Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 18:22:23 (3068)

1997-02-04 18:22:23# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[18:22]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að rót þessa máls sem við erum að fjalla um núna liggur hjá borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík sem undir forustu borgarstjórans í Reykjavík, fulltrúa Kvennalistans, hefur gert kröfu til þess að borgin fái meiri arð af sinni eign í Landsvirkjun. Það má kannski segja að það sé bara eðlilegt og að síst eigi að standa á mér að vera á móti því að eignaraðilar Landsvirkjunar fái arð af sinni eign þar. En þar sem ég hef hins vegar verið að leggja áherslu á í allri þessari umræðu er að sá arður komi eðlilega fram. Ef við værum í dag að ræða frv. um að breyta Landsvirkjun í hlutafélag og hún færi út á markaðinn í samkeppni við önnur hlutafélög í orkugeiranum, þá væri þetta ekki til þess að hafa neinar áhyggjur af. Þá mundi þetta gerast af sjálfu sér. Fyrirtækið þyrfti að spreyta sig á markaðnum og rekstrarafkoman mundi segja til um það hversu mikinn arð eigendur gætu fengið og hversu mikils virði eign þeirra í fyrirtækinu raunverulega væri.

En við erum aðeins að stíga eitt skref af mörgum í átt til þessa fyrirkomulags sem ég var að rekja. Það fyrirkomulag felur í sér að gera fyrirtækið líkara hlutafélagi og eins og um hlutafélag væri að ræða, þ.e. að greiða eigendunum arð samkvæmt sérstakri reiknireglu. Í 1. umr. um frv. fyrir áramótin lagði ég áherlu á að reiknað yrði út á eðlilegan hátt hver eignarhlutur einstakra aðila í Landsvirkjun væri og hvernig hann hefði orðið til og fór fram á að hv. iðnn. stæði fyrir því að slíkt yrði gert. Það mundi auðvelda skoðun málsins og meta hvað væri eðlilegt í þessu sambandi og hvað óeðlilegt. Því miður fæ ég ekki séð á áliti meiri hluta iðnn. að í þessa vinnu hafi verið farið og reynt hafi verið að meta hvernig þessi eign er orðin til og hver þar af leiðandi gæti hugsanlega verið eðlilegur arður af eigninni.

Það þarf kannski ekki að koma að sök þegar allt kemur til alls, en þýddi hins vegar að ég þyrfti sjálfur að slá lauslega á þessar tölur og reikna þetta út, reyndar með hjálp góðra manna. Ef við gefum okkur að heildareignir Landsvirkjunar séu 76 milljarðar eða þar um bil og fjárframlög eigendanna séu um það bil 2 milljarðar, þá eru það hinar föstu stærðir í þessu sambandi. Allar aðrar stærðir eru reiknaðar út frá einhverjum tilteknum gefnum forsendum. Eigið fé upp á 24--26 milljarða er útreiknuð stærð samkvæmt einhverjum mjög flóknum formúlum sem höfundar frv. treystu sér ekki einu sinni til þess að skýra nákvæmlega út í greinargerð með því.

