Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 16:18:14 (3148)

1997-02-05 16:18:14# 121. lþ. 63.96 fