Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 19:44:57 (3083)

1997-02-04 19:44:57# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., RA
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[19:44]

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Um árabil hefur Landsvirkjun haft það verkefni að virkja fallvötn landsins í þágu þjóðarinnar allrar. Því hafa verið tæknileg skilyrði fyrir hendi mjög lengi til að tryggja landsmönnum öllum orkuna á sama verði. En því miður hefur miðað heldur hægt í þeim efnum og reyndar ekkert í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar. Ekkert hefur miðað að því marki að jafna raforkuverð í landinu. Í dag er staðan sú að verðmunur á raforku til heimilisnota á Reykjavíkursvæðinu annars vegar og hins vegar frá Rafmagnsveitum ríkisins er rétt rúmlega 14%. Nú er fyrirhugað að Reykjavíkurborg fái heimild til að virkja á Nesjavöllum eins og hefur komið fram í umræðum og það fyrir eigin reikning fram hjá Landsvirkjunarkerfinu. Fyrirhugað er að Landsvirkjun fái þaðan sérlega ódýra raforku og því er ljóst að það stefnir í að verðmunurinn milli annars vegar Reykjavíkursvæðisins og þeirra svæða úti á landi þar sem eru sérstakar ódýrar rafveitur og svo hins vegar svæðisrafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða muni fara heldur vaxandi en minnkandi á næstu árum. En ofan á allt annað gerist það nú að hæstv. iðnrh., einn af leiðtogum Framsfl., leggur fram á Alþingi frv. sem gerir ráð fyrir að Landsvirkjun verði látin greiða eigendum sínum, Reykjavík, Akureyri og ríkinu arð sem getur numið allt að 770 millj. kr. á ári, miðað við núverandi aðstæður en mun vafalaust fara hækkandi með árunum.

Staðreyndin er hins vegar sú að Landsvirkjun skuldar rúmlega 50 milljarða kr. Hins vegar eru vonir uppi um að afkoma fyrirtækisins fari batnandi á komandi árum og því hugsanlegur möguleiki að aukið fé verði aflögu til að koma til móts við þá sem standa fyrirtækinu næst. Hverjir skyldu það nú vera? Hverjir standa þessu fyrirtæki næst, Landsvirkjun? Hverjir eiga að njóta góðs af því að hagur fyrirtækisins fari hugsanlega batnandi á komandi árum? Eru það raforkuneytendurnir sem eiga að njóta þess? Jú, auðvitað eru það raforkuneytendurnir sem standa Landsvirkjun næst og ættu að njóta þess. En þetta er samt ekki það sem til stendur heldur hitt að það verði eigendurnir sem njóti bættrar stöðu Landsvirkjunar á komandi árum. Og það í formi stórhækkaðra arðgreiðslna sem nema munu mörgum milljörðum kr. á næstu árum. Jafnframt hefur því verið sérstaklega lýst yfir í þessu samhengi að engin lækkun verði á gjaldskrá Landsvirkjunar næstu fjögur árin. Þá hafa menn það.

Ég tek undir með þeim mörgu hv. alþingismönnum sem hafa gagnrýnt þetta mál. Ég tek undir með þeim vegna þess að ég tel að þetta frv., þessi samningur sem hæstv. iðnrh. hefur gert, sé eitt stærsta hneykslið sem við höfum orðið vitni að á seinni árum. Ég tel furðulegt að hv. þm. Framsfl., með hæstv. iðnrh. í broddi fylkingar, skuli láta hafa sig út í að standa að slíkum samningi sem er svo andstæður raforkuneytendum í landinu og þó alveg sérstaklega íbúum á landsbyggðinni.

Nú er það svo, eins og hér hefur verið bent á, að eigendur Landsvirkjunar hafa fengið arð af fyrirtækinu. Það hefur verið gerð ágæt grein fyrir þeirri hlið málsins í nál. 2. minni hluta iðnn. á þskj. 560 þar sem vakin er athygli á því að eigendur hafa fengið í arð 581 millj. kr. á núv. verðlagi og þeir hafa jafnframt fengið ábyrgðargjald að upphæð 871 millj. kr. Þetta sérstaka ábyrgðargjald er auðvitað saga út af fyrir sig vegna þess að auðvitað er það fyrst og fremst þjóðin í heild sem hefur ábyrgst þessi lán og aldrei verið neinn vafi á að þau yrðu greidd og staðið yrði í skilum með þau. En Reykjavíkurborg og Akureyrarborg hafa fengið sérstök framlög í sína sjóði auk ríkissjóðs vegna lántökunnar. Þessi gjöld nema eins og ég hef rakið hér 871 millj. kr. samtals.

