Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 18:42:20 (3070)

1997-02-04 18:42:20# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[18:42]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er sérstaklega ætlast til þess að mér sé sérlega lagið að útskýra hlutina fyrir hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni. En hann tók hins vegar undir með mér í vangaveltum mínum um eignarhaldið á fyrirtækinu. Og hann endurtók það sem ég hafði sagt í ræðu minni að ég mundi styðja frv. Ekki hefur það sem ég sagði verið svo óskýrt því hann skildi það þó. Hins vegar sneri hann því við og það er kannski þess vegna sem hann skildi þetta ekki alveg að það er arður fyrirtækisins og verðlagsforsendurnar sem eru ríkjandi yfir greiðslunum eða réttara sagt, rekstrarafkoma fyrirtækisins og verðlagsforsendurnar sem eru ríkjandi yfir arðgreiðsluáformunum.

En hins vegar kom á óvart í ræðu hv. þm. að hann ætlar ekki að styðja afstöðu sinna flokksmanna í iðnn., hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, formanns flokksins, og hann hefur sennilega heldur ekki hlustað á ræðu hv. formanns Alþfl. í dag þar sem sá hv. þm. tók ekki undir vangaveltur mínar um eignarhaldið heldur þvert á móti. Mér virðist því að hv. þm. þurfi að reyna að skilja málflutning hv. formanns síns flokks, Sighvats Björgvinssonar, ekki síður en minn málflutning. Þeir þurfa að ná samstöðu til að þeir gangi í takt, ekki til að ég skilji hvað þeir eru að fara, heldur til að kjósendur þeirra flokks skilji hvert þeir eru að fara.