Kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:03:09 (3124)

1997-02-05 15:03:09# 121. lþ. 63.95 fundur 174#B kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:03]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það urðu nokkuð fræg ummæli íslensks ráðherra fyrir allmörgum árum eitthvað á þá leið að á Íslandi þyrfti að skapa Singapúr norðursins. Sá hinn sami ráðherra hafði að vísu ekki erindi sem erfiði en núv. hæstv. iðnrh. og ríkisstjórn hans telja sig vera að bæta um betur og til þess er beitt ýmsum ráðum. Frá vorinu 1988 hefur starfað hér sérstök Markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar sem varið hefur verið til háum fjárhæðum miðað við slíka skrifstofu, ekki minna en 66,5 millj. kr. á árinu 1996, og komu 27,5 millj. kr. beint úr ríkissjóði en 39 millj. kr. frá Landsvirkjun. Kynningarbæklingur markaðsskrifstofunnar ber heitið Lægsta orkuverð í Evrópu í nýjum samningum, hér er það á ensku á forsíðu. Þar má lesa sitthvað sérkennilegt sem rétt er að Alþingi gefi gaum að og ræði.

Megininntakið í þessum bæklingi er það að hér sé í boði lægsta raforkuverð í Evrópu, einhver lægsti launakostnaður í norðanverðri Evrópu og Norður-Ameríku samanlagt, lægstu skattar á fyrirtæki sem finnist í meginefnahagskerfum heimsins. En gyllingunni er þar með ekki lokið fyrir fjárfestana. Á hinu hreina Íslandi geta erlend fyrirtæki gengið í umhverfisvænar orkulindir hindranalítið af skriffinnsku og leyfisveitingum og m.a. komist hjá að greiða kolefnisskatt sem farið er að leggja á víða annars staðar.

Tímans vegna verða örstuttar tilvísanir í þennan bækling hér að nægja. Á bls. 6 sjáum við fyrirsögnina ,,Gnægð af orku án mengunar``. Þar segir: ,,Í boði er á Íslandi um 50.000 gwst. á nægjanlega lágu verði til að vera áhugavert fyrir orkufrekan iðnað og beinan útflutning á orku. Um 5.000 gwst. hafa verið virkjaðar,`` --- og síðan segir ,,aðeins 10% af heildinni.``

Á bls. 7 lesum við, undir fyrirsögninni ,,Samkeppnishæft orkuverð`` (feitletrað): ,,Nýr iðnaður getur verið viss um afar samkeppnisfært orkuverð, (highly competitive prices á ensku) sem er að líkindum lægra en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu og Norður-Evrópu fyrir nýja samninga.``

Síðan er vísað í orkuverð nálægt tveim Bandaríkjasentum á kwst., en það er þá nálægt 20 mill, frá nýjum virkjunum fyrir forgangsorku, skattar að frádregnum virðisaukaskatti innifaldir, eins og það heitir, fyrir dæmigerðan notanda sem kaupir 10 megavött og nýtir þau í 7 þús. stundir á ári. Mér er ekki kunnugt um marga slíka dæmigerða notendur hérlendis, hvorki varðandi orkumagn né nýtingartíma, enda greiðir stóriðjan hér sem stendur eitthvað nálægt 15 mill að meðaltali á síðasta ári.

Í töflu á bls. 7 eru talin upp 15 lönd, Þýskaland efst með 72 mill, Ísland langlægst með rúmlega 2 sent eða 20 mill, þriðjungi lægra en Noregur. Þarna má einnig lesa: ,,Með langtímaorkusölusamningi á Íslandi gætu iðnfyrirtæki með árangri komist hjá kolefnisskatti [carbon tax] sem lagður er á annars staðar``.

Á bls. 8: ,,Heildstæð löggjöf um umhverfisvernd mótar skipulagsferli fyrir iðnað og orkuuppbyggingu. Mat á umhverfisáhrifum er tilskilið fyrir stór iðnfyrirtæki og starfsleyfi er venjulega veitt með lágmarksformvafstri og skriffinnsku.`` Eða eins og segir á ensku: ,,operating licence is usually granted with a minimum of environmental red tape.``

Svona gæti ég haldið áfram ef tíminn leyfði, virðulegur forseti. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. iðnrh.:

1. Er hann stoltur af þessari ritsmíð?

2. Hvernig er af hálfu iðnrn. háttað eftirliti með starfsemi markaðsskrifstofunnar?

3. Hvað hyggst ráðherrann fyrir um þessa markaðsskrifstofu sem kostað er til milljóna tugum af fé af opinberri hálfu?

4. Getur ráðherrann fallist á að auka þurfi til mikilla muna það orkumagn sem orðið getur til ráðstöfunar í framtíðinni frá því sem fram kemur í þessum bæklingi vegna umhverfissjónarmiða? Það þurfi að færa þetta til mikilla muna niður af þeim sökum.

Virðulegur forseti. Er að furða þótt í óefni sé komið í stóriðjumálum og sambúð stjórnvalda við fólkið í þeim byggðum sem ætlað er að taka við fyrirtækjum eftir forskriftinni frá MIL eins og t.d. álbræðslu á Grundartanga?