Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 16:47:53 (3063)

1997-02-04 16:47:53# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[16:47]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Tvö atriði. Í fyrsta lagi þegar talað er um eigendur Landsvirkjunar er í öllum tilvikum verið að tala um almenning í landinu. Hvort heldur menn tala um þá 14 milljarða sem skulu teljast í eigu eignaraðila samkvæmt eignasamningum þeirra á milli eða hina rúmlega 20 sem teljast hafa myndast sem eign hjá fyrirtækinu sjálfu, þá er þetta allt saman í eigu almennings í landinu. Að hluta til fer ríkið, sem er fulltrúi allra Íslendinga, með þessa eignaumsýslu og hefur arð af henni og að hluta til tvö af stærstu sveitarfélögum landsmanna. Ég sé því ekki rökin í máli hv. þm. Hann segir að rökin séu t.d. þau að þarna sé um að ræða fyrirtæki með einokunaraðstöðu. Gott og vel. Tökum þá ÁTVR. Það fyrirtæki hefur líka einokunaraðstöðu. Eignir þess fyrirtækis hafa þá væntanlega myndast sakir viðskipta viðskiptamanna við ÁTVR. Og eiga þá viðskiptamenn ÁTVR allar eignir ÁTVR eins og þær kunna að verða færðar í viðskiptareikningum eða í ársreikningum fyrirtækisins hverju sinni? Hvers konar rugl er þetta?

Virðulegi forseti. Ég hefði gaman af að vita hvaða einstaklingar á Íslandi ættu þá mest í ÁTVR. Hvaða veitingahús væru þá stærstu eignaraðilar að ÁTVR og hvaða einstaklingar. Þannig að rökin þegar málið er skoðað með þeim hætti hvaða aðilar eru eigendur að Landsvirkjun, það er allur almenningur í landinu og umboðsmenn þeirra, þá er þessi umræða hér um eign og eignaraðild út í hött.