Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 15:26:22 (3060)

1997-02-04 15:26:22# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[15:26]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem við ræðum um, breytingar á lögum um Landsvirkjun, er afar mikilvægt mál sem skiptir bæði fyrirtækið og viðskiptaaðila þess mjög miklu. Því er eðlilegt að farið sé yfir það í þinginu og raunar þyrfti það að njóta þeirrar athygli utan þings sem það verðskuldar því að hér er að mörgu leyti allóvenjulegt mál á ferðinni en einnig mjög pólitískt málefni. Það vísar ekki inn í framtíðina með þeim hætti sem æskilegt hefði verið. Þær breytingar sem verið er að gera frá gildandi lögum eru því miður engan veginn þannig að hægt sé að líta á þær sem jákvætt innlegg í orkustefnu í landinu.

Það er hins vegar ljóst að hér er aðeins um upphafið að meiri háttar breytingum að ræða sem ríkisstjórnin stefnir að í sambandi við orkumál og skipulag orkumála. Þess er að vænta samkvæmt nál. og yfirlýsingum hæstv. iðnrh. hér fyrr að bráðlega komi inn í þingið mun viðameiri tillögur sem varða breytingar á framtíðarskipan orkumála. Í nál. meiri hlutans segir á þá leið að snemma næsta árs hyggist iðnrh. leggja fram till. til þál. um það efni. Það mál er vakið upp, ekki síst vegna tilskipunar sem hefur verið í meðförum hjá Evrópusambandinu og var leidd til lykta á síðasta ári þar skömmu fyrir áramót sem breytir grundvelli orkumála innan Evrópusambandsins og stendur til að færa undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gera þá aðilum að þeim samningi, sem eru utan Evrópusambandsins, að yfirtaka þær breytingar og lögfesta eða tryggja framgang þeirra í aðildarríkjunum.

Þarna eru sem sagt á ferðinn mjög stór mál og afdrifarík. Það er athyglisvert að meiri hlutinn vekur athygli á þessum málum í nál. sínu og tengir það við frv. sem hér er á ferðinni. Það er kannski ekki undarlegt vegna þess að þær breytingar sem frv. felur í sér að því er varðar viðhorf til fjármagnsins, viðhorfið sem endurspeglast í endurmetnum arðgreiðslum til eigenda fyrirtækisins eru af alveg sömu rót og þær breytingar sem nú hafa verið ákvarðaðar innan Evrópusambandsins um að markaðsvæða í áföngum orkumálin í Vestur-Evrópu. Það er ekkert annað og minna sem þar er á ferðinni og innleiða þar harðstjórn peninganna á sem flestum sviðum.

[15:30]

Það er eins með samkomulagið sem gert var í ráðherraráði Evrópusambandsins, að það var gert í áföngum. Það er alveg ljóst að stefnt er að því að þar verði lögmál fjármagnsins og frelsi fjármagnsins leitt í öndvegi með þeim kröfum um arð og annað sem að því lýtur. Við erum í rauninni að sjá upphafið að þessari vegferð í frv. Það er mjög leitt til þess að vita að leiddar skulu vera að því líkur í frv. og nál. meiri hluta iðnn. að þetta mál eigi upptök hjá sveitarstjórnum í landinu sem eru meðeigendur ríkisins að Landsvirkjun. Ég held að það sé skálkaskjól að einhverju leyti hjá hæstv. iðnrh. því ég er sannfærður um að þær breytingar sem hæstv. ráðherra er hér að innleiða, einnig á öðrum sviðum að því er varðar skipan málefna Landsvirkjunar, felast í því að færa fyrirtækið nær, eins og kallað er, skipan hlutafélaga. Það er upphafið að þessari markaðsvæðingu sem við fáum að sjá væntanlega betur ef hæstv. ráðherra stendur við það, sem boðað hefur verið, að koma með þáltill. um þessi efni. Þar eru menn í rauninni að taka þennan stóra málaflokk, sem hefur ekki verið hluti af opnum markaði, og markaðsvæða hann með öllum sínum fylgifiskum.

Það verður efni í mikla umræðu á Alþingi þegar þau mál koma inn í þingið. Það er ekki spurning um það. Ég er hræddur um að þrengist fyrir dyrum kotkarla, einnig þeirra sem formaður iðnn., hv. þm. Stefán Guðmundsson, telur sig væntanlega málsvara fyrir. Ég er ansi hræddur um að þrengist í búi hjá mörgum þeim sem þurfa að gjalda fyrir það frelsi fjármagnsins og markaðarins sem hér á að innleiða. En það er því miður margt fleira sem hangir á þeirri spýtu sem snertir grundvallarspurningar í sambandi við orkumálin og möguleikana á að koma þar við eðlilegri stjórn mála.

