Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 19:39:10 (3079)

1997-02-04 19:39:10# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[19:39]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hjálpi okkur þá fyrst allar góðar vættir þegar við verðum ,,jafnsamstiga``, ég og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, og þeir eru þingmenn Sjálfstfl. að öllu jöfnu. Maður fær yfirleitt aldrei neinn botn í afstöðu þess flokks og allra síst í þessu máli eins og ég rakti rækilega áðan. Það hefur hins vegar margsannast í umræðum hér á Alþingi að við hv. þm. Árni Mathiesen komum sennilega aldrei til með að skilja hvor annan, ég held að það sé alveg ljóst. En hafi hann ekki heyrt mín orð hér áðan, þá tel ég affarasælast að vísa þessu máli til ríkisstjórnar á nýjan leik og menn taki upp samninga aftur, menn kappkosti t.d. að skýra nánar ákvæðið um verðlagspólitík versus markmið um arðgreiðslur, sem ég m.a. spurði hv. þm. Stefán Guðmundsson sérstaklega um og raunar hæstv. ráðherra sömuleiðis.

Í annan stað gef ég mér það, af því að ég veit að fleiri hv. þingmenn eru sama marki brenndir og hv. þm. Árni Mathiesen, að þeir fara hér almennum orðum um frv. og telja það gallað á marga lund en ætla samt að samþykkja það.

Það er nú gamla sagan með hv. þm. Árna Mathiesen, virðulegi forseti, að hann reynir eitthvað krafsa hér í þessum ræðustól en lætur síðan hlutina yfir sig ganga. Hins vegar þarf engar áhyggjur að hafa af stöðu mála hjá okkur krötum, okkur jafnaðarmönnum. Þar er allt í góðum gír og gangi eins og skoðanakannanir segja nákvæmlega til um.