Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 20:41:39 (3098)

1997-02-04 20:41:39# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[20:41]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka af minni hálfu þeim sem hafa tekið þátt í þessari fróðlegu umræðu um orkumál. Hún hefur verið mikilvæg að mínu mati vegna þess að hún hefur leitt í ljós ýmsa mjög mikilvæga hluti. Hún hefur í fyrsta lagi leitt í ljós það sem ég reyndar sagði fyrr í ræðu minni í dag, að það er engin sátt um þetta mál. Það er gífurlega mikill ágreiningur um frv. eins og það er. Sá ágreiningur er uppi af margvíslegum ástæðum, m.a. kemur fram að sumir telja að hér sé of skammt gengið að því er varðar að leysa upp fyrirtækið og efna til samkeppni. Sumir telja að of langt sé gengið í þá átt að minnka verðjöfnunarhlutverk Landsvirkjunar. Og það kemur fram að annar stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., er þverklofinn í þessu máli. Það kemur fram í ræðum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar og hv. þm. Sturlu Böðvarssonar. Það kemur fram í ræðu hv. þm. Árna M. Mathiesens og það er alveg greinilegt að sá ágreiningur sem fram kemur af þeirra hálfu er aðeins toppurinn á ísjakanum í þeim flokki. Ég vísa einnig í því sambandi til borgarfulltrúanna Guðrúnar Zoëga og Gunnars Jóhanns Birgissonar sem sýna að bullandi ágreiningur er um málið í stærsta flokki landsins.

Í öðru lagi hefur það verið þannig að hæstv. iðnrh. hefur gjarnan haft einn mann sér við hlið nokkuð örugglega í þessu máli hér í þessum sal. Ég met mikils formann iðnn. og tel að hann sé að gera skyldu sína en ég tel það ekki til sérstakra tíðinda þó hann leggi á sig að lesa upp þetta nál. Það sem mér finnst hins vegar sæta tíðindum er þegar formaður Alþfl. kemur fram í sinni fyrstu ræðu hér á Alþingi eftir að hann var kjörinn, sérstaklega til að styðja hæstv. iðnrh. í þessu máli. Hefðu það nú einhvern tímann þótt tíðindi að þeir framsóknarmenn yrðu að styðjast við formann Alþfl. við að koma í gegn málum af þessu tagi og hefði enginn spáð því um Álftanes né annars staðar að framsóknarmenn teldu ættjörðina frelsast með stuðningi Alþfl. En það er samt svo. Síðan gerast þau miklu tíðindi að varaformaður Alþfl. hefur allt aðra afstöðu í þessu máli. Hann segir í raun og veru í umræðunum í dag að þetta mál þurfi að skoða miklu betur. Hann segir: Af hverju ekki að bíða eftir niðurstöðu í framhaldi af þessari 19 manna nefnd? Af hverju ekki að skoða það aðeins betur? Hann lýsir í raun stuðningi við tillögu mína um frávísun. Og varaformaður Alþfl. ...

(Forseti (ÓE): Fyrrverandi.)

Fyrrv. varaformaður Alþfl. Já. Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Það er ekki von að maður fylgist með þessum svakalegu sviptingum á vettvangi stjórnmálanna. Fyrrv. varaformaður Alþfl. er einnig fyrrv. stjórnarmaður í Landsvirkjun og ég hygg sá maður í þingflokki jafnaðarmanna sem þekkir langbest til stjórnar Landsvirkjunar og til Landsvirkjunar yfirleitt. Þannig að það er mjög merkilegt að einmitt hann skuli ganga fram eftir að formennirnir tveir í þingflokki jafnaðarmanna, bæði Þjóðvaka og Alþfl. hafa lýst stuðningi við Framsfl. í þessu máli, að þá skuli fyrrv. varaformaður Alþfl. og leiðtogi hans í Hafnarfirði taka ákvörðun um að lýsa því yfir að hann telji að skynsamlegt væri að senda málið til föðurhúsanna eins og hann orðaði það sjálfur.