Ég held að þörf sé á því að nefna það við þessa umræðu, virðulegur forseti, að margt af því sem þar kemur til álita snertir ýmsa undirstöðuþætti og er nátengt þeim málum sem varða umhverfi jarðar, umhverfismálin. Ég sé ekki að sú markaðsvæðing, sem verið er að innleiða í litlu í þessu frv. en boðað í meira mæli í komandi tillögum, verði ekki til þess að auðvelda jarðarbúum að ná tökum á þeim mikla vanda sem við er að fást né heldur til þess að auðvelda ríkjum m.a. í Evrópusambandinu, sem nú glíma við gífurlegan vanda í efnahagsmálum og alveg sérstaklega að því er varðar atvinnuleysi, sú markaðsvæðing verði ekki til þess að auðvelda glímuna við þau mál. Það er ekki þar með sagt að ekki geti komið til greina vissar breytingar í sambandi við þessi efni frá því sem nú er til þess að gera verðmyndun m.a. í orkumálum augljósari og gagnsærri. Taka þar inn ýmsa þætti sem hafa verið duldir og sem ástæða er til að fá upp á yfirborðið vegna þess að meðferð orkulinda, hvort sem þar er um að ræða lífrænar leifar og afurðir þeirra eða kjarnorku eða hinar svonefndu endurnýjanlegu orkulindir. Full þörf er á því að leiða fram í rauninni þann samfélagslega kostnað sem býr þar að baki. En það er hægt að gera á annan hátt en nú er stefnt að innan Evrópusambandsins. Það er hægt að gera það.

Síðan kemur spurningin, virðulegur forseti, af því að ég mun ekki ræða þau mál mikið frekar, um það að hve miklu leyti þær hugmyndir um markaðsvæðingu sem boðað er að reynt verði að innleiða í áföngum falla inn í okkar aðstæður á Íslandi. Hversu skynsamlegt er að yfirtaka þær einnig með þeim hætti sem stuðningsmenn hæstv. iðnrh. hafa látið að liggja og tekið mjög undir að gert verði. Ég er þá að vísa til skýrslunnar um framtíðarskipan orkumála sem skilað var til ráðherra í haust. Ég held að þær aðstæður sem við búum við hérlendis í þessum efnum kalli á að við förum ekki inn á þá braut, nema þá í mjög litlum mæli, sem verið er að innleiða innan Evrópusambandsins. Við eigum eftir að sjá hvernig frá þeim málum verður gengið, hvort Íslendingar í þeim samningum sem þar hafa staðið yfir og þeirri viðleitni EFTA-ríkja og sérstaklega Íslands í því samhengi að tryggja sér undanþágur frá þeim meginreglum sem felast í tilskipun Evrópusambandsins um þessi efni, um innri markað á raforkusviðinu. Í þeim efnum hefur ekkert verið upplýst og kannski ekki einu sinni búið að fá úrslit í þau mál því síðast þegar ég vissi var viðleitni af hálfu EFTA-aðila og þeirra sem þar störfuðu fyrir íslensk stjórnvöld til að fá viðurkennda ákveðna sérstöðu af okkar hálfu. Þetta á eftir að koma í ljós.

Ég nefndi, virðulegur forseti, þann mikla vanda sem við er að fást á alþjóðavísu og á eftir að magnast og tengist orkunotkun, meðferð orkulinda og þá ekki síst þeim hluta orkunnar sem kemur frá lífrænum leifum, olíu, kolum og öðru slíku en einnig vegna orkunotkunar sem gerist í krafti endurnýjanlegrar orku. Vegna þess að það er ekki svo, virðulegur forseti, að við sem státum okkur með réttu af því að búa hér allvel miðað við fólksfjölda að endurnýjanlegum orkulindum notum ekki þá orku á þann hátt sem engan veginn er sjálfbær. Hæstv. ríkisstjórn stefnir að því að bæta þar mjög við í sambandi við iðnað byggðanna á orkulindum stóriðju sem veldur stórfelldri röskun á umhverfi jarðar með mengun og leggur í þann ljóta sarp sem veldur loftslagsbreytingum. Það sem íslensk stjórnvöld hafa á sínum borðum um það efni vegur mjög þungt, reiknað á íbúa, ef það gengi eftir.

Spurning kann að skýrast eitthvað á næstunni hvert ríkisstjórnin kemst í þeim áformum því það er verið að vinna að því á alþjóðavettvangi, virðulegur forseti, að ganga frá lagalega skuldbindandi samningi í sambandi við mengun í lofthjúpinn sem veldur loftslagsbreytingum og íslenska ríkisstjórnin er hluti af því ferli og hefur tekið þá afstöðu eindregið að ganga beri frá lagalega skuldbindandi samningi. Hæstv. umhvrh., sessunautur hæstv. iðnrh. hér í þinginu, fer með þessi mál og hans fulltrúar starfa í því samningaferli á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem hér er verið að vísa til, að ná fram lagalega skuldbindandi samningi. Það er vel því auðvitað væri það fjarstæða fyrir Íslendinga að skerast úr leik í svo þýðingarmiklum málum sem hér er um að ræða, úrslitamál fyrir framtíð jarðar þar sem um er að ræða lífshagsmuni og líftaug Íslendinga ef þær vísbendingar sem sérfræðingar hafa sett á blað um áhrifin af loftslagsbreytingunum á svæðið við norðanvert Atlantshaf, þar á meðal hafsvæðinu og hafstrauma gengju eftir. Í þeim efnum ætla menn væntanlega ekki að taka mikla áhættu. Það er fróðlegt að vita, virðulegur forseti, hvort iðnn. hefur leitt hugann að þessu í sambandi við meðferð mála. Það má kannski segja að enn þá brýnna verði þegar kemur að tillögu ráðherrans um framtíðarskipan orkumála hvernig á því verði tekið. Hins vegar hefur iðnn. að sjálfsögðu skyldur í þessum efnum að setja sig inn í það samhengi sem hér er um að ræða. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta í samhengi við einstaka samninga um stóriðju sem miklu ráða um það hvað gerist í þessum efnum, en ég vildi minna á þetta.

