla róttæka gagnrýna fjölmiðlun sem flettir ofan af hlutum, lýsir þá upp og opnar þá. Maður verður var við það aftur og aftur í hverju málinu á fætur öðru að einstakir fjölmiðlar mynda keðjur sem eru meira og minna í böndum á vegum ákveðinna einstakra eignaraðila. Þannig að hrollur fer niður eftir bakinu á mönnum sem hugsa um þá stöðu. Mér kemur það í hug þegar ég kem að þessu máli. Hvar er hin frjálsa, opna, róttæka, gagnrýna fjölmiðlun á Íslandi sem segir frá hlutunum eins og þeir eru? Hvar er hún? Ég sé að oft eru myndarleg áhlaup gerð í einstökum blöðum og fjölmiðlum en málunum er ekki fylgt eftir. Það er ekki um að ræða opna, lýðræðislega, róttæka, gagnrýna umræðu um mál af þessum toga. Það er grafalvarlegt mál fyrir lýðræðið í landinu.

Fyrir rúmri einni viku, virðulegi forseti, héldum við aðalfund miðstjórnar Alþb. Miðstjórnarfundinn sóttu í kringum 100 manns. Þar voru rædd ýmis mál sem eru heit, eins og það heitir í hinni pólitísku umræðu í landinu. Sameiningarmál, menn vita hvað það þýðir, Evrópumál, menn vita hvað það þýðir. Svo gerist það á miðjum fundinum að bóndi nokkur norðan úr Skagafirði biður um orðið. Hann heitir Þórarinn Magnússon og býr á Frostastöðum. Hann er ekki í miðstjórninni en hann bað um að fá að tala og það gerði hann. Hann flutti mál sitt ekki eins og vanir ræðumenn gera heldur hægt og rólega og vandlega upp úr tölum og staðreyndum og rakti hver eru eiginfjárframlögin og hvernig verðið verður til okkar. Það gerist oft á fundum eins og miðstjórnarfundum að erfitt er að fá alla til að hlusta. En það hefði mátt heyra saumnál detta á meðan þessi maður var að gera grein fyrir þeim alvarlegu staðreyndum sem þetta frv. hefur í för með sér í skattlagningu á raforkuverð Skagfirðinga og annarra manna í landinu. Ég segi þetta, hæstv. forseti, vegna þess að ég er sannfærður um að það mundu fleiri menn en miðstjórn Alþb., sem hafði kannski ekki sett sig inn í þetta mál í einstökum atriðum, sitja dolfallnir undir þessum upplýsingum ef þeir fengju þær en því miður ef þetta frv. fer fram, sem margt bendir til, þá er það vegna þess að menn fá ekki að tala um málið. Menn fá ekki að skoða það í smáatriðum og skynja að málið er í besta falli óþarfi eins og það er. Það er ekkert sem rekur á eftir því að frá hlutunum verði gengið eins og hér er gert, ekkert.

Ég sagði áðan, herra forseti, að eitt af því sem skipti sköpum um samkeppnishæfni í lífskjörum á komandi árum og áratugum væri raforkuverð. Og fylgiskjal II í fylgiskjölum mínum sýnir raforkuverð til heimila í nokkrum löndum árið 1995 og til iðnaðar í nokkrum löndum 1995 og sést þar að Íslendingar standa allvel í þeim efnum og við þurfum á því að halda. Við þurfum að hafa hlutina þannig að því er varðar t.d. orkuverð að orkan sé ódýrari á Íslandi en annars staðar til þess að vega upp marga aðra hluti sem eru dýrari og þyngri í vöfum hér en í öðrum löndum.

