Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 19:33:41 (3076)

1997-02-04 19:33:41# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[19:33]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt hjá síðasta ræðumanni, misskilningur, að ég hafi sagt hér að það breyta öllum félögum í hlutafélög væri allra meina bót alls staðar og alltaf. Ég hef aldrei sagt það og aldrei hugsað það einu sinni heldur. Ég sagði hins vegar að það væri mjög brýnt, mjög mikil þörf á því að við hlutuðumst svo til um að samkeppni gæti ríkt á sem allra flestum sviðum framleiðslukostnaðarins þannig að við tryggðum okkur lágmarkskostnað alls staðar þar sem við getum komið því við. Það á við um orkumálin. Það stendur ekkert í niðurstöðu orkulaganefndarinnar um að brjóta eigi niður Landsvirkjun endilega á morgun. Það er enginn að segja það. Við vorum að tala um að við eigum að hugsa til þess hvernig við komum að samkeppni, hvernig við tryggjum hana og hvernig við vinnum að því. Það er mjög brýnt. Þess vegna var ég að kalla eftir því við hæstv. ráðherra að fá að sjá slíka hluti. Við þurfum á því að halda Íslendingar, alls staðar. Við þurfum líka á því að halda að við fáum einhverja samkeppni í bankamálum. Þess vegna er brýnt að fá fram frv. til þess að tryggja nógu mikla samkeppni til að við lækkum þann kostnað líka. Þetta er grein af sama meiði, þetta er sama málið sem við erum að ræða um. Það er ekki þar með sagt að það þurfi endilega að vera einhver hlutafélög, langt í frá. Landsvirkjun getur lifað sínu lífi. Það er enginn að segja að það sé útilokað að hún geri það áratugum og öldum saman. En að við tökum af ríkiseinokun þessa fyrirtækis er lífsnauðsyn. Það vildi ég leggja áherslu á.