Afsláttarkjör á póstdreifingu Pósts og síma

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 13:47:46 (3105)

1997-02-05 13:47:46# 121. lþ. 62.1 fundur 195. mál: #A afsláttarkjör á póstdreifingu Pósts og síma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[13:47]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er unnið að því núna hjá Pósti og síma hf. að endurskoða rekstur póstsins og ég veit ekki hvort ég á að lýsa því yfir eða gera mér vonir um það eða þegja um það að maður geti kannski gert sér vonir um að á næsta ári náist jafnvægi milli gjalda og tekna hjá póstinum. Það er nú þannig að þetta stóra fyrirtæki verður að fóta sig á markaðnum eins og hann er núna og jafnframt að fara eftir nýjum reglum um leið og fyrirtækið reynir að koma ekki í bakið á gömlum og góðum viðskiptavinum. Ég er þá bæði að tala um líknarfélög, stjórnmálasamtök, íþróttafélög og ýmsa aðra aðila.

Auðvitað er það ekki rétt hjá hv. þm. að hinn frjálsi markaður þýði endilega að það verði einhver ein gjaldskrá í gildi hjá Póst og síma hf. Það verður alls ekki þannig. Póstur og sími hf. hefur heimild til þess að semja við einstaka aðila, dagblöðin, útgefendur að tímaritum o.s.frv. sem Póst- og símamálastofnunin hafði ekki og er alveg skýrt t.d. í úrskurði Samkeppnisstofnunar að var litið illu auga þar, enda má segja að úrskurðir þeirrar stofnunar beri það að sumu leyti með sér að áhugi sé þar meiri á því að búa til þröskulda heldur en nema þá brott.