Fylgiskjal III með nál. mínu er einkar athyglisvert en það er frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar segir svo, með leyfi forseta. Það eru þeir sem eiga að passa sveitarfélögin á Íslandi sem skrifa það. Þar stendur:

,,Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga eru skiptar skoðanir um efni frumvarpsins hvað varðar arðgreiðslur til eigenda enda hagsmunir einstakra sveitarfélaga ólíkir.``

Þetta er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég verð að segja alveg eins og er að það hvarflar að manni að lítið gagn sé í Sambandi íslenskra sveitarfélaga ef það getur ekki haft skoðun á svona máli. Það er kannski von vegna þess að aðalhöfundur þessa samkomulags, Vilhjálmur Vilhjálmsson, er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. En það er náttúrlega dálítið sérkennilegt og hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir sveitarfélögin og dreifbýlið og ekki bara dreifbýlið heldur líka nágrannasveitarfélögin hér eins og t.d. Hafnarfjörð, Kópavog, Seltjarnarnes, Mosfellsbæ, þegar Samband íslenskra sveitarfélaga treystir sér ekki til að hafa skoðun á þessu máli. Máli eins og því sem hér er á ferðinni.

Eitt fylgiskjalið með nál. mínu birtir sjónarmið borgarstjórans í Reykjavík. Það sem þar kemur fram er staðfesting á því sem ég hef sagt áður að meginframlag Reykjavíkur til Landsvirkjunar eru Sogsvirkjanirnar. Hvernig fjármagnaði Reykjavíkurborg Sogsvirkjanirnar? Var það borgað úr borgarsjóði? Nei, það var borgað af raforkunotendum á Reykjavíkursvæðinu og viðskiptasvæði Sogsvirkjananna. Það er veruleikinn í því máli.

Ég vek athygli á þeirri umsögn borgarstjórans í Reykjavík því hún er prýðileg og skýr. Ég vek sérstaka athygli á lokaorðum umsagnar borgarstjórans í Reykjavík þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Jafnframt því sem ég þakka tækifærið til þess að koma upplýsingum á framfæri við hv. iðnn. Alþingis legg ég áherslu á, að borgaryfirvöld eru því fylgjandi að sem mestur jöfnuður ríki í landinu og milli landshluta. Sem eigendur að Landsvirkjun hafa þau stutt þá verðjöfnun sem felst í samræmdri gjaldskrá til allra afhendingarstaða.``

Ég held að þetta sé í raun og veru mjög mikilvæg pólitísk yfirlýsing borgarstjórnar Reykjavíkur sem ég tel að sýni þar með að enginn ágreiningur er um það meginmarkmið sem þarf að vera uppi, þ.e. að halda sem jöfnustu raforkuverði. Ég er hins vegar að segja að ef þetta frv. verður að lögum þá teflir það því markmiði í tvísýnu.

