Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:57:08 (3140)

1997-02-05 15:57:08# 121. lþ. 63.96 fundur 175#B kynferðisleg misnotkun á börnum# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:57]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir staðfest í skjali, sem lagt var fram af hæstv. félmrh. sem svar við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að mál um það bil 560 barna hafa verið til umfjöllunar hjá barnaverndarnefndum landsins sl. fimm ár vegna meints kynferðislegs ofbeldis. Þar af hefur ríkissaksóknari aðeins birt ákæru í 45 málum og leiðir það hugann óneitanlega að því hvort e.t.v. séu kröfur laganna til sönnunargagna eða málatilbúnaðar að öðru leyti of strangar og þarfnist endurskoðunar. Einnig vekur það athygli að dómar sem í slíkum málum eru felldir virðast oft vægir miðað við sakarefni. En óneitanlega leita á mann efasemdir um að allur sá hópur sem lendir í slíkum málum hvar sem þau svo kunna að enda á dómstiginu fái ekki þá sálfræði- eða félagsþjónustu sem þessir einstaklingar þarfnast svo sárlega í kjölfar slíkrar lífsreynslu, sérstaklega þar sem ekki er klárlega gengið frá því í lögum að slík þjónusta sem oft er langtímameðferð einstaklingsins og jafnvel fjölskyldu sé greidd af hinu opinbera.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem liggur fyrir þinginu, flutt af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur á þskj. 9 og var lagt fram sl. haust. Í því frv. er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins greiði fyrir slíka þjónustu í tilvikum sem þessum. Ég tel mjög brýnt, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem fer fram í þinginu í dag að þetta frv. verði samþykkt.