Kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:16:56 (3127)

1997-02-05 15:16:56# 121. lþ. 63.95 fundur 174#B kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessar auglýsingaherferðir hæstv. iðnrh. og markaðsskrifstofunnar vekja ýmsar áleitnar spurningar. Spurningar um það hvernig við viljum kynna landið okkar. Og þær vekja reyndar líka spurningar um hversu árangursríkt og skynsamlegt upplegg af þessu tagi er sem hér er fram fært í þessum dæmalausa bæklingi. Það er auglýst lægsta orkuverð í Evrópu. Það eru auglýst lág laun og sýnd tafla þar sem Ísland er neðst af öllum löndum sem þar eru tekin til samanburðar um laun. Það eru auglýstir lágir skattar. Og það er sagt að það þurfi engar áhyggjur að hafa af umhverfis\-ástæðum. Svo er auðvitað bitið höfuðið af skömminni með því að beita ómengaðri náttúru Íslands sérstaklega og fallegum myndum til þess að laða menn að. Það er sem sagt með öðrum orðum svona útsölu þriðjaheimsbragur á þessu uppleggi alveg ,,par exellence``. Það er þannig. Það hljóta að vakna spurningar t.d. um samningsstöðuna hvað orkuverðið snertir þegar uppleggið er þetta. Það er boðið lægsta orkuverð í heimi, a.m.k. í Evrópu. Það þýðir nú líklega lítið að reyna að fara að tosa það eitthvað upp á við þegar menn eru svo mættir með þennan bækling í höndunum og segja: ,,Heyrðu okkur líst nokkuð vel á þetta. Þetta lága orkuverð, þessi lágu laun og hvernig menn mega valsa um í þessari hreinu og óspilltu náttúru. Þetta er bara nokkuð álitlegt.`` Ég held að menn leggi af stað á hnjánum í hvaða samningaviðræður sem vera skal með þessu uppleggi og það er auðvitað neðan við allar hellur.

Ég mótmæli alveg sérstaklega hvernig umhverfisþátturinn og náttúran er notuð í þessu samhengi. Stæði í bæklingnum að til þess að varðveita hinu hreinu náttúru þá geri Íslendingar ströngustu mengunarvarnakröfur þá væri þó eitthvert upplit á þessu.

Ég held að hæstv. ráðherra sem virðist hafa fengið þetta góss í arf frá forvera sínum, hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, því þetta er dagsett í janúar 1995, ætti að sjá sóma sinn í að kalla þetta til baka og láta þetta hverfa. Það eru til pappírstætarar sem éta svona fyrirbæri og þar væri þetta best komið, ofan í einum slíkum. Ráðherrann ætti ekki að setja málið upp svona svart og hvítt eins og hann gerði hér áðan. Ég mótmæli því einnig þegar málin eru lögð upp þannig að þetta snúist um annaðhvort eða, þ.e. hvort orkulindirnar séu nýttar eða ekki. Þetta snýst nefnilega einmitt ekki um það (Forseti hringir.) heldur hvernig staðið er að því að nýta auðlindir Íslands, þar á meðal náttúru og hreint og ómengað umhverfi.