Afsláttarkjör á póstdreifingu Pósts og síma

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 13:37:04 (3102)

1997-02-05 13:37:04# 121. lþ. 62.1 fundur 195. mál: #A afsláttarkjör á póstdreifingu Pósts og síma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[13:37]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Það eru liðnir meira en tveir mánuðir frá því að ég lagði þessa fyrirspurn fyrir hæstv. samgrh. sem ég mæli hér fyrir. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að fyrirspurnin var lögð fram hafa orðið miklar breytingar á starfsemi fyrirtækisins Pósts og síma sem síðan hefur orðið að hlutafélaginu Pósti og síma hf.

Samkvæmt reglugerð nr. 161/1990 er hægt að veita ákveðnum ritum afsláttarkjör í póstdreifingu og notaði hið opinbera um 400 millj. kr. á síðasta ári af skattpeningum landsmanna til að niðurgreiða póstdreifingu ákveðinna aðila samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. Það getur verið eðlilegt að greiða niður ákveðna póstþjónustu með tilliti til málfrelsis og lýðræðissjónarmiða, en eins og framkvæmdin hefur verið á þessum reglum tel ég að hæstv. samgrh. skuldi skattgreiðendum skýringar á þeim vinnubrögðum sem hann hefur viðhaft við að úthluta fyrirtækjum eða öðrum niðurgreiðslu á dreifingu. Ég vil vitna í þá reglugerð sem um þetta gildir. Þar segir: ,,Rit þarf að vera til sölu og áskriftar á almennum markaði.`` Einnig eru gerðar kröfur um efnisinnihald, með leyfi forseta: ,,Efni blaðsins sé almennt, fjölbreytilegt lesefni ..., þ.e. fréttir, greinar, ljóð, ritgerðir, sögur o.s.frv. en ekki t.d. ein saga eða ein grein.``

Framkvæmdin á þessari reglugerð hefur verið mjög sérkennileg og vil ég nefna sem dæmi að rit sem kom út fyrir jólin og heitir Plötutíðindi, sem eru auglýsingar á þeim hljómplötum sem komu út fyrir jólin, fékk niðurgreidda dreifingu frá Pósti og síma og það er ekki um neinar sögur eða ritgerðir eða neitt. Þetta eru eintómar auglýsingar þannig að þarna var hið opinbera greinilega að greiða niður auglýsingakostnað hljómplötuframleiðenda.

Annað um ómarkviss og sérkennileg vinnubrögð á þessari reglugerð er að Sjónvarpsvísir, sem er með dagskrá Stöðvar 2, fékk niðurgreidda póstdreifingu, en Sjónvarpshandbókinni, sem er með dagskrá allra sjónvarpsstöðva var synjað. Þegar maður ber saman reglurnar og þá sem hafa fengið þessar niðurgreiðslu, þá er ekki hægt að segja annað en að þarna virðist vera um geðþóttaákvarðanir að ræða og þessi listi ráðherrans er mjög fróðleg lesning.

Það eru ýmis fleiri ákvæði í þessari reglugerð sem banna að þjónustufyrirtæki sem eru með sérstakar vörur, viðskiptafyrirtæki, falli undir þetta en engu að síður hafa fengið niðurgreiddar, póstsendingar Fiat-fréttir, Glóbusfréttir, Vildarklúbbur Flugleiða o.s.frv. Og þetta er bara af handahófi úr þessum lista. Þarna virðist vera um niðurgreiðslu á auglýsingakostnaði ákveðinna fyrirtækja að ræða, en ég vil ljúka máli mínu á því að spyrja:

Hvaða reglur gilda nú um afsláttarkjör í póstdreifingu? Verður póstur áfram niðurgreiddur eftir að Póstur og sími er orðinn að hlutafélagi? Er reglugerð sú sem ég hef vitnað í enn þá í gildi og ef ekki, hverjir eiga þá rétt á niðurgreiðslum?