Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 19:42:03 (3081)

1997-02-04 19:42:03# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[19:42]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að nálgast þetta eilítið, ég og hv. þm. En það er rétt, ég mun styðja þessa frávísunartillögu. Ég vil hins vegar láta það koma fram hér, virðulegi forseti, að því miður verð ég að gegna skyldum á morgun utan lands og verð því miður ekki við atkvæðagreiðsluna. Þess vegna vil ég að hér komi mjög skýrt fram: Já, ég mundi hafa stutt þessa tillögu hefði ég ekki fjarvist hér á morgun. Á hinn bóginn hefði ég ekki greitt atkvæði gegn frv. þegar það kæmi til efnislegrar afgreiðslu. Ég hefði setið hjá.

Ég vil líka árétta að í áliti 1. minni hluta iðnn. er einmitt sagt mjög skýrum orðum að það hafa komið fram verulegar og alvarlegar athugasemdir og gagnrýni, einkum varðandi þrjá meginþætti, arðgjafar-, gjaldskrár- og arðgreiðslumarkmiðin, jöfnun orkuverðs og hvernig eigendaframlögin hafa myndast. Þetta eru engin smáatriði sem hér er verið að drepa á og hafa valdið gagnrýni og menn hafa gert alvarlegar athugasemdir við. Allt nefndarálitið byggist síðan á þessu og ég deili fullkomlega með (ÁMM: ... segja það satt.). Þú verður að eiga þann orðastað við aðra. En af því að menn eru nú svo samstiga í þessum Sjálfstfl., þá bið ég hv. þm. Árna Mathiesen að koma í sína heimabyggð og athuga kannski ástandið þar í augnablikinu.