Lánasjóður íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 13:49:53 (3106)

1997-02-05 13:49:53# 121. lþ. 62.2 fundur 270. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Í stjórnarsáttmála núv. stjórnarflokka er eitt af þeim málum sem áhersla er lögð á að unnið verði að endurskoðun á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna, enda ekki vanþörf á, því að stórhertar reglur sjóðsins um námsframvindu og hertar endurgreiðslureglur höfðu hrakið hluta stúdenta frá námi og helst þá sem síst skyldi, t.d. barnafólk og svo þá sem höfðu orðið fyrir einhvers konar ágjöf á námstíma, en slíkt getur auðvitað alltaf komið upp á hjá besta fólki.

Formenn stjórnarflokkanna höfðu gefið forsvarsmönnum stúdenta vilyrði fyrir því að þeir yrðu hafðir með í ráðum í tengslum við endurskoðun á umræddum lögum. Nefnd var skipuð til að vinna verkið, en hún var síðast kölluð saman í ágúst og hafði þá verið unninn tiltölulega lítill hluti af verkinu. Fyrir jól var marglátið í veðri vaka að aðeins væri dagaspursmál hvenær frv. til laga um lánasjóðinn yrði lagt fram, samkomulag hefði náðst en ekkert hefur bólað á því enn. Því höfum við Bryndís Hlöðversdóttir lagt fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. menntmrh.:

1. Hefur ráðherra formlega slitið starfi nefndar sem fékk það hlutverk að endurskoða lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna? Ef svo er, hvers vegna var það gert?

2. Hafði nefndin skilað áliti?

3. Hver var efnisleg niðurstaða nefndarinnar og hvaða breytingar lagði hún til að yrðu gerðar á lögum um LÍN?

4. Hvenær er að vænta lagafrumvarps um breytingar á lögum um LÍN?