Það kom fram hjá talsmanni 2. minni hluta, hv. þm. Svavari Gestssyni réttilega, eins og annað sem fram kemur í nál. hans, að mjög mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að hafa þær orkulindir og nýta þær fyrir okkar almenna hag, almenna búskap eins og tekist hefur til þessa. Skiptir það mjög miklu fyrir lífskjör þjóðarinnar. Það er engin spurning. Við deilum hins vegar nokkuð um jöfnuð og hvernig eigi að tryggja eðlilegan jöfnuð í þeim málum þannig að allir landsmenn fái notið þessara orkulinda með svipuðum hætti þótt maður segi ekki að alveg 100% jöfnuður verði tryggður út í æsar. Í rauninni hefur sú krafa ekki verið sett fram, enda kannski torvelt að ná þar 100% markmiði. Hv. þm. nefndi það að í því samhengi væri æskilegt að orkuverð almennt væri sem lægst. Ég vil um leið og ég tek undir þetta vil ég þó segja að ég tek undir það út frá samanburði við aðra orkugjafa og orkugjafa annars staðar í heiminum, sem sagt það sem varðar slíkan samanburð, ekki mælt í krónum og aurum. Hvers vegna segi ég það, virðulegur forseti? Jú, það er af þeirri ástæðu að ég tel að eitt af því brýnasta á alþjóðamælikvarða í orkumálum sé að orkuverð hækki í heiminum á heildina litið til þess að setja bremsur á þá gengdarlausu sóun sem fram fer og sem knúin er áfram af mikilli orkunotkun. Það er fátt jafnþýðingarmikið í rauninni til að ná einhverjum tökum á því sem menn hafa sett sér sem markmið á alþjóðamælikvarða, sjálfbærri þróun, að tryggja að undirstaðan, orkunotkunin, sé á eðlilegum verðmælikvarða út frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar. Í því samhengi þurfum við Íslendingar að nýta okkar orkulindir þannig að við höldum hlutfallslegu forskoti sem á að vera auðvelt mál að tryggja vegna þess að við búum óvenjuvel að endurnýjanlegum orkulindum. Og ég held að það sé alveg ljóst ef þessi mál eru skoðuð út frá þessum mælikvarða, samþættum mælikvarða orkunýtingar og umhverfis, að við eigum að geta nýtt orkulindir okkar til langrar framtíðar sem mikilvægra undirstaða sem veiti okkur bærileg kjör, því að menn þurfa ekkert meira og eiga ekkert að hafa meira en bærileg kjör til þess að lifa lífinu þokkalega. Það gengur ekki sú sjálfgengisvél framleiðslu og sívaxandi sóunar í heiminum sem mætti halda að væri það sem menn væru að panta og biðja um, því að hún leiðir til hins mesta ófarnaðar fyrir mannkynið og raunar miklu fyrr heldur en margir telja ef svo heldur fram sem horfir. Þess vegna þurfum við líka að umgangast þessar auðlindir af mikilli varúð og mikilli forsjálni að því er varðar ráðstöfun þeirra og nýtingu og að sjálfsögðu að teknu ríkulegu tilliti til annarra þátta sem setja nýtingu þessara orkulinda takmörk. Þá er ég að vísa til umhverfissjónarmiða sem við eigum að hafa í heiðri og taka í miklu ríkari mæli inn í nýtingarþáttinn en gerst hefur, þegar rætt er um hann.

[15:45]

Svo ég snúi mér frá þessum almennu þáttum, virðulegi forseti, og að frv., þá er raunalegt að upp skuli komin sú krafa um arðgreiðslur sem hér liggur fyrir og stendur til að lögfesta. Það er ekki síður hörmulegt að meiri hluti iðnn., þeir hv. þingmenn sem þar skrifa undir, skuli taka undir þær kröfur sem eru bókaðar í hinum nýja sameignarsamningi að þessu leyti, kröfur sem eru reistar á fölskum grunni eins og hér hefur verið rækilega sýnt fram á af hv. þm. Svavari Gestssyni og menn geta lesið í nefndaráliti hans, þar sem eigendahluturinn er talinn sjöfalt hærri heldur en eðlilegt væri og arðgreiðslukrafan óeðlileg og ósanngjörn í samræmi við það.

Ég hlýt að spyrja, virðulegur forseti, hvað fær þingmenn sem eru fulltrúar fyrir landsbyggðarkjördæmi til þess að taka undir slíkar kröfur? Hvað veldur því að þingmenn Framsfl. beygja sig fyrir þeim sjónarmiðum og þeim kröfum sem hér eru fram lagðar? Hvað segja þeir sem hafa sýnt þessum hv. þm. trúnað og stuðning við slíkri málafylgju?