Í fimmta lagi vil ég, herra forseti, síðan vekja athygli á fylgiskjali sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir rakti hér nokkuð áðan, varðandi Ríkisendurskoðun. Hún beindi orðum sínum til hæstv. iðnrh. Ég ætla að beina orðum mínum til hæstv. forseta Alþingis, eins og reyndar á að gera samkvæmt þingsköpum ævinlega en ég geri það sérstaklega í þessu tilviki. Fyrir nokkrum vikum flutti hæstv. forseti Alþingis ræðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1995. Þar kom fram að forseti taldi mjög nauðsynlegt að Ríkisendurskoðun hefði möguleika til að fylgjast með fyrirtækjum eins og Landsvirkjun. Í þeirri ræðu var þannig komist að orði að hingað upp í ræðustólinn snjóaði mönnum sem heimtuðu að fá að taka undir með hæstv. forseta Alþingis. Það var afstaða forseta Alþingis. Svo liggur þetta frv. hér fyrir og allt í lagi með það. Það er ákvörðun ráðherrans og ríkisstjórnarinnar að leggja frv. fram. En svo kemur frv. í þingnefnd. Hver er þá niðurstaða Ríkisendurskoðunar? Ríkisendurskoðun fer fram á að fá að fylgjast með þessu máli og ber fyrir sig sömu rökum svo að segja frá orði til orðs eins og hæstv. forseti Alþingis hafði gert í ræðu sinni. Hvað gerir þá þingnefndin? Hún vísar rökum Ríkisendurskoðunar í raun á bug. Mér finnst það dálítið athyglisvert þegar þess er gætt að þetta er skoðun forseta Alþingis. Ég vil fara fram á það í fullri vinsemd að forseti Alþingis og forsn. skoði hvort eftirlitshlutverki Alþingis er eðlilega fullnægt með því að henda Ríkisendurskoðun út úr lögunum eins og gert er samkvæmt frv. og að afgreiða hana með þeim hætti sem nál. gerði hér áðan. Það veitir heldur ekkert af eftirliti með svona fyrirtæki fyrir Alþingi. Sérstaklega þegar það virðist vera stefna ríkisstjórnarinnar að henda fulltrúum Alþingis út úr stjórn fyrirtækisins. Þá á auðvitað Ríkisendurskoðun að vera þarna inni, þeim mun frekar, en ekki þeim mun síður. Og að vísa til þess eins og hv. þm. Stefán Guðmundsson gerði að menn gætu bara borið fram fyrirspurnir um fyrirtækið Landsvirkjun þegar fram í sækti. Það dugar mér ekki. Það dugir ekki hinni þingræðislegu skyldu í þessu máli eða almennum þingræðislegum reglum. Ég fullyrði að í öllum löndum þar sem svipað stjórnarfar er og hér, þar sem menn eru með ríkisendurskoðun eða endurskoðunardómstól eins og er í Suður-Evrópu, þar er reglan sú að svona fyrirtæki heyra undir þingin og endurskoðunarstofnanir þeirra. Af hverju má það ekki? Stendur til að fela eitthvað? Er eitthvað gruggugt í bokahorni Landsvirkjunar sem Ríkisendurskoðun má ekki komast í? (Gripið fram í: ... sem stjórnmálamennirnir vita?) Þeir vita ekki um það en ég er að spyrja. Spyrja um þá sem flytja tillögu vegna þess að spurningin er hvað þeir vilja fela sem eru að flytja tillöguna. Enda hafa þeir líka tekið ákvörðun um að henda út fulltrúum Alþingis. Af því að þeim finnst óþægilegt að hafa þá í stjórninni. Það gæti nú svo sem skoðast alveg eins sem meðmæli og hitt. Þess vegna tek ég undir það með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að ef þetta mál fær neikvæðar undirtektir stjórnarflokkanna við 2. umr. þá skiptir það gríðarlega miklu máli. Ef þeir vilja hins vegar opna á að skoða þetta mál væri ég fyrir mitt leyti tilbúinn til að draga þessa tillögu til baka til 3. umr. þannig að hún fengi meðferð þar. Hæstv. forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að fara fram á það við forsetan sjálfan að þetta mál verði skoðað.

Herra forseti. Ein af þeim stofnunum í landinu sem þingmenn hafa borið mjög fyrir brjósti í orkumálum er Orkubú Vestfjarða. Orkubú Vestfjarða hefur oft komið við sögu í þessari virðulegu stofnun. Hvað sagði Orkubú Vestfjarða um þetta frumvarp? Orkubú Vestfjarða sagði, með leyfi forseta: ,,Af hálfu Orkubús Vestfjarða er frumvarpi þessu mótmælt og þess óskað að það nái ekki fram að ganga.`` Mér finnst alveg nauðsynlegt að leggja þá spurningu fyrir þingmenn Vestf. hvernig þeir svari þessum óskum Orkubús Vestfjarða. Ég legg þá spurningu fyrir þá þingmenn Vestf. sem er hér í salnum, m.a. hv. þm. Sighvat Björgvinsson og hv. þm., Einar Odd Kristjánsson. Hvernig ætla þeir að svara Orkubúi Vestfjarða í þessu máli? (EOK: Ég mun gera grein fyrir því á eftir.) Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson mun gera grein fyrir því á eftir og vonandi einnig hv. þm. Sighvatur Björgvinsson.

[14:45]

Í umsögn Orkubús Vestfjarða segir svo enn fremur, með leyfi forseta:

,,Útreikningi á ,,eigendaframlögum`` er hafnað.

Hver voru raunveruleg peningaframlög eigenda þessara virkjana?