Í nál. 2. minni hluta iðnn., Svavars Gestssonar, er einnig á það bent að fram hafi komið að eiginfjárframlög eignaraðila nemi 2.149 millj. kr. frá upphafi framreiknað til núverandi verðlags. Þetta kemur skýrt fram í fskj. XV með nál. Að sjálfsögðu eru þetta ekki tölur sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur fundið upp heldur tölur sem eru frá þeim aðilum sem undirbúið hafa þetta frv. og verður því að líta á sem öruggar staðreyndir. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta merkilegar upplýsingar vegna þess að það er alveg ljóst að greiddur hefur verið ágætur arður, alveg þokkalegur arður, af eiginfjárframlögum þessara aðila í gegnum tíðina. Að vísu kannski ekki mjög hár, við gætum sagt að arðurinn nemi svona 2--3% prósentum á ári að jafnaði í þessi 30 ár. En ég get ekki sagt annað en að mér finnist það alveg kappnóg fyrir þann hlut sem eignaraðilarnir hafa átt að þessu þjóðarfyrirtæki að fá framlög sín endurgoldin með þeim hætti. Auðvitað þarf ekki að segja neinum að höfuðborgarsvæðið og Reykjavíkurborg hafa auðvitað haft stórkostlegan óbeinan hag af framkvæmdum Landsvirkjunar í gegnum tíðina. Landsvirkjun hefur fengið að velja úr hagkvæmustu virkjunarkosti landsmanna og þessir virkjunarkostir eru nú fæstir á höfuðborgarsvæðinu. En síðan hefur stór hluti orkunnar verið seldur stóriðjufyrirtækjum sem hafa fengið orkuna á kostnaðarverði, jafnvel iðulega langt undir kostnaðarverði, fyrst og fremst með þeim rökum að verið sé að auka þjóðarframleiðsluna og verið sé að auka atvinnu á viðkomandi svæði. Því hefur Reykjavíkurborg með beinum og óbeinum hætti haft stórkostlegan hag af þeim framkvæmdum.

Ég tel að það nýja fyrirkomulag sem nú hefur verið gerður samningur um, þ.e. að arðgreiðslur nemi 5,5% af endurmetinni eiginfjárstöðu fyrirtækisins sem er metin upp á 14 milljarða, þannig að upphæðin getur orðið á milli 700 og 800 millj. kr. á ári, sé að sjálfsögðu ekkert annað en dulbúin skattlagning á landsbyggðina sérstaklega og reyndar á orkuneytendur almennt. Verið er að draga fé í stórum stíl út úr fyrirtækinu á fölskum forsendum og koma í veg fyrir að fyrirtækið geti þá boðið orkuna á lægra verði en ella hefði verið. Það má nefna þessa stefnu ýmsum nöfnum og ég tel mig hafa rétta nafnið á reiðum höndum. Ég tel að þetta sé hrein nýlendustefna gagnvart landsbyggðinni. Ég tel að hér sé verið að arðræna landsbyggðina sérstaklega með því að halda uppi háu raforkuverði en á sama tíma að greiða eigendum arð sem bersýnilega er ósanngjarn og allt of hár miðað við allar aðstæður.

Ég vil segja það að lokum, virðulegi forseti, að ég tel að það sé síður en svo sjálfgefið að friður muni áfram ríkja um að Landsvirkjun leyfist að hirða upp hagkvæmustu virkjunarkostina á Norðurlandi, Austurlandi eða Suðurlandi og nýta sér þá ef þetta fyrirtæki er ekki byggt upp og rekið í þágu landsmanna allra. Ef þetta fyrirtæki verður áfram rekið með þeim hætti sem hér er mótuð stefna um, að það sé fyrst og fremst rekið í þágu eigendanna sem, eins og hér hefur margoft komið fram og allir þekkja, eru ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyri, þá er þetta ekki fyrirtæki allra landsmanna og þá er ekki sjálfgefið að þetta fyrirtæki eigi að hirða hagkvæmustu virkjunarkostina í landinu og nýta þá eins og gert hefur verið. Jöfnun raforkuverðs verður að vera meginmarkmið í þessu samhengi. Það verður að hafa algjöran forgang. Ég skora á hv. þm. að sameinast um að vísa þessu máli frá svo það fái ekki afgreiðslu á þessu þingi heldur verði tekið til endurskoðunar. Enda veit ég að í vaxandi mæli hefur fólk um land allt komið auga á það mikla ranglæti sem þetta frv. felur í sér og á þá ósk heitasta að málið verði stöðvað hér við afgreiðslu á Alþingi.