Ég hlýt að vekja athygli á því, virðulegur forseti, hversu ólíkt er staðið að málum á þessu sviði af hálfu Alþb. sem stjórnmálaflokks og hins vegar Framsfl. og þá get ég raunar vísað til fortíðar, langt til baka. Í þessu máli kemur mjög skýrt fram það eðli og sú stefna Alþb. að standa við orð sín og grundvallarstefnu um jöfnuð, því að það er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis, Svavar Gestsson, talsmaður okkar í þessum málaflokki, sem stendur fyrir þau sjónarmið sem hér eru lögð fram í nafni þingflokksins. Það eru sjónarmið sem eðli málsins samkvæmt eiga sér hljómgrunn hér á þéttbýlissvæðinu, höfuðborgarsvæðinu, þegar höfðað er til eiginhagsmunasjónarmiða fólks og fyrirtækja, en ganga gegn hagsmunum þess minni hluta þjóðarinnar sem nú byggir það sem við köllum landsbyggð.

Það var sú tíð, virðulegur forseti, að stuðnings var að vænta frá Framsfl. þegar um slík mál var að ræða að reyna að tryggja hagsmuni þeirra sem í dreifbýlinu búa og í sjávarbyggðunum á landsbyggðinni. En sá stuðningur er ekki lengur þarna og menn sjá muninn á annars vegar þeirri stefnu sem hæstv. iðnrh. reiðir hér fram, þingmaður Reykjavíkurkjördæmis, og þeirra sjónarmiða sem hv. þm. Svavar Gestsson talar hér fyrir. Menn sjá muninn í þessum andstæðu viðhorfum, annars vegar jafnréttisviðhorfinu sem Alþb. talar fyrir og hins vegar í arðsemiskröfunni, út frá fölsuðum eignarforsendum varðandi eignarhlut eins og hér hefur verið sýnt fram á, (StG: Ekki að þær væru falsaðar.) ja, falsaðar eins og þær liggja hér fyrir. (Gripið fram í: Þetta eru stór orð.) Hv. talsmaður meiri hluta iðnn. ætti bara að koma hér og sýna fram á að það sé rangt sem hér hefur verið reitt fram í nefndaráliti 2. minni hluta iðnn. um að það sé í raun sjöfölduð sú upphæð svonefndra eigendaframlaga frá því sem eðlilegt er að telja og yfir í þann grunn sem lagður er sem undirstaða fyrir væntanlegar arðgreiðslur samkvæmt frv., tölur sem fram eru reiddar með stuðningi Landsvirkjunar og segja sína sögu. Og það breytir engu hér af hálfu okkar þingmanna Alþb. þó að það sé augljós hagur sveitarfélagsins Reykjavík eða sveitarfélagsins Akureyri að fá lögfest það frv. sem hér er, augljós hagur út frá skammtímasjónarmiðum. Hér reynir á hver viðhorfin eru og hvernig menn nota vald sitt hér á Alþingi í þessum efnum, það vald sem fólgið er í atkvæði.

Hér kemur ýmislegt fram í nefndarálitum, virðulegur forseti, og í nefndaráliti 1. minni hluta iðnn. er m.a. bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík sem endurspeglar þessi viðhorf út frá sjónarhorni sveitarfélagsins, kannski ekkert óeðlileg, en ekki þess efnis að ástæða sé til að taka undir þau af minni hálfu. Þar er verið að rekja með yfirborðslegum hætti eignamyndun Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun annars vegar og síðan er í sérstökum kafla í erindi frá borgarstjóra yfirlit um aðgerðir til jöfnunar og lækkunar raforkuverðs. Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að vitna til kafla úr því erindi, þar sem segir, frá borgarstjóranum í Reykjavík:

,,Auk alls ofangreinds`` --- þar sem talið hafði verið upp í einstökum liðum hvað hefði verið lagt til verðjöfnunar á liðinni tíð. ,,Auk alls ofangreinds er rétt að benda á að jöfnunargjaldskrá Landsvirkjunar hefur haft í för með sér gífurlegan tilflutning fjár. Raforka er seld samkvæmt sömu gjaldskrá frá 23 sölustöðum í mjög mismikilli fjarlægð frá virkjununum og í nálægðan við mjög misstóran markað. Flutningskostnaður Landsvirkjunar er afar mismunandi eftir landshlutum eins og glögglega hefur komið fram m.a. á ársfundum Landsvirkjunar og orkuþingum. Íbúar á orkuveitusvæði Rafmagnsveitu Reykjavíkur njóta því ekki stærðar og hagkvæmni markaðarins á þessu svæði. Auk þess taka þeir þátt í verðjöfnuninni bæði sem helmingur þeirra landsmanna sem eiga hlut ríkisins í Landsvirkjun og sem eigendur 45 hundraðshluta í Landsvirkjun gegnum Rafmagnsveitu Reykjavíkur.``