Með sömu aðferðafræði geta eigendur Landsvirkjunar stofnað nýtt orkufyrirtæki og lagt Landsvirkjun inn í það og ,,eigendaframlögin`` í nýja orkufyrirtækinu væru þá 26 milljarðar kr.``

Ég fer fram á það við talnaglögga menn sem hér eru í salnum margir, allir, segi ég til öryggis, að þeir velti þessu aðeins fyrir sér og lesi þessa umsögn. Eftir þessari aðferðafræði sem hér er uppi gæti Landsvirkjun gerst aðili að fyrirtæki og lagt fram 26 milljarða sem eigendaframlag og heimtað vexti af því, þ.e. ef fylgt væri sömu aðferð og hér á vegum þess aðila sem kallaður er í þessum stól ,,djei pí`` Morgan en heitir á íslensku eins og kunnugt er J.P. Morgan.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara í einstökum atriðum yfir umsögn Orkubús Vestfjarða en ég skora á hv. þingmenn að lesa hana því að hún er afar vel unnin og afar fróðleg, bæði varðandi einokunaraðstöðu fyrirtækisins, gjaldskráreftirlit með fyrirtækinu og fleira.

Þá vil ég vekja sérstaka athygli á fskj. VII frá mér þar sem eru ítarlegar upplýsingar og samanburður á verðlagi raforku í ýmsum löndum frá fyrirtækinu Samorku. Þar er um að ræða mjög merkilegar upplýsingar um þá hluti sem eru þannig að við Íslendingar þurfum ekki að vera mjög óánægðir með orkuverðið á Íslandi. Ég ætla ekki að fara yfir það, herra forseti. Ég ætla aðeins að staldra við eitt atriði og það er að stundum er sagt að mikill munur sé á orkuverði á Íslandi. Það kemur fram í þessu skjali að í raun og veru er talsverður munur, en hann er kannski ekki eins mikill og menn halda stundum. Ef við tökum verð miðað við 3.500 kwst. notkun á Suðurnesjum, þá er það lægsta verð á landinu 1996 eða 7.32 með sköttum á kwst. Reykjavík er aftur á móti með 8.24 á kwst. Það er stundum talað um að þetta sé ódýrast og lægst og allt það í Reykjavík. Það er að vísu lágt en það er ekki lægst. Hæsta raforkuverð á landinu er 9,47 á kwst. og það er frá Rarik, 9,47. En ég vek athygli á því sem mér fannst dálítið athyglisvert, að það er mun lægra verð á raforkunni hjá Orkubúi Vestfjarða heldur en hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Mér finnst það dálítið umhugsunarefni vegna þess að ríkið hefur gripið til myndarlegra aðgerða til að skera niður kostnað hjá Orkubúi Vestfjarða en það skilar sér greinilega í lægra verði þar en hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Nóg um það, herra forseti.

Ég vísa þessu næst til fskj. nr. VIII sem er frá Hitaveitu Suðurnesja þar sem mjög mörg fróðleg atriði koma fram en ég ætla ekki að fara yfir í einstökum atriðum. Ég tek fram að ég er ósammála mörgu sem þar er, en ég tel að þar sé bent á margt sem ástæða sé til þess að skoða.

Ég vil líka vekja athygli á því að þetta mál snertir ekki bara hinar dreifðustu byggðir landsins heldur líka þéttbýlið. Það kom mjög athyglisverð umsögn frá Rafveitu Hafnarfjarðar, þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Augljóst er að ákvæði 2. gr. frv. um arðgreiðslur til hluthafanna, Reykjavíkurborgar, Akureyrarbæjar og ríkissjóðs, mun leiða til hækkunar á verði á raforku til Rafveitu Hafnarfjarðar og annarra rafveitna. RH hefur enga möguleika á að kaupa raforku annars staðar frá þannig að RH mun neyðast til að hækka gjaldskrá sína.

Rafveita Hafnarfjarðar mótmælir því harðlega ...`` frv. eins og það hér liggur fyrir.

