Kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:25:05 (3130)

1997-02-05 15:25:05# 121. lþ. 63.95 fundur 174#B kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þeim þykir hún vond þessi umræða, stjórnarsinnunum hv. þm. Geir Haarde og hv. þm. Sturlu Böðvarssyni. Þeim er meinilla við þessa umræðu og þeim finnst hún mjög vond. Og það er skiljanlegt miðað við þann málstað sem þarna er verið að reyna að verja. Mér þykir umræðan góð. Ég fagna því hvernig umræðan hefur verið að vaxa í þjóðfélaginu nú á síðustu vikum og mánuðum einmitt um þessi mál. Það er alveg ljóst að viðhorfin eru að breytast til nýtingar landsins og verndunar umhverfis. Sem betur fer er þjóðin að verða sér betur meðvituð um að þar eru gæði á ferðinni sem við þurfum að passa vel upp á. Og það er eðlilegt að síðustu trúboðar gamla stóriðjutrúboðsins sem vilja leggja allt í sölurnar, sætta sig við hvaða skítaprísa sem er og leggja náttúruna undir ef svo ber undir, séu órólegir vegna þessarar þróunar og þyki umræðan vond. Það er alveg ljóst að menn eru að verða gagnrýnni á umhverfisþáttinn sérstaklega en það mun líka fylgja í kjölfarið að menn verða gagnrýnni á arðsemina og á orkuverðið vegna þess að hagsmunir annarra atvinnugreina í landinu eru farnir að rekast á við þetta trúboð. Forsvarsmenn í ferðaþjónustu, matvælaiðnaði og fleiri greinum hafa vaxandi áhyggjur af þeim óumflýjanlegu árekstrum sem munu verða ef stóriðjutrúboð ríkisstjórnarinnar og hæstv. iðnrh. nær að einhverju leyti fram að ganga hér á næstu missirum með tilheyrandi framkvæmdum á hálendinu o.s.frv. sem mun rekast á við aðrar nýtingarforsendur fyrir landið og umhverfið. Þess vegna skora ég á menn að láta umræðuna ekki falla niður þrátt fyrir bænir um það af hálfu þeirra sem finna sig í vondri stöðu í málinu heldur einmitt að halda henni áfram, halda áfram umræðum um það hvernig við ætlum að nýta þetta land og náttúru þess í framtíðinni, ræða það málefnalega (Gripið fram í.) með framtíðarhagsmuni að leiðarljósi en ekki í (Forseti hringir.) trúboðsstíl. Ég þakka svo formanni þingflokks Framsfl. fyrir hönd forseta fyrir aðstoð við fundarstjórn.