Kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:39:13 (3136)

1997-02-05 15:39:13# 121. lþ. 63.95 fundur 174#B kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:39]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Allar þær upplýsingar sem fram koma í þessum bæklingum eru staðreyndir, staðreyndir úr íslensku efnahags- og atvinnulífi. Og tilraunir hv. þm. til þess að rangtúlka það sem þar kemur fram finnst mér vera lítilmótlegar í þessu samhengi.

Við erum að kynna Ísland af fullri reisn ef menn horfa á þau kynningarrit sem hafa verið gefin út í þeim tilgangi að draga að erlenda fjárfesta á mörgum sviðum. Við eigum auðvitað að vera stolt af því að geta boðið upp á eitt lægsta orkuverð í Evrópu, að vera samkeppnisfær á þessu sviði. Við eigum að vera stolt af því að geta boðið upp á lága skatta hér á landi og við eigum að vera stolt af því að fjarvistir frá vinnu séu hér minni en annars staðar. Við eigum líka að vera stolt af því að hér á landi skuli vera minni skattar á launatekjur heldur en annars staðar og ástæðan fyrir því að launatengd gjöld eru minni á Íslandi en annars staðar er að launakostnaður í heild sinni er minni. Það er meginástæðan.

Horfum til reynslunnar. Álverið í Straumsvík borgar hærri laun, 40% hærri laun heldur en iðnaðarmenn fá á hinum almenna vinnumarkaði. Það er akkúrat nákvæmlega dæmigert stóriðjufyrirtæki. En ég skil vel að hv. þingmenn Alþb. hafni slíku, þ.e. að menn geti fengið há laun. Þeir vilja halda þessari þjóð í fjötrum. Þeir vilja ekki bæta lífskjörin í raun og veru. (SvG: Ég er á móti því bara.) (SJS: Já, bara algjörlega á móti því)

Til að svara spurningum hv. þm. um eftirlitið með Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar, þá þekkir hv. þm. Svavar Gestsson sem situr í stjórn Landsvirkjunar það hér um bil jafn vel og ég vegna þess að þrír stjórnarmenn eru kjörnir í stjórn fyrirtækisins af stjórn Landsvirkjunar og hv. þm. Svavar Gestsson tók þátt í síðasta stjórnarkjöri í þeim efnum. Þrír fulltrúar eru síðan tilnefndir af iðnrh. Eftirlitið er af hálfu stjórnar Landsvirkjunar sem hv. þm. Svavar Gestsson situr í. Svo kemur hann í ræðustólinn áðan og þykist ekki kannast neitt við neitt. (Gripið fram í.) Hv. þm. veit nákvæmlega jafn vel og ég hvernig þessi skrifstofa starfar.

Varðandi samstarf og hvað sé fram undan um markaðsskrifstofuna, þá vil ég auka samstarf við fjárfestingarskrifstofuna. Ég vil leggja áherslu á aukin verkefni, aukna kynningu til að draga hingað að landinu erlenda fjárfesta. Ég er í samstarfi um það við mörg fyrirtæki um landið, sveitarstjórnir, héraðsnefndir, í Eyjafirði, á Egilsstöðum, Reyðarfirði, Höfn í Hornafirði, víða á Suðurlandi og á Reykjanesi. Flestöll eru þau úr kjördæmi hv. þm. sem hér var málshefjandi. Þessi hv. þm. ætti að fara heim í hérað og tala við sína menn. Þeir vilja byggja upp lífskjörin í landinu.