[20:45]

Í þriðja lagi vil ég benda á að í málflutningi talsmanns Kvennalistans hér í dag komu fram mjög merkileg viðhorf og merkilegar upplýsingar sem hafa ekki komið fram í málinu áður og eru sérstaklega merkilegar vegna þess að Kvennalistinn stendur eins og kunnugt er ekki alllangt frá borgarstjóranum í Reykjavík. Þar kemur fram það orðalag hjá hv. 19. þm. Reykv. Guðnýju Guðbjörnsdóttur, sem hefur setið í iðnn. í umræðum um þetta mál, að í raun og veru sé það þannig að Reykjavíkurborg sé með þessum samningi haldið nauðugri inni í fyrirtækinu Landsvirkjun til næstu tíu ára eða svo og þess vegna hljóti borgin að leggja á það áherslu að fá einhverja fjarmuni upp úr krafsinu. Borgin hafi staðið frammi fyrir því að stjórnarflokkarnir hafi stillt henni upp við vegg. Það var það sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði. Ég tel í raun og veru að ræða hennar fletti ofan af því sem ég hef verið að reyna að segja í þessu máli að það voru stjórnarflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., sem bjuggu til þetta samsæri og stilltu mönnum síðan upp við vegg. Og menn neyddust til bæði hjá borginni og víðar að láta það yfir sig ganga. En enginn hefur flett ofan af þessu samsæri jafnskýrt og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir og af þeim ástæðum var það, herra forseti, sem hún sagði hér í ræðu sinni í dag að hún mundi styðja tillögu mína um frávísun á málinu og að það yrði skoðað betur. Það er því auðvitað alveg augljóst mál að það er gorgeir hæstv. ráðherra um að allir fylgi honum í þessu máli, það er heldur betur farið að týnast úr þeirri sveit þegar veruleikinn er sá að eini flokkurinn sem hangir með honum í þessu efni enn þá er Framsfl. Það gera menn auðvitað af skyldurækni og tillitssemi eins og gengur við ráðherrana. Og af allt öðrum ástæðum en þeim að þeir séu hrifnir af þessu máli. Það vill líka svo til, herra forseti, að ég þekki framsóknarmenn um allt land sem hafa miklar áhyggjur af því hvernig hér er á málum tekið. Ég veit að sumir þeirra hafa komið því á framfæri við þingmenn sína, að minnsta kosti samkvæmt þeim fregnum sem ég hef fengið hjá þeim.

Þess vegna segi ég, herra forseti, að ef ráðherra vinnur þann sigur að koma þessu máli í gegn þá er það Pyrrhosarsigur vegna þess að undir niðri í öllum flokkum og í öllu þjóðfélaginu kraumar óánægja með hvernig á þessum hlutum er haldið, bullandi óánægja.

Varðandi síðan einstök efnisatriði sem hafa komið fram í dag þá er enginn tími til þess að fara yfir þau. Og ég verð að segja alveg eins og er að málsvörn ráðherrans var engin. Það var ótrúlegt að hlusta á hæstv. iðnrh. eftir 7--8 tíma umræðu. Í raun og veru svaraði hann engu því sem menn hafa verið að segja hér í dag. Ekki aðeins ég eða þingmenn Alþb. og óháðra, heldur líka þingmenn úr flokkum sem hæstv. ráðherra telur greinilega þekkilegri um þessar mundir enda kaus Framsfl. að mynda frekar stjórn með íhaldinu en Alþb. Það skýrist nú betur og betur eftir efnistökum í þessari ríkisstjórn. Það var ákvörðun Framsfl. að eyðileggja möguleikana á því að mynduð yrði vinstri stjórn eftir síðustu kosningar. Það er út af fyrir sig hlutur sem er geymdur en ekki gleymdur. Enda sést það á allri einkavæðingarflæðilínunni að það er beinlínis heppilegra fyrir þá að hafa fylgilag íhaldsins heldur en ýmissa annarra.