,,Rafveita Hafnarfjarðar telur því eðlilegra að í stað arðgreiðslu til fyrrnefndra eigenda LV verði gjaldskrá LV lækkuð sem næmi fyrirhuguðum arðgreiðslum.``

Þetta segir Hafnarfjörður. Við vitum að Reykjavík, Hafnarfjörður og Kópavogur eru allt saman meira og minna eitt atvinnusvæði og lífskjarasvæði. Þetta er ekki gott innlegg í þá samstöðu sem þar þarf að vera að mínu mati.

Ég vek einnig athygli á bréfi frá Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi þar sem frv. er mótmælt. Ég vek athygli á greinargerð frá Bæjarveitum Vestmannaeyja sem er afar fróðlegt skjal, þar sem frv. er mótmælt. Ég vek athygli á yfirliti sem er fskj. XIII frá Landsvirkjun um ýmsa þætti þessa máls, en það er fyrst og fremst lagt hér fram til fróðleiks og loks vek ég athygli á umsögn frá Rafveitu Sauðárkróks þar sem lýst er fullri andstöðu við frv. eins og það liggur fyrir.

Ég held þess vegna, herra forseti, að þegar upp er staðið þá megi segja að í landinu öllu utan Reykjavíkur sé andstaða við málið, full og veruleg andstaða utan Reykjavíkur hjá öllum raforkugeiranum eins og hann leggur sig. Og ég fullyrði líka að þeir þingmenn sem koma þaðan hafa líka áhyggjur af þessu máli. Ég held að það sé jafnframt ljóst að í Reykjavík eru einnig miklar áhyggjur af þessu máli, m.a. af þeirri stöðu sem Reykjavík mun fá í framhaldi af þessum niðurstöðum. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, herra forseti, að menn séu að ganga of langt og það sé skynsamlegast að hinkra og fara yfir málin í rólegheitum í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur orðið og þarf að verða. Þess vegna flyt ég, herra forseti, í fyrsta lagi tillögu um að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Þar er gert ráð fyrir því að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar, að málið fari þar í samningaviðræður á ný við Reykjavík og Akureyri og að reynt verði að ná niðurstöðu sem er ásættanleg og sæmileg sátt um og málið komi hér aftur fyrir apríllok. Þetta finnst mér sanngjörn tillaga og ættu allir að geta fallist á að þetta er skynsamleg leið. (Gripið fram í.) Þetta er fyrsta tillagan, já. Ef hv. þm. sem alltaf er að reyna að grípa fram í mundi rétta mér tillögur mínar þá mundi ég verða honum ævinlega þakklátur. Já. Takk fyrir. Og svo er eitt skjal enn sem var verið að dreifa núna áðan. (Gripið fram í.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fer að vanda með dár og spé og ber að harma að hann skuli ekki geta haldið sér á mottunni þegar það á við.

Varðandi málið að öðru leyti og breytingartillögur í því vil ég segja að ég stend að breytingartillögu ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Sighvati Björgvinssyni sem fram hefur komið um Ríkisendurskoðun. Ég stend einnig að tillögu um að starfsemi Landsvirkjunar eigi að falla undir samkeppnislög. Ég styð þá tillögu og flyt hana reyndar ásamt þeim. Síðan flyt ég tillögu um breytingu á 2. gr. og ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra og hv. þm. sem hér eiga eftir að tala hvað þeir ætla að gera við þá tillögu, þ.e. hver afstaða þeirra er, einkum hv. þm. Stefán Guðmundsson. Sú tillaga gerir ráð fyrir því að þetta standi í greininni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Áður en arður er greiddur út samkvæmt ákvæðum þessarar greinar skal orkuverð hafa breyst og lækkað í samræmi við samning eignaraðila frá 28. október 1996, um breytingu á sameignarsamningi aðila, sbr. 3. mgr.``

Hér er í rauninni verið að segja það sem hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði áðan að væri stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli þannig að ég held að það væri mjög æskilegt ef menn skoðuðu það mjög alvarlega að fallast á þessa tillögu. Ég sé engin efnisleg rök á móti henni. Þeir eru búnir að samþykkja hana, vilja hafa hana í nefndaráliti, ræðum og yfirlýsingum og ég skora á þá að setja hana hér inn. Þeir munu kannski bera því við að hinir eignaraðilarnir muni ekki fallast á þetta, Reykjavík og Akureyri. Og ég segi við þá að ég skora á þá að láta á það reyna. Ég hef enga trú á því að Reykjavík eða Akureyri muni leggjast gegn óskum af þessu tagi. Ég veit að þær hafa ekki verið bornar fram en ég skora á þá að bera þær fram og fresta afgreiðslu málsins hér þar til það liggur fyrir hver afstaða borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Akureyrar er í þessu máli.

