Lánasjóður íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 13:59:23 (3110)

1997-02-05 13:59:23# 121. lþ. 62.2 fundur 270. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[13:59]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef nú ekki farið á bak við þingið í þessu máli frekar en öðrum, heldur greint frá öllum gangi mála eins og hann hefur verið og það er alveg út í hött að líta þannig á að ég hafi með yfirlýsingum mínum á þinginu fyrr í vetur, um að það liggi fyrir samkomulag um meginniðurstöðu í þessu máli á milli stjórnarflokkanna, verið að fara með rangt mál. Það samkomulag liggur fyrir. Það er verið að útfæra það samkomulag. Ég hef hins vegar gefið námsmannahreyfingunum eins og hér kemur fram frest til 6. febr. til að koma með skriflegar tillögur sínar og ég hef ekki orðið var við þennan æsing í þessu máli fyrr en ég kem hér inn í þingsalina. Ég verð ekki var við þetta neins staðar annars staðar og skil ekki hvaða hamagangur er í hv. 8. þm. Reykv. í þessu máli. Ég held að allir sem málinu koma séu að vinna mjög málefnalega að því. Og að gera það tortryggilegt vegna einhverra atburða, annars vegar flokksþings framsóknarmanna eða stúdentaráðskosninga, finnst mér alveg út í hött. Ég hef ekki verið með það í huga. Ég hef verið með það í huga að komast að efnislegri niðurstöðu í málinu og ég sé ekki annað en að ég sé að nálgast þá niðurstöðu og vona að um það verði ágæt sátt en ég sé að hv. þingmenn Alþb. eru á einhverjum annarlegum nótum þegar þeir fjalla um þetta mál eins og þeir hafa verið allan tímann, allt frá því að lögin voru sett 1992.