Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 16:50:13 (3064)

1997-02-04 16:50:13# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[16:50]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég segi nú bara eins og hv. síðasti ræðumaður: Hvers konar rugl er þetta? Hver var að tala um það að Reykjavíkurborg og Akureyrarbær væru að biðja um arð af ÁTVR? Ég hef aldrei heyrt það. En Reykjavíkurborg og Akureyrarbær eru að biðja um arð af Landsvirkjun. Það eru ekki allir Íslendingar jafnir sem eigendur í Landsvirkjun, þar eru sumir tvöfaldir. Hins vegar eru allir jafnir eignaraðilar að ÁTVR. Þar af leiðandi er þetta á engan hátt samanburðarhæft.

Það sem umræðan snýst um er að breyta opinberu þjónustufyrirtæki, eða ,,public utility``, í hlutafélag eftir ákveðnu ferli sem iðnrh. hefur lagt fram. Það er ekkert vandamál ef þeir aðilar sem hafa verið þjónustaðir eru sami hópurinn og eru eigendurnir. En það er vandamál þegar þeir sem hafa keypt þjónustuna og eigendurnir eru ekki einn og sami hópurinn eins og er í tilfelli Landsvirkjunar.