Kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:33:36 (3134)

1997-02-05 15:33:36# 121. lþ. 63.95 fundur 174#B kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta# (umræður utan dagskrár), GHH
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:33]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður vék sérstaklega að því að ég skyldi hafa tekið hér til máls. (SvG: Það eru tíðindi.) Það er alveg rétt að það gerist ekki oft í seinni tíð. Ég tel að ýmsir ættu nú að hafa það að fordæmi, taka sér það til fyrirmyndar. Það mættu ýmsir gera.

Hér hefur verið talað um trúboð, herra forseti, og það er svo undarlegt að þeir sem það gera eru kannski þeir sem best þekkja til slíkrar starfsemi, gamla trúboðið úr Alþb. hóf hér upp raust sína, þrír fulltrúar þess, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson. En þetta eru fulltrúar þeirra afla á Íslandi (SvG: Heimatrúboðið.) sem hafa alltaf verið andvíg samstarfi við erlenda aðila um atvinnuuppbyggingu á Íslandi, alltaf, alveg frá því að fyrst var hafist handa um slíka starfsemi fyrir rúmum 30 árum síðan. Þessir menn hafa í prinsippinu verið fulltrúar þeirra afla sem gátu ekki hugsað sér slíkt samstarf af einhvers konar prinsippástæðum sem ég hef aldrei getað almennilega skilið. (Gripið fram í.) Heimatrúboð þessara manna sem hv. þm. kallar svo --- hann greip hér fram í og rétti mér orðið sem mig vantaði --- birtist í þessari starfsemi, þessari andstöðu og andspyrnu gegn erlendri fjárfestingu á Íslandi sem heyrir nú sögunni til sem betur fer hjá flestum stjórnmálaöflum á Íslandi og sennilega nú orðið meiri hluta þingmanna Alþb. Þetta er hið eina trúboð sem hægt er að tala um í þessu sambandi og hinn fullkomni fulltrúi þess er hv. málshefjandi Hjörleifur Guttormsson sem eitt sinn sat í iðnrn. um fimm ára skeið og gerði allt sem hann gat til að framfylgja þeirri stefnu sinni að koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu í stóriðju eða á öðrum sviðum á Íslandi. Það vita þeir og muna sem fylgdust með þessum málum á þeim tíma og það er ekkert gleymt þótt hann kjósi núna, og fleiri þingmenn Alþb., að skýla sér á bak við umhverfissjónarmiðin eingöngu í þessu máli. Það er sjálfsagt að gera hér ýtrustu kröfur til umhverfismála. Það mun verða gert. Það stendur ekki annað til og það stendur ekki til að veita neinn afslátt í þeim efnum.