Þetta segir í þessum kafla. Ég er að vekja athygli á þessum málflutningi vegna þess að ég er honum ósammála, þ.e. sem rökstuðningi fyrir arðgreiðsukröfu af hálfu Reykjavíkur. Hér má lesa milli línanna að það sé eðlilegt að fara að taka mið af aðstæðum eins og fjarlægð frá virkjunum, nálægð virkjana við markað, flutningskostnaði og annars af þeim toga. En til að öllu sé til haga haldið, þá hefur komið fram og kemur fram í 3. tölul. í erindi borgarstjórans að borgaryfirvöld eru því fylgjandi að sem mestur jöfnuður ríki í landinu á milli landshluta. Það eru falleg orð, en mér finnst að það sé ekki samkvæmni í þeim, arðgreiðslukröfunni annars vegar og þess sem kemur fram í þessum orðum sem ég nefndi hér síðast. Þar segir til viðbótar, virðulegi forseti:

,,Sem eigendur að Landsvirkjun hafa þau`` --- það eru borgaryfirvöld --- ,,stutt þá verðjöfnun sem felst í samræmdri gjaldskrá til allra afhendingarstaða. Það er hins vegar bæði eðlilegt og sanngjarnt að hægt sé að glöggva sig á því hve mikil verðjöfnun er í einstökum tilvikum og að verðlagning á raforku sé sæmilega ,,gegnsæ``, þar með talinn flutningskostnaður. Þá hlýtur það að teljast óeðlilegt að fyrirtæki eins og Landsvirkjun sé starfrækt án þess að hæfilegur arður sé greiddur af bundnu fé eigenda. Raunar stangast það beinlínis á við ákvæði gildandi laga um fyrirtækið þar sem segir að raforkuverð skuli við það miðað að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins. Sú niðurstaða sem nefnd eigenda komst að um hóflegar arðgreiðslur rúmast svo sannarlega innan þess ramma.`` Tilvitnun lýkur og lokaorð í þessu erindi borgarstjórans í Reykjavík til hv. iðnn.

Eitt er það, virðulegur forseti, að verðlagning almennt á raforku sé gegnsæ, þar með talinn flutningskostnaður. Það er eitt. Og það getur verið gott og gilt markmið og víða getur átt við að það þurfi að fást fram. En það er hins vegar önnur spurning hvort það á að leiða til mismununar í raforkuverði og mismunandi aðstöðu almennings í landinu til afhendingar á orku og verðlagningar á orku. Ég svara því neitandi. Og þegar vísað er til þess að greiddur hafi verið arður af eigendaframlögum til Landsvirkjunar hingað til, þá er þar ólíku saman að jafna miðað við þá hertu kröfu um arðgreiðslu sem hér er reidd fram og á að lögfesta. Það er hægt að fá eðlilegan afrakstur af fyrirtæki án þess að það komi fram í krónum og aurum inn í sjóði viðkomandi fyrirtækis. Eðlilegum afrakstri getur verið ráðstafað þannig að hann styrki fyrst og fremst fyrirtækið, renni til frekari uppbyggingar þess, öllum til hagsbóta. Og það er þetta viðhorf sem lá að baki stofnunar Landsvirkjunar á sínum tíma og ekki síst á bak við þær breytingar á lögum um Landsvirkjun sem samþykktar voru í mars 1983 og sem tryggðu sama verð frá öllum afhendingarstöðum til virkisaðila, öllum afhendingarstöðum á byggðahringnum sem þá var verið að loka eða sem lokað var fáum árum seinna, líklega 1985. (Iðnrh.: Og er áfram tryggt.) Og er áfram tryggt, segir hæstv. iðnrh. Við erum nú ekki... (StG: En mismunur samt.) En mismunur samt, segir formaður iðnn. (Gripið fram í: Frá 1983.)

[16:00]

Virðulegur forseti. Mikið væri mér ljúft ef við gætum haft hérna símafund eða ræðst við í þingsal, hv. formaður iðnn. og hæstv. ráðherra, til þess að flýta fyrir að auka skilning áheyrenda á því sem við erum að ræða hér. Það er væntanlega ekki dregið í efa.

(Forseti (GÁ): Því miður banna þingsköp allar samræður og bið ég þá sem í þingsal eru að gefa þingmanninum frið til að halda ræðu sína.)

Virðulegur forseti. Ég er út af fyrir sig ekki að kvarta, en mér er hins vegar ljóst hver þingsköpin eru og við skulum halda þau í heiðri á meðan þeim hefur ekki verið breytt. Ég vil stuðla að því. En ég vil endurtaka það að sú jöfnun sem var lögleidd árið 1983 fól í sér mikla tryggingu og mikla breytingu frá því sem áður hafði verið. Hún leiddi hins vegar ekki til þess að tryggður væri jöfnuður hjá dreifiveitum sem skiptu við þetta stóra fyrirtæki. Það er utan við ramma þessa máls. Það er málið, segir hv. formaður iðnn. En til þess að tryggja þann jöfnuð hefur verið gripið til margháttaðra ráðstafana fyrr og síðar sem verið er að tíunda hér. Mér finnst þær í of miklum mæli bera svip af því, sem reitt er fram í sambandi við þá mörgu lista sem er að finna í nefndarálitum um hverju hefur verið varið í verðjöfnun, eins og mönnum finnist þetta hálfgerðar ölmusugjafir, hálfgerðar ölmusur sem reiddar hafa verið fram í þessu skyni en ekki til að tryggja það pólitíska sjálfsagða grundvallarsjónarmið að almenningur í landinu eigi að búa við sem jafnast orkuverð.

