Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 20:29:05 (3089)

1997-02-04 20:29:05# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[20:29]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að málsvörn hæstv. iðnrh. hafi verið veik. Eftir þessa miklu umræðu sem fram fór í dag þá svaraði hann ótrúlega fáum af þeim rökum sem komu fram í máli einstakra aðila, bæði stjórnarandstæðinga og stjórnarsinna. Eftir þessa umræðu liggur það fyrir að það er bara einn flokkur sem er heill og óskiptur á bak við þetta mál og það er Framsfl. Þaðan heyrist ekki tíst af gagnrýni sem er umhugsunarvert miðað við þá stöðu sem Framsfl. hafði einu sinni á landsbyggð.

Það sem ég vildi hins vegar nefna, herra forseti, í andsvari er þetta: Það er verið að afnema eftirlitshlutverk Alþingis. Það er verið að því. Það er verið að fella það út með því að taka stjórnarmennina út og það er verið að gera það með því að fella Ríkisendurskoðun út. Það er alveg augljóst mál að það dæmi sem hæstv. ráðherra hefur hvað eftir annað tekið í þessu máli er út í loftið vegna þess að ef um það væri að ræða að þingmenn væru stjórnarmenn við þær aðstæður sem hann nefndi þá mundu þeir auðvitað ganga úr stjórninni eins og iðulega er þegar menn segja sig frá málum vegna vensla við þau. En það sem hann er að gera til viðbótar er að hann er að taka út úr lögunum ákvæði um Landsvirkjun. Hann er að taka það út, út úr landsvirkjunarlögunum. Þess vegna er það er rétt sem Ríkisendurskoðun segir að það er verið að rífa fyrirtækið í burtu frá Ríkisendurskoðun og Alþingi og koma í veg fyrir eftirlitshlutverk þessarar mikilvægu stofnunar. Það er ofboðslega alvarlegur hlutur sem ráðherrann hefur í rauninni engu svarað og það er grunsamlegt, herra forseti, að hann skuli enn þá berja höfðinu við steininn í málinu.