14 milljarðarnir sem stofn til þess að reikna arðgreiðslur er enn þá meiri töfratala og hvernig hún er fundin og síðan arðurinn sem af henni á að reiknast eru enn þá meiri töfratölur. Hin raunverulega fasta stærð sem hægt er að reikna út frá eru 2 milljarðar. Allir aðrir fjármunir í fyrirtækinu hafa verið teknir að láni með ábyrgð ríkisins, með ábyrgð allrar þjóðarinnar og allar tekjur fyrirtækisins hafa verið fengnar í skjóli nokkurs konar einokunaraðstöðu, annars vegar gagnvart þeim erlendu fyrirtækjum sem orkan hefur verið seld til og hins vegar og alveg sérstaklega til almenningsveitnanna og almennings í landinu. En þessir 2 milljarðar eru raunverulegir fjármunir sem eigendurnir hafa lagt fram og því tel ég að þeim beri að fá arð af þeirri upphæð og að eðlilegt sé að framreikna upphæðina til núgildandi verðlags og þá yrði hún eitthvað nálægt 6 milljörðum. Síðan er hugsanlega réttlátt að þeir sem hafa verið forgönguaðilar í því að virkja hér á landi, sem sannanlega hefur verið Reykjavíkurborg og að hluta til Akreyrarbær, fái eitthvað fyrir sinn snúð fyrir að hafa verið forgönguaðilar í málinu líkt og úthafsveiðiútgerðir fá nú heldur hærri hlut í þeim afla sem við megum veiða á úthafsmiðum, samanber Reykjaneshrygginn og einhverja tölu væri hægt að slá á þennan frumherjarétt, ef svo má að orði komast. En á móti þyrftum við líka að draga frá þær arðgreiðslur sem eigendurnir hafa þegar fengið á þessu tímabili sem við framreiknum framlögin og ábyrgðargjöldin sem eru mjög sérstakt fyrirbrigði í greiðslum í þessu sambandi. Sennilegast mundum við þá sitja uppi með einhverja tölu á bilinu 5,5--6,5 milljarðar sem væri þá stofninn til þess að reikna arðinn af.

Síðan er spurningin: Hvað á að gera mikla arðsemiskröfu? Það átti að gera 5,5% til 14 milljarðanna. Ef ég væri að reka þetta fyrirtæki mundi ég gera meiri kröfur en 5,5%. Í ríkisbönkunum þar sem ég á sæti í bankaráði, hef ég haft að orði að stjórnendur bankans ættu að setja markið á 10% arð og mér finnst eiginlega ekki hægt að ég geri aðra kröfu til stjórnenda Landsvirkjunar heldur en ég geri til stjórnenda Búnaðarbankans. Það mundi þá þýða að arðgreiðslurnar á ári gætu verið á bilinu 550--650 millj. kr. og miðað við þessar forsendur væri eðlilegur arður sem væri greiddur eigendum fyrirtækisins. Þetta er auðvitað ekki sama upphæðin og menn ætluðu sér að fá út úr 14 milljörðunum, enda get ég með engu móti séð annað en að 14 milljarðarnir séu stærð sem er reiknuð aftur á bak út frá einhverri fyrir fram gefinni tölu upp á nálægt 750 millj. sem menn töldu að ætti að vera arðurinn.

[18:30]

Þá er það spurningin: Mun Landsvirkjun geta staðið undir þessari arðsemi? Mun hún geta greitt þessar 650 millj. eða þessar 750 millj.? Tölulegir útreikningar Landsvirkjunar sýna að hún geti það þrátt fyrir að verð á raforku muni lækka um 3% á ári á tilteknu tímabili og ef hægt er að greiða þennan arð á sama tíma og lækka verðið á raforkunni, þá er það vel. En það sem skiptir hins vegar máli í þessum rekstri er að afkoma fyrirtækisins ráði því hver arðurinn er. Og afkoma fyrirtækisins ræðst auðvitað af því hverjar markaðsaðstæðurnar eru. Ef fyrirtækið á að búa áfram við þá einokunaraðstöðu sem það hefur búið við verður að setja einhverjar kröfur um raforkuverðið. Þar af leiðandi er eðlilegt og gerð sé krafa um að verð raforkunnar lækki um eitthvað tiltekið á næstu árum. En ég held hins vegar að miklu skynsamlegra væri fyrir okkur og raunar nauðsynlegt upp á framtíðina að breyta skipulaginu á raforkumarkaðnum, komast út úr einokunar- og einkaleyfiskerfinu og reyna að markaðsvæða raforkukerfið og það í anda þeirrar skýrslu sem kynnt var fyrr í vetur frá nefnd sem iðnrh. skipaði um breytingar á raforkumarkaðnum. Það mun auðvitað af sjálfu sér breytast mjög mikið. Þá verður komin samkeppni á markaðnum og afkoma fyrirtækisins háð því hvernig kaupin gerast á eyrinni en ekki í einhverjum ákveðnum fyrir fram gefnum forsendum um verð raforkunnar.