Í öðru lagi ber ég fram breytingartillögu sem er á þessa leið, herra forseti:

,,Alþingi kýs þrjá stjórnarmenn, borgarstjórn Reykjavíkur þrjá og bæjarstjórn Akureyrar einn.``

Þetta þýðir að Alþingi kýs áfram stjórnarmenn svo sem verið hefur en þeir verða ekki allir þrír skipaðir af ráðherra eins og gerð er tillaga um. Rökin eru sögð vera þau að þarna eigi að greina í sundur framkvæmdarvald og löggjafarvald og þarna eigi að tryggja að ráðherrann sé með skýrum hætti ábyrgur fyrir þessu máli og allt það. Þetta eru út af fyrir sig ágætis rök í sjálfu sér. En þau halda náttúrlega ekki að öllu leyti þegar þess er gætt að hér er um að ræða sameignarfélag þar sem hinn aðilinn og hinir aðilarnir eru með kosna pólitíska fulltrúa í stjórn fyrirtækisins. Þess vegna heldur það ekki að henda fulltrúum Alþingis út um leið og Akureyri og Reykjavík eru með sína pólitísku fulltrúa inni. Ég hefði út af fyrir sig talið það komið til greina að breyta öllu stjórnskipulagi þessa fyrirtækis þannig að allir yrðu einhvern veginn skipaðir af viðkomandi framkvæmdarvaldshöfum, en um það er ekki að ræða í þessu tilviki og þess vegna hvet ég til þess að menn íhugi það að kalla til baka tillögu um það að setja Alþingi út úr stofnuninni. Ég skora á menn að umgangast þessa tillögu og aðrar sem hér eru fluttar og annan málflutning hér á opinn hátt og ekki láta reyra sig fasta að böndum stjórnarflokkanna.

Í þriðja lagi, herra forseti, flyt ég tillögu á þskj. 561 þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Við verðákvarðanir skal fylgja þeirri stefnu sem kveðið er á um í samningi eignaraðila um breytingu á sameignarsamningi aðila frá 28. október 1996.``

Ég fer sem sagt fram á að þetta verði staðfest við 8. gr. Í raun og veru má segja að þetta sé flutt til vara. Ef breytingartillaga við 2. gr. verður felld þá kæmi þessi inn til viðbótar við þá breytingartillögu sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Sighvati Björgvinssyni, breytingartillögu við sömu grein um að þar komi inn eftirlit Samkeppnisstofnunar. Þetta atriði vildi ég nefna, herra forseti, og hef þá farið yfir mínar breytingartillögur og bent á fskj. en ekki rætt þau eins og ástæða væri auðvitað til.

Ég ætla ekki að ræða sérstaklega um 1. gr. Mér finnst hún í sjálfu sér vera slæm eins og hún er í frv. Mér sýnist hún vera til bóta eins og hún er hjá hv. meiri hluta. Ég fagna þeirri viðleitni sem þar er og er út af fyrir sig tilbúinn til þess að virða það mál fyrir mér með hliðsjón af málinu í heild. En þessi tillaga snertir í sjálfu sér ekki eigendasamkomulagið. Hún er algjört sérmál og sú tillaga er í rauninni meira og minna út í loftið satt best að segja þannig að ég mun ekki segja margt um hana á þessu stigi.