Hér var tíundað af hv. þm. Svavari Gestssyni hver væri staðan varðandi gjaldskrá og það er ánægjuefni fyrir daginn í dag að sjá að þessi mismunur er ekki stórfelldur. En það breytir ekki hinu að verðlagning á orku á heildina litið og orkureikningurinn til landsmanna er gífurlega ójafn eftir því hvar menn búa á landinu. Þar er það húshitunarkostnaðurinn sem kemur inn í dæmið og það hrikalega misrétti sem þúsundir manna í landinu búa við, fyrst og fremst á hinum köldu svæðum, Vestfjörðum og Austurlandi og vissum svæðum öðrum á landinu, að þurfa að greiða reikninga sem engin spurning er að eiga sinn þátt í því að viðkomandi landshlutum helst ekki á fólki sem skyldi. Og þarf engan að undra sem setur sig inn í þær aðstæður sem þar er um að ræða. Það er þetta sem ekki hefur verið tekið á eins og þurft hefði. Hugmyndir um að leggja á myndarlegt jöfnunargjald sem einnig nái til hitaveitna í landinu til þess að draga úr þessum sára mismun hafa ekki átt pólitískan stuðning meiri hluta á Alþingi og hefur þó oft verið gerð atrenna að því með einum eða öðrum hætti, m.a. á þeim tíma þegar ég sat í iðnrn. og fór með þessi mál og viðræðuhugmyndir um orkuskatt til þess að taka á þessum málum m.a. og glíma við þetta viðfangsefni sem enn er óleyst, óréttlætið að því er varðar húshitunina.

Það eru fleiri atriði, virðulegur forseti, sem ég ætlaði að víkja að sem tengjast þessu frv. og til að það gleymist ekki ætla ég að koma að þeirri breytingu sem meiri hluti iðnn. leggur til á 1. gr. frv. og þeim ákvæðum sem standa eftir að þeirri breytingu gerðri. Ég tek undir að breytingin er til bóta, svo langt sem hún nær. Ég vakti einmitt athygli á því við 1. umr. málsins að hér væri afar óeðlilega á máli haldið að ætla Landsvirkjun að fara í samkeppni hér eða að spreyta sig á innanlandsmarkaði yfirleitt í sambandi við alls konar starfsemi sem ekki varðar fyrirtækið beint, og ganga þar inn í fyrirtæki af ýmsum toga, sem sagt eins og það er orðað í frv., með leyfi forseta: ,,Landsvirkjun er heimilt að hagnýta þá þekkingu sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála með verktöku og sölu tækniþekkingar og annarrar sérþekkingar til annarra aðila hér á landi.`` Þessu hefur verið breytt og það er til bóta þó að ekki sé um stórt atriði að ræða miðað við aðalmál í þessu frv.

En eftir stendur að Landsvirkjun er heimilt að hagnýta sér þá þekkingu samkvæmt brtt. meiri hlutans og þann búnað sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála til verkefna erlendis með því að taka að sér verkefni fyrir fyrirtæki eða stofna og eiga hlut í erlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknir, ráðgjöf eða aðra þjónustu á sviði orkumála eða aðra starfsemi tengda orkumálum.

Eins og menn sjá er þetta mjög rúm heimild og hún er það teygjanleg samanber síðustu orðin í þessari lagagrein --- ,,eða aðra starfsemi tengda orkumálum`` --- að það er ekki skýr rammi sem hér er settur. Og ég spyr: Eru menn vissir um að hér sé stigið skynsamlegt og farsælt skref? Í mínum huga eru margar spurningar við þetta. Ég hefði ekki lagt þetta til. Ég sé enga ástæðu til þess að fara að ætla Landsvirkjun að ganga inn í fyrirtæki, stofna og eiga hlut í fyrirtækjum um þessi efni. Annað mál er að taka að sér verkefni fyrir fyrirtæki, það er annað atriði sem út af fyrir sig er skárra heldur en það kemur hér fram því að tekin hafa verið út orðin ,,að stofna til``, ef ég hef skilið brtt. rétt, og þó. Hér stendur ,,að stofna og eiga hlut`` þannig að þetta er sem sagt óbreytt frá því sem var í frv. upphaflega.

Hver er ástæðan fyrir því að verið er að opna fyrir þessa heimild? Ég held að ástæðulaust sé að ætla þessu fyrirtæki, sem fyrst og fremst hefur haft það hlutverk að sinna orkuframleiðslu og dreifingu hér á Íslandi, að fara að gerast eignaraðili í fyrirtækjum erlendis. En ég tek fram að ég get vel séð það að fyrirtækið taki þátt í rannsóknum, ráðgjöf og þjónustu. Það getur verið eðlilegt m.a. í sambandi við aðstoð sem liður í þróunaraðstoð okkar að opinber aðili eins og Landsvirkjun geti átt þar hlut að máli og ég hefði ekkert haft við það að athuga.

Það er líka spurningin: Hvar ætla menn að stöðva sig af í þessum málum? Það er engan veginn ljóst eins og ég hef vakið athygli á, en e.t.v. kemur hæstv. iðnrh. að því hver hans sýn er til málsins. Hún skiptir þó ekki öllu máli frekar en annað það sem menn eru að leggja traust sitt á og snýr að hæstv. iðnrh. því að það bindur engan sem tekur við af honum í embætti, hæstvirtum ráðherra, hvaða sjónarmið koma eða ríkja í sambandi við þessi mál.

Þá vildi ég nefna, virðulegur forseti, atriði sem snúa að endurskoðun á reikningum fyrirtækisins. Þar vil ég taka undir þá brtt. sem liggur fyrir í sambandi við endurskoðun. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt og alveg sérstaklega ef sú tillaga nær fram að ganga, sem virðist eiga hér meirihlutafylgi að Alþingi eigi ekki þann aðgang að stjórn fyrirtækisins með því að kjósa hluta af stjórninni eins og verið hefur, og þá sé eðlilegt að horfið sé að því ráði sem lagt er til af minni hlutanum að Ríkisendurskoðun annist endurskoðun á fjárreiðum Landsvirkjunar. Það tel ég mjög skynsamlegt.

Það var fróðlegt, virðulegur forseti, að heyra síðan í sambandi við arðgreiðslumálið það traust sem talsmaður meiri hluta iðnn. lagði á yfirlýsingar, bæði eigin yfirlýsingar, yfirlýsingar nefndarinnar og orð hæstv. ráðherra um þau efni. Ég get því miður ekki undir það tekið og hlýt að vekja athygli á því að ekki er hægt að byggja á slíku til frambúðar. Og ef menn í alvöru ætla sér að tryggja eitthvað í þessum efnum og þar á meðal það sem lýtur að verðlagningu á raforkunni, þá væri hin eina, eðlilega afgreiðsla að festa þau ákvæði í lög. Og það er í raun mjög undarlegt að menn skuli ekki vilja á það fallast og veldur því, virðulegur forseti, að sá málflutningur er ekki trúverðugur sem ætlar að byggja á munnlegum yfirlýsingum eingöngu eins og þær eru hér fram settar og einnig þó að þær komi fram í nefndaráliti.

Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að hafa mál mitt um þessi efni öllu lengra nú og þó að það væri þörf á að koma að ýmsum fleiri atriðum. Ég vil aðeins segja að ég óttast mjög um framtíð fyrirtækisins Landsvirkjunar með þær breytingar í huga sem hér er verið að leggja til og enn frekar þær breytingar sem boðaðar hafa verið af hæstv. iðnrh. og eiga rætur í tilskipunum Evrópusambandsins. Ég óttast um samstöðuna, sem hefur þrátt fyrir allt og margháttaða gagnrýni sem ekki er óeðlilegt að fram hafi komið á störf Landsvirkjunar, en sem hefur þó ekki verið meiri en svo að hægt er að segja að þokkaleg samstaða hafi ríkt um fyrirtækið á undanförnum áratug, kannski einum og hálfum ártug eða tæplega það frá því að lögum var síðast breytt því að það er þá fyrst, 1983, eða með breytingum á sameignarsamningi og síðan lagabreytingunni 1983, sem Landvirkjun verður að því landsfyrirtæki sem hún í raun hefur verið frá þeim tíma. Og fyrirtækið hefur reynt að vanda sig í mörgum greinum og gert margt mjög bærilega í rekstri sínum og samskiptum út á við. Við hljótum að nefna það hér þegar verið er að breyta undirstöðu þessa fyrirtækis og fleira er í burðarliðnum þar að lútandi. Þetta á m.a. við í sambandi við þátttöku í almennum kostnaði vegna rannsókna á orkulindum landsins. Þar hefur Landsvirkjun lagt af mörkum verulegt fjármagn vegna þeirra skyldna sem lög hafa lagt á fyrirtækið í sambandi við virkjanaheimildir, þær heimildir sem fyrirtækið hefur haft og þá verðjöfnunarskyldu og annað það sem fólgið er í lögum. Ég er ansi hræddur um að ef þær breytingar verða gerðar í átt til markaðsvæðingar, sem boðað er í áliti meiri hluta iðnn. að séu í vændum, þá geti orðið svolítið erfitt að ætla sér að leggja ýmsar þær skyldur á herðar Landsvirkjun sem gert hefur verið og fyrirtækið hefur axlað, m.a. í sambandi við fjármagn til rannsókna sem mega teljast almenns eðlis en hafa lotið að því að tryggja vandaðri undirbúning en ella og nauðsynlegan undirbúning undir aðgerðir við uppbyggingu virkjana á vegum fyrirtækisins.

[16:15]

Þetta gildir líka um fjármagn sem Landsvirkjun hefur lagt til verðjöfnunar, einnig verðjöfnunar í húshitun á undanförnum árum. Þó að ég hefði gjarnan viljað sjá meira úr þeirri átt, þá eru takmörk fyrir því hvað eðlilegt er að komi um þennan farveg. Það hefði gjarnan mátt koma frá öðrum aðilum, þar á meðal frá hitaveitum í landinu eða sem almennur orkuskattur sem einnig tæki til þeirra til þess að tryggja nauðsynlega og sjálfsagða verðjöfnun á húshitun til að jafna þann gífurlega mun sem nú er uppi og við höfum allt of lengi búið við. Og ég er ansi hræddur um að erfitt geti orðið að leggja kvaðir af þessum toga á Landsvirkjun eftir að reynt yrði að innleiða markaðsvæðingu því að það er eiginlega ekki alveg augljóst hvernig menn ætla að fara að því til þess að tryggja að metnaður manna í þeim efnum gangi fram. Það gæti nú ýmislegt orðið heldur gervilegt í þeim efnum.

Síðan er það varðandi kannski þann stóra þátt sem snýr að heimildum þessa fyrirtækis til að ráðast í virkjanir, þær virkjanaheimildir sem fyrirtækið hefur lögum samkvæmt nú þegar og kann að vilja afla sér í framtíðinni. Ég er mjög smeykur um að það eigi eftir að koma fram hjá mörgum víða um land aukin andstaða við virkjanaáform, sem nú liggja fyrir og ekki hefur verið ráðist í eða látið á reyna, og ýmislegt sem framtíðin kann að bera í skauti sínu í þeim efnum þegar farið er að reisa fyrirtækið á þeim grunni sem hér er verið að leggja, með þeim stífu arðgreiðslukröfum, ósanngjörnu og órökstuddu í raun, sem hér er verið að festa í lög á grundvelli sameignarsamnings. Ég óttast að það geti gerst af þessum sökum að friðurinn um þetta fyrirtæki verði ekki sá sem æskilegt væri í framtíðinni fyrir utan það að verið er að boða að opna hér fyrir fjárfestingu annarra aðila, erlendra aðila þar á meðal, í sambandi við virkjanaframkvæmdir og nýtingu orkulinda landsins.

Þá koma upp margar spurningar, virðulegur forseti, sem ég ætla ekki að gera hér að umtalsefni en aðeins nefna atriði eins og það hvernig á að haga málum í sambandi við þær rannsóknir og þá þekkingu sem Landsvirkjun hefur byggt upp í sambandi við virkjanamál og þekkingu á orkulindum landsmanna, hvernig á að verðleggja þá hluti ef fleiri verða um hituna. Þetta og margar, margar fleiri spurningar tengdar þessu máli liggja hér á borðum okkar með vísun í það sem boðað hefur verið um framtíðarskipun orkumála af hæstv. iðnrh.

Það er eðlilegt að reiði sé uppi víða um land yfir þeim áformum sem felast í þessu frv. Og ég held að menn ættu að taka mark á þeim viðbrögðum sem komið hafa í þeim efnum, en þau hafa ekki öll komið upp á yfirborðið enn sem komið er en eiga eftir að birtast í ríkari mæli heldur en fram er komið. Ég vil lýsa mikilli andstöðu af minni hálfu við lögfestingu þessa máls eins og til er stofnað samkvæmt þessu frv. og harma að meiri hluti iðnn. skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að gera róttækar breytingar á frv. og taka tillit til þeirra gildu upplýsinga sem komið hafa fram af hálfu minni hluta iðnn., bæði 1. minni hluta og alveg sérstaklega 2. minni hluta, hv. þm. Svavars Gestssonar, í sambandi við þann grunn sem á að byggja arðgreiðslur til eigenda Landsvirkjunar á í framtíðinni.

Ég hef ekki, virðulegur forseti, fjallað um það sem hv. talsmaður meiri hluta iðnn. gerði nokkuð mikið mál úr sem var hvernig ætti að verja arðinum af ríkishluta til atvinnuuppbyggingar á þeim svæðum sem ekki nytu arðs. Menn spyrja kannski: Eiga menn ekki bara að klappa, segja: Þetta er fínt? Þarna eru þó að koma peningar í atvinnuuppbyggingu undir merkjum þeirrar ríkisstjórnar sem stendur að þeim málum eins og fyrir liggur með alla áherslu á atvinnuuppbyggingu að því leyti sem ríkisstjórnin fær ráðið hér á Faxaflóasvæðinu eftir óskum erlendra fjárfesta. Ég mælti nokkur orð í sambandi við 80 milljónirnar sem áttu að koma sem plástur á stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Og ég mæli ekki með afgreiðslu mála með þeim hætti að menn séu að taka rangar ákvarðanir í grundvallaratriðum og slengja síðan plástrum á sárin í formi nokkurra tuga milljóna til að hugga fólk eða hafa menn góða eins og það er kallað, hér og þar á landinu, þó vel að merkja eftir ákvörðunum sem hæstv. iðnrh. á að hafa í hendi sinni. Og ég gef afskaplega lítið fyrir þær yfirlýsingar að hluta af arðgreiðslum til ríkisins eigi að nota í þessu skyni. Það á ekki að þurfa að biðja um ölmusur á Alþingi til þess að styðja við eðlilega atvinnuuppbyggingu í landinu og mér finnst að þetta sé eitt af þeim slæma málatilbúnaði sem fylgir þessu frv. og vildi nefna það hér um leið og ég læt máli mínu lokið.