Vörugjöld á sportvörur

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 14:10:45 (3116)

1997-02-05 14:10:45# 121. lþ. 62.3 fundur 271. mál: #A vörugjöld á sportvörur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[14:10]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það var síður en svo að þessari fyrirspurn hafi verið svarað í einhverju gríni. Það var örstutt viðbót og tekið skýrt fram að hefði verið til gamans að gefnu tilefni af því forseti mismælti sig þegar hann kynnti þann sem átti að svara fyrirspurninni. Vona ég að það eyðileggi ekki aðalefni fyrirspurnarinnar og svarsins sem þegar hefur verið gefið.

Það sem skiptir máli í þessu sambandi er það sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, það eru spurningar sem hljóta að vakna um það hvort eðlilegt sé að vörugjald sé greitt áfram af skotvopnum sem m.a. eru notuð í íþróttaskyni þegar það er haft í huga að nú eru gjöld lögð á sportveiði eins og fram kom í málflutningi hv. þm. Það er ekki verið að gera neitt grín að því, síður en svo, og það kann vel að vera að sá tími komi að hægt sé að leggja þetta vörugjald af.

Aðalatriði málsins er hins vegar það að 1. febrúar, fyrir fáeinum dögum síðan, gengu í gildi lög um vörugjald sem lækka vörugjald á þessum vörutegundum um 5%. Það sem kom einnig fram í svari mínu var að það eru ýmsar aðrar vörur sem bera vörugjald sem kannski er eðlilegt að líta einnig á, þar á meðal matvörur. Ástæðan fyrir því að við höldum úti vörugjöldum sem eru að hverfa alls staðar annars staðar er sú að virðisaukaskattshlutfallið hjá okkur er mjög hátt og það eru litlar skattheimtur af óbeinum sköttum. Þetta er ástæðan fyrir því hversu hægt okkur gengur og miðar að koma tekjum ríkisins úr vörugjaldinu og yfir í virðisaukaskattinn. Það svar er gefið hér í fullri alvöru og vona ég að menn taki það sem slíkt.