Í þessu ljósi tel ég það vera mjög mikilvægt í nál. meiri hlutans að markmið sé um raforkuverð og afkomu fyrirtækisins sem sé ríkjandi yfir arðgreiðslunum. Miðað við þær tölur sem ég rakti er ekki stórkostlegur munur á því sem kæmi út úr þeim miðað við mínar forsendur og því sem kemur út úr forsendum samningsins á milli eigendanna. En grundvallaratriðið er að það er afkoma fyrirtækisins sem ræður um arðgreiðslurnar og það mun verða ráðandi þegar þær breytingar verða gerðar á markaðnum, sem ég vonast eftir, að opna hann og gera frjálsari og markaðsvæða raforkukerfið. Ég vona að þær breytingar sem verið er að gera á Landsvirkjun með þessu frv. verði ekki til þess að seinka því að gengið verði í grundvallarbreytingar á raforkukerfinu og að því gefnu treysti ég mér til að styðja frv.

Fyrr í dag voru mjög einkennileg orðaskipti milli mín og hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um það hvernig eignamyndun hefði orðið í fyrirtækinu og hvernig hún gerðist í öðrum fyrirtækjum á hinum frjálsa markaði. Hv. þm. Sighvati Björgvinssyni kom til hugar að ég teldi einhverja forsendu fyrir því að Alusuisse eða Ísal ætti einhvern eignarhlut í Landsvirkjun. Það er fjarri sanni. Það sem ég hef verið að reyna að gera, reyna að leggja áherslu á í þessari umræðu eru þau vandamál sem koma upp þegar verið er að breyta svokölluðum almenningsþjónustuveitum eða ,,public utilities`` í hlutafélög eða verið að nálgast á einhvern hátt það hlutafélagaform. Þetta er ekki stórt vandamál, ef nokkurt, ef sömu aðilarnir eru eigendur fyrirtækisins og þeir aðilar sem verið er að þjóna eins og er með vatnsveitur í sveitarfélögum, hitaveitur og flest raforkufyrirtækin á landinu sem eru staðbundin. En þetta verður vandamál með fyrirtæki eins og Landsvirkjun þegar eigendurnir eru ekki eigendur í sömu hlutföllum og þeir sem fá þjónustuna, þ.e. í þessu tilfelli svo að þetta skýrist betur, Reykvíkingar og Akureyringar eiga stærri hlut í fyrirtækinu en aðrir sem fá þjónustu fyrirtækisins. Það er þess vegna sem ég hef lagt svo ríka áherslu á að reynt væri að grafast fyrir um hvernig eignamyndunin hefur orðið í fyrirtækinu, hvar hún hefur átt sér stað og hvaðan framlögin hafa komið. Ég hefði auðvitað kosið að þetta hefði verið gert í iðnn. en það breytir ekki niðurstöðunni þótt ég hafi þurft að gera þetta sjálfur og útreikningarnir eru út af fyrir sig ekki flóknir. Niðurstaða mín er sú að reikna eigi þetta út frá þeim fjárframlögum sem eigendurnir hafa lagt í fyrirtækið og síðan eigi afkoma fyrirtækisins að vera afgerandi um hvort fyrirtækið getur greitt arð eða ekki. Meðan fyrirtækið er í einokunar- eða einkaleyfisaðstöðu þarf að gera kröfu um hvernig verðlagningu er háttað. Það eru þá hinar markaðslegu aðstæður fyrirtækisins sem þurfa að vera ríkjandi yfir arðgreiðslunum.

Ég tel ekki ástæðu til að lengja þessa ræðu. Þetta er afstaða mín til málsins. Þetta er lýsing á því hvernig ég hef nálgast þessa niðurstöðu. Að lokum vil ég beina því sérstaklega til iðnrh. að hann láti þessa lagabreytingu ekki tefja þær lagabreytingar sem þarf að gera á næstu árum til að koma á virkum markaði í sambandi við raforkusölu hér á landi.