Kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:14:48 (3126)

1997-02-05 15:14:48# 121. lþ. 63.95 fundur 174#B kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta# (umræður utan dagskrár), BirnS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:15]

Birna Sigurjónsdóttir:

Hæstv. forseti. Bæklingur sá sem hér er til umræðu frá Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta er um margt fróðleg lesning. Þar kemur fram að landið er markaðssett með hástemmdum lýsingum um Ísland sem landið þar sem náttúran er hrein eins og hvergi annars staðar, með tærasta lofti sem nokkurs staðar er hægt að anda að sér og hreinasta vatn í heimi. Öll lýsingarorð eru í hástigi og allt gott er um það að segja ef tilgangurinn væri ekki sá að laða hingað til lands fjárfestingar í mengandi stóriðju. Þar kemur fram mótsögn sem að mínu mati er hrópleg og þar við bætist að í bæklingnum er í það minnsta gefið í skyn að hér sé auðvelt að fá starfsleyfi og að mat á umhverfisáhrifum fáist með lágmarksskriffinnsku. Að auki er landið kynnt sem land lágra launa, lágs orkuverðs, lágra skatta á fyrirtæki og því til viðbótar er sérstaklega bent á að hér á landi séu fjarvistir starfsmanna frá störfum í lágmarki, þ.e. 3% hér Íslandi miðað við t.d. 12% í Svíþjóð. Ég spyr því: Er það svona sem við viljum markaðssetja landið? Eiga Íslendingar ekki heldur að veðja á eitthvað annað, t.d. aukna ferðaþjónustu, á lífræna ræktun, á starfsemi sem er tilbúin að borga fyrir þau lífsgæði, náttúrufegurð og hreinleika lofts og vatns sem við teljum okkur búa yfir?