Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 20:37:20 (3095)

1997-02-04 20:37:20# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[20:37]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör. Ég gekk sjálf úr skugga um það og aflaði mér upplýsinga um það hjá þeim sem best þekkja til að lög um Samkeppnisstofnun munu ekki ná til Landsvirkjunar nema þetta sé sett niður með þessum hætti. Ég fagna því að ráðherrann ætlar að skoða það mál sérstaklega.

Varðandi Ríkisendurskoðun þá gilda áfram sérlög og sérákvæði um hvernig á að endurskoða starfsemi Landsvirkjunar þrátt fyrir að í frv. um Ríkisendurskoðun segi að Ríkisendurskoðun eigi að skoða sameignarfélög. Ef á sama tíma eru í gildi sérlög og sérákvæði um aðra meðhöndlun á endurskoðun hjá ákveðinni ríkisstofnun eða stofnun sem ríkið á meiri hluta í, þá gilda þau sérlög nema kveðið sé á um annað. Þess vegna þarf að koma ákvæði til bráðabirgða eða annað sambærilegt ákvæði um að þrátt fyrir ákvæði laga um Landsvirkjun þá skuli ákvæði laga um Ríkisendurskoðun gilda um endurskoðun á reikningum Landsvirkjunar á meðan eignarhluti ríkisins er 50% eða þar yfir. Ég ítreka aftur, herra forseti, að mér finnst umræðan standa þannig að nauðsynlegt sé að við hæstv. ráðherra ræðum saman um þetta mál, þannig að fyrir liggi að það sé örugglega lagalega tryggt að þessi mikilvægi þáttur verði ekki úti, þ.e. að Ríkisendurskoðun hafi eðlilegt eftirlit með starfsemi Landsvirkjunar og reikningum hennar.