Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 15:03:31 (3053)

1997-02-04 15:03:31# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[15:03]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var yfirgripsmikil ræða hjá hv. þm. Svavari Gestssyni eins og hans var von og vísa. Aðeins til að taka af allan vafa. Hann sagði að upplýsingar hefðu verið lokaðar inni. Bara til að það komi hér ljóst fram --- upplýsingum var ekki haldið leyndum í iðnn., ég vil að það sé skýrt. 28 eða 30 aðilar voru kallaðir til eða komu með umsagnir sem um var fjallað til nefndarinnar.

Einnig vil ég víkja að því sem hv. þm. sagði í sambandi við orkuverðið, að menn væru áhyggjufullir vegna orkuverðsins og það ætti ekki að lækka. Það er margkomið fram og ég vænti þess að iðnrh. verði við ósk minni um að staðhæfa það sem hann og sagði hér við 1. umr. málsins að arðgreiðsluhlutfallið er víkjandi fyrir orkuverðslækkun. Orkuverð á sem sé að lækka árið 2001 um 3% á ári til ársins 2010. Og ég vil einnig minna hv. þm. á það að arðgreiðsla sem fellur til ríkisins, sem er helmingur arðs, á að renna til atvinnusköpunar á þeim svæðum sem ekki njóta arðsins vegna eignaraðildar að Landsvirkjun. Þetta er nauðsynlegt að komi fram, hv. þm. Vegna þess að ég veit að hv. þm. Svavar Gestsson vill hafa það sem sannara reynist er nauðsynlegt að þetta komi hér fram --- að yfir helmingur af útborguðum arði á að koma til þess að treysta uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Um þetta er full sátt í núverandi ríkisstjórn.