Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:59:27 (3141)

1997-02-05 15:59:27# 121. lþ. 63.96 fundur 175#B kynferðisleg misnotkun á börnum# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:59]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Kynferðisleg misnotkun á börnum er ein alvarlegasta tegund kynferðisofbeldis sem smám saman er að koma upp á yfirborðið þó að allt bendi til að það hafi alla tíð viðgengist. Síðastliðin fimm ár hafa barnaverndarnefndir landsins fengið að meðaltali 93 slík mál til meðferðar árlega sem ná til mun fleiri barna. Gera má ráð fyrir að þar af sé tæpur helmingur úr Reykjavík, en til samanburðar má geta þess að fyrir 15 árum eða 1978--1982 þegar sú sem hér talar sat í barnaverndarnefnd Reykjavíkur, voru slík mál nær óþekkt.

Könnun Barnaverndarstofu á kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum sl. fimm ár, samanber svar við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, er um margt athyglisverð, ekki síst sú staðreynd að af 465 málum sem komið hafa til meðferðar hjá barnaverndarnefndum vegna kynferðislegrar misnotkunar er lögreglurannsókn í 50--60% tilfella, ríkissaksóknari fær aðeins 27% tilfella og sakfellt er í langflestum þeirra tilfella sem koma til dómstóla sem þó eru aðeins 10% af heildarfjöldanum. Dómstólar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir væga dóma en það eru greinilega mun fleiri gloppur í kerfinu.

Stígamót hafa átt stærstan þátt í því að þessi mál hafa komið upp á yfirborðið hér á landi. Á þeirra vegum er konum og börnum sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi veittur stuðningur og ráðgjöf, viðkomandi að kostnaðarlausu. Ársskýrslur Stígamóta veita fróðlegar upplýsingar um eðli þessara brota. T.d. voru 30% þeirra sem sóttu til Stígamóta vegna kynferðisofbeldis árið 1993 16 ára og yngri, en yfir 85% þeirra sem komu það árið höfðu orðið fyrir ofbeldinu sem börn eða innan við 16 ára. Í heild höfðu þó aðeins tæp 7% þolenda kært til lögreglu. Af þessu má álykta að könnun Barnaverndarstofu nái einugis til toppsins á ísjakanum og mun fleiri börn hafi verið misnotuð sl. fimm ár. Það er því mjög brýnt að breyta löggjöf hér til samræmis við lög í framsýnum löndum á sviði kvennaréttar eins og t.d. Kanada þar sem þjóðfélagið viðurkennir oft að það er ekki fyrr en barnið er orðið fullorðið að það hefur vit, kjark og aðstöðu til að kæra viðkomandi ofbeldismann. Löggjöfin verður að vera þannig að mál fyrnist ekki og haga á sönnunarbyrði þannig að sannleikurinn geti komið í ljós fyrir dómstólum. Því vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort standi til að breyta löggjöf í þá veru eða koma upp aðstöðu, eins og t.d. aðstöðunni varðandi nauðgunarmál, fyrir mál af þessu tagi innan lögreglukerfisins. Einnig vil ég spyrja félmrh. hvort það standi til að gera 50 börnum kleift að fá sérhæfða meðferð vegna kynferðisofbeldis árlega eins og könnunin bendir til að þörf sé á.