Hæstv. iðnrh. beitir þeim aðalrökum í þessu máli að Reykjavíkurborg hafi viljað fá að vita hvað hún gæti haft upp úr eignarhlut sínum í Landsvirkjun og að hún hafi óskað eftir því að það yrði stofnuð eigendanefnd. Þetta er rétt. Ég tel að þetta sé algjörlega eðlilegt sjónarmið hjá Reykjavíkurborg. Spurningin er bara hver þessi eigendahlutur er. Um hann snýst ágreiningurinn. Er hann 26 milljarðar? Er hann 14 eða 2? Um það snýst ágreiningurinn og það er giska mikill ágreiningur. Ég held þess vegna að það væri eðlilegt að reyna að semja sig út úr honum aftur eins og við leggjum til í breytingartillögunni sem ég gerði grein fyrir áðan.

Því er ekki hægt að neita eins og ég rakti hér í upphafi að þetta mál er unnið á ótrúlega þröngan pólitískan hátt af fulltrúum Framsfl. og Sjálfstfl. sem höfðu þó ekki samband við sína flokksmenn nema í mjög takmörkuðum mæli. Það er mér kunnugt um. Það er mikil óánægja með þetta mál í Sjálfstfl., bæði í borgarstjórn Reykjavíkur og hér, og eins í Framsfl. Það er mér kunnugt um. Hið sama er að segja um Akureyrarbæ. Hér er hins vegar að nokkru leyti um að ræða pólitískt valdabrask.

[15:00]

Eins og kunnugt er lætur núverandi forstjóri Landsvirkjunar af störfum í lok þessa árs 1997, Halldór Jónatansson, sem hefur gegnt því starfi farsællega um skeið. Ég vil láta það koma fram af því að ég nefni nafn hans að ég hef kynnst honum þann skamma tíma sem ég hef setið í stjórn Landsvirkjunar og hefur líkað vel. Ég vil hins vegar segja að ég hef orðið var við undirgang að ekki sé meira sagt í sambandi við þetta forstjórastarf --- ég sagði ekki draugagang --- ég sagði undirgang. Og það er greinilegt að ýmsir eru að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að tryggja að þeir geti komist að þessu starfi. Kunn er aðferð stjórnarflokkanna sem lýst er í bókinni Í eldlínu kalda stríðsins --- einn fyrir mig og einn fyrir þig -- þegar helmingaskiptaflokkarnir eru annars vegar. Kunn er sú aðferð að ef Framsókn fær formanninn þá fær íhaldið forstjórann eða öfugt. Og það er dreift um það tíðindum að ýmsir af ráðherrum Sjálfstfl. séu orðnir lúnir (Gripið fram í: Allir.) af slímusetum í ráðherrastól. Það þurfi að færa þá til. Það sé áhugi á að færa þá til, áhugi á að stokka upp og skipta um. Og margir eru það í þingliði Sjálfstfl. sem munar í stólana hér, mér á hægri og vinstri hönd. Og greinilegt er að hluti af þessu frv. og bakgrunni þess er tilkominn af því að menn eru að undirbúa þessa landvinninga fyrir forstjóra Landsvirkjunar, það er augljóst mál. Valdabraskið sem einkennir þessa aðila skín í gegnum málatilbúnaðinn. Það er auðvitað leitt til þess að vita vegna þess að forstjóra Landsvirkjunar á auðvitað að ráða á faglegum grundvelli með hæfnismati, eins og gert er t.d. þegar ráðnir eru prófessorar við Háskóla Íslands, þar sem tiltekin skilyrði þarf að uppfylla en ekki að undangengnum hrossakaupum stjórnarflokkanna. Ég óttast að það sé hins vegar veruleikinn og ég spái því, herra forseti, að fari svo að þetta frv. verði að lögum eins og það liggur hér fyrir, þá muni menn í janúar 1998, þegar fjallað hefur verið um forstjórastólinn í Landsvirkjun, jafnvel geta minnst þeirra orða sem hér eru sögð nú í febrúar 1997, og þá hafi komið í ljós að undirrótin var þessi ótrúlega árátta Framsfl., alltaf þegar hann kemst í stjórn og aðstöðu, í hrossakaup --- að versla með hvaðeina. En það er slæmt, herra forseti, að raforkunotendur á Íslandi, allt í kringum landið, skuli þurfa að borga á næstu árum hálfan milljarð á ári ofan á rafmagnsverðið sitt fyrir þau hrossakaup.