Vörugjöld á sportvörur

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 14:02:29 (3113)

1997-02-05 14:02:29# 121. lþ. 62.3 fundur 271. mál: #A vörugjöld á sportvörur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Íþróttir tengdar veiðum og vörnum hafa fylgt mannkyni svo lengi sem menn vita. Vopn, áhöld og tæki þessu tengd eru í dag notuð í helstu kappleikjum samtímans, Ólympíuleikunum, og má þar nefnda kringlur, sleggjur, spjót, boga, sverð og byssur. Keppni í skotfimi á Ólympíuleikum er bæði á skíðum og á skotbrautum og er mjög vinsæl íþrótt. Frístundaiðja eins og skotveiði er einnig mjög vinsælt sport og býður upp á mikla fjölbreytni til útivistar og hreyfingar. Til marks um þann fjölda sem stundar skotveiðar þá voru gefin út og greidd 12.400 veiðikort í fyrra sem er sá fjöldi manna sem stundar þessa frístundaiðju á Íslandi. Til samanburðar eru skráðir hjá ÍSÍ í golfíþróttina 5.692 menn, í handbolta 4.579 og í knattspyrnu 15.090 manns svo sjá má að hópur sportveiðimanna er mjög stór á íslenskan mælikvarða.

Eins og eðlilegt má telja eru álögur á starfsemi samtaka eins og ÍSÍ og UMFÍ í lágmarki og vörugjöld á áhöld og tæki til tómstundaiðju innan þessara samtaka engin. Það bregður hins vegar svo við að þegar kemur að frístundaiðju eins og skotfimi og skotveiðum þá eru lagðir á skattar sem þekkjast ekki annars staðar og í því sambandi má nefna veiðikortagjald sem nemur um 16,8 millj. kr. á síðastliðnu ári og 25% vörugjald á skotfæri sem nam 13,5 millj. kr. á árinu 1995 en þetta vörugjald var þá 30% og lækkaði 1. febrúar sl. í 25%. Ekki er með þessari fyrirspurn verið að amast við veiðikortagjaldinu enda það lagt á í sátt við skotveiðimenn og þeir mjög fúsir til samstarfs við stjórnvöld um verndun náttúrunnar ásamt virku eftirliti með villtum dýrum í íslenskri náttúru. Hér er fyrst og fremst verið að gera athugasemd við álagningu vörugjalda á sportvörur í þessari grein. Ekki hefur fengist nein viðhlítandi skýring á því hvers vegna vörugjald er lagt á byssur og skotfæri þegar því er sleppt á aðrar sportvörur. Skýring hefur ekki fengist þrátt fyrir eftirgrennslan fyrirspyrjanda og heimsóknir forsvarsmanna Skotvíss til hæstv. fjmrh.

Það er ekki hægt að una því að borgurunum sé mismunað með þessum hætti og því verður að krefjast leiðréttingar á þessu misræmi hið bráðasta. Með það að markmiði er eftirfarandi fyrirspurn lögð fyrir hæstv. fjmrh.:

1. Hver er ástæða þess að vörugjöld á sportvörur eins og byssur, skot og skyldar vörur eru 25% á meðan vörugjöld á aðrar sportvörur eins og veiðistangir, skíði og golfsett eru engin?

2. Er ráðherra reiðubúinn að lækka álagningarstuðla á sportvörum eins og búnaði til skotveiða til samræmis við annan sportbúnað?