Varðandi einstök efnisatriði ætla ég að segja það, herra forseti, fyrst í sambandi við Ríkisendurskoðun, að ég er algjörlega ósammála því að nóg sé að hafa þetta ákvæði inni í lögunum um Ríkisendurskoðun. Í gildandi lögum um Landsvirkjun er ákvæði um Ríkisendurskoðun og um borgarendurskoðun. Samkvæmt frv. eins og það lítur út er verið að henda út bæði borgarendurskoðun og Ríkisendurskoðun. Það er ekki bara verið að henda út Ríkisendurskoðun, sem ráðherra segir að megi síðan kom inn bakdyramegin með því að breyta ríkisendurskoðunarlögunum, heldur er í raun og veru líka verið að henda út þeim aðilum sem af hálfu t.d. Reykjavíkurborgar annast endurskoðunarverkefni. Og það er mjög vont mál fyrir Reykjavíkurborg í þessu samhengi. Og ég vil spyrja ráðherrann að því aftur: Er það þannig skýrt að Reykjavíkurborg hafi gert sér ljóst við frágang samningsins að það væri verið að banna borgarendurskoðun að koma nálægt þessu máli með því að henda henni út? Ég veit ekki hvort þingmenn gera sér grein fyrir því eða hafa frétt af því að borgarstjórnin í Reykjavík hefur verið að efla mjög verulega starfsemi borgarendurskoðunar. Hún hefur styrkst bæði að starfsliði og þekkingu og hefur í vaxandi mæli ekki ólíka stöðu gagnvart borgarsjóði og borgarstofnunum og Ríkisendurskoðun hefur gagnvart ríkissjóði og ríkisstofnunum, þó að það sé að vissu leyti ólíku saman að jafna í þeim efnum. Það er engu að síður svipuð hugsun, svipuð hugmyndafræði sem er á bak við það mál. Það er alveg ótrúlegt að geta ekki brotið odd af oflæti sínu þegar þessi sjónarmið koma fram hér í þinginu til að koma til móts við þau sjónarmið sem m.a. forseti Alþingis setti fram í ræðu sem hann flutti um skýrslu Ríkisendurskoðunar hér fyrir nokkrum mánuðum, þar sem hann lagði á það áherslu að Alþingi ætti að hafa möguleika á að framfylgja eftirlitshlutverki sínu gagnvart svona fyrirtækjum, fyrst og fremst í gegnum Ríkisendurskoðun.

Í öðru lagi varðandi almenn einstök atriði sem hafa komið fram ætla ég bara að hnykkja á því, herra forseti, að það sem við höfum sagt um arð umfram verð er staðfest. Aftur og aftur hefur komið fram að ráðherrann og talsmaður hv. þingnefndar viðurkenna í raun og veru að þeir séu að reyna að klóra yfir málið með þessari bókun eða yfirlýsingu í nál. En þeir viðurkenna að þeim hafi orðið á mistök við frágang eigendasamkomulagsins. Þeir viðurkenna það. Þeir viðurkenna eftir þá gagnrýni sem kom fram við 1. umr. að þeim hafi orðið á heiftarleg mistök í þessu máli. Þess vegna gefur ráðherrann þessa yfirlýsingu við 1. umr. og hv. meiri hluti nefndarinnar í nál. Þeir viðurkenna mistökin efnislega. En af hverju ekki að stíga skrefið til fulls og styðja þá tillögu sem flutt er af 2. minni hluta hv. iðnn. að þetta ákvæði verði sett inn í 2. gr. frv. eins og það liggur fyrir nú? En það er alveg kristaltært og það er rétt sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði, að í rauninni sést það á áliti meiri hluta nefndarinnar að hún er að reyna að klóra yfir mistök á síðustu stundu. Það er svo sem þakkandi í sjálfu sér en það dugir ekki vegna þess að það dugir ekkert í þessum efnum annað en lög úr því að farið er að lögfesta einstök atriði úr þessu eigendasamkomulagi á annað borð. Þess vegna er algjörlega fráleitt að setja málið þannig upp að það dugi að vera með einhver nál. í þessu máli, það er algjörlega fráleitt. Það er eins og óþingvanir menn séu að tala. Við vitum öll í þessari stofnun að nefndarálit hefur enga stöðu sambærilega við lög. Og ég tala nú ekki um þáltill. eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal virðist halda að hafi eitthvert gildi. Þáltill. hefur í besta lagi almennt stefnumótunargildi en hún bindur ekki nokkurn einasta mann. Eins og hæstaréttardómar liggja fyrir um þá eru þáltill. markleysa ef ákvarðanir stjórnvalda byggjast á lögum.

Ég tel þess vegna, herra forseti, að málflutningur ráðherrans í þessu máli og meiri hluta nefndarinnar sé aumlegt yfirklór á síðustu stundu. Þess vegna hljótum við að knýja fram atkvæðagreiðslu um að verðlagið verði ákveðið fyrst og arðurinn svo eins og er í brtt. minni.

Síðan vil ég aðeins nefna það, hæstv. forseti, að aumlegt er yfirklór nefndarinnar, mér liggur við að segja að hv. þm. Stefáni Guðmundssyni sé samt kannski vorkunn. En aumlegast af öllu er það samt þegar ráðherrann kemur hér aftur og aftur og segir: Sambærileg upphæð fer svo til atvinnusköpunar. Með hvaða hætti á það að gerast? Hvernig á það að gerast og hvað á þá að gerast? Ég segi fyrir mitt leyti, herra forseti, að þetta er frv. um að skattleggja raforkuverð til landsmanna. Og það er ekki skynsamlegt að skattleggja raforku til að búa til sjóð sem pólitíkusar úthluta úr til atvinnusköpunar, það er ekki rétt leið, það er vitlaus leið. Það er gamla ríkisforsjár- og sjóðaleiðin sem ég hélt að menn væru orðnir þreyttir á, að minnsta kosti þeir sem stýra Framsfl., og vildu gjarnan segja sig frá þeirri fortíð. En hér er það þannig að það á að skattleggja raforkunotendur í landinu um mörg hundruð milljónir kr. og hluta af því fé á að setja í sjóð upp á 80 millj. kr. sem hæstv. iðnrh. ætlar svo að dreifa út um landið. Ég tel ekki, herra forseti, að reynslan af sjóðaforsjá framsóknarmanna sé þannig að ástæða sé til að fagna þessu ákvæði sérstaklega. Ég tel það ekki vera þannig. Hér er auðvitað ekki aðeins um að ræða aumlegt yfirklór af hálfu hæstv. ráðherra heldur algjörlega fráleita uppsetningu mála og pólitískt slæma. Hér er um að ræða afturgöngu frá gamla sjóðakerfistímabilinu sem ég hélt að menn hefðu ákveðið fyrir löngu að yfirgefa. Hvar er nú forsrh. hæstv. sem myndaði stjórn árið 1991 aðallega til að stoppa sjóðasukkið? Hann ætlar greinilega að fara að búa til nýjan sjóð með því að skattleggja raforkunotendur allt í kringum landið, mest þá sem borga mest, sjóð sem Framsfl. á svo að sáldra úr peningum yfir dreifbýlið. Ég vísa þessu, herra forseti, algjörlega á bug.

Fari svo að stjórnarflokkarnir hangi saman um að afgreiða þetta mál á morgun og fella brtt. okkar, með þeim hætti að ég veit að margir þingmenn eru sáróánægðir með málið, þá vil ég taka það fram, herra forseti, að ég mun láta reyna á fleiri brtt. við 3. umr. Umræðunni um þetta mál er ekki lokið. Ég veit að stjórnarflokkarnir vilja gjarnan, sérstaklega Framsfl., að umræðunni um þetta mál fari að ljúka. Þeim finnst óþægilegt að hún sé í gangi mjög lengi. Þeir lögðu gríðarlegt kapp á að þessu máli yrði lokið fyrir jól og vildu helst að það týndist í jólaönnunum innan um öll önnur þingmál. Þeir vildu ekki að það lægi. Nú hefur það legið þó þennan tíma og unnt hefur verið að ræða það aðeins nánar. En umræðunni um þetta mál er ekki lokið. Og það er augljóst að fari svo illa að þeir felli flestar eða allar brtt. við þessa umræðu, eins og ég býst alveg eins við, þá verða tillögurnar fluttar aftur. Þetta er ekki gott mál, herra forseti.