Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 16:45:55 (3062)

1997-02-04 16:45:55# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[16:45]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði að umræðuefni þau orð sem fallið hafa í umræðum hér á Alþingi um Landsvirkjun varðandi eignamyndun fyrirtækisins, þar sem talað hefur verið um að eignamyndunin sé öll á þann veg að það séu notendur sem hafa staðið fyrir henni, og vildi gera lítið úr þeim röksemdum með því að yfirfæra það á hinn almenna smásölumarkað. Hann tiltók Bónus og Hagkaup sem dæmi, það væri fráleitt að telja að eignamyndun þar væri á kostnað viðskiptavinanna.

Það verður hins vegar að gera stórkostlegan greinarmun á þeim fyrirtækjum sem hann nefndi og Landsvirkjun. Landsvirkjun er fyrirtæki í eigu opinberra aðila með eignir upp á 76 milljarða kr. sem allar eru með ríkisábyrgð í einhverri mynd og er með einokunaraðstöðu til þess að selja sína þjónustu. Og framlög eigendanna til fyrirtækisins í gegnum árin eru um það bil 2 milljarðar af heildareignum upp á 76 milljarða. Ég veit ekki til þess að neinu slíku sé til að dreifa hjá Bónus eða Hagkaup, hvorki einokunaraðstöðu né ríkisábyrgð á framlögunum. Mér finnst því ekkert skrýtið þótt eignamyndunin sé skoðuð í þessu ljósi þó að ég taki undir það sem fram kom hjá hv. ræðumanni að það sé fráleitt að tala um þetta í þessu samhengi á hinum almenna frjálsa markaði.