Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 16:51:19 (3065)

1997-02-04 16:51:19# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[16:51]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki heldur þessa röksemdafærslu því að ég veit ekki annað en að þeir sem hafa keypt af Landsvirkjun séu jafnframt eigendur Landsvirkjunar því að þeir sem hafa keypt þær afurðir sem Landsvirkjun framleiðir, sem er raforka, eru landsmenn allir og þeir eru eigendur að Landsvirkjun og þeim eignaraðilum sem Landsvirkjun á eða réttara sagt þeim eignaraðilum sem eiga Landsvirkjun.

En mig langar núna til að spyrja hv. þm. --- nú getur hann reyndar ekki svarað, en það sem ég velti upp er þessi hugsun: Ef það er rétt að viðskiptaaðilarnir eigi að eiga Landsvirkjun, hver yrði þá einn stærsti eigandi að þessu fyrirtæki? Það yrði væntanlega álverið í Straumsvík og Swiss Aluminium því að fáir aðilar hafa átt jafnmikil viðskipti við Landsvirkjun og einmitt þeir. (Gripið fram í.) Er það virkilega hugmynd þingmannsins að eignaraðildin að Landsvirkjun, sem er fyrirtæki í eigu almennings, eigi að færast yfir til helstu viðskiptaaðila fyrirtækisins með þeirri niðurstöðu að stóriðjufyrirtæki að mestu í erlendri eigu yrðu stærstu eigendur Landsvirkjunar eftir þær breytingar? Það yrði mesta gjöf sem þjóðin gæti fært þeim erlendu aðilum sem fengist hafa til að fjárfesta á Íslandi ef þau sjónarmið hv. þm. ætti að hafa í heiðri að menn eigi að öðlast eignaraðild í Landsvirkjun eftir viðskiptum við það fyrirtæki. Þannig að enn vitlausari verður sú hugmynd eftir því sem hún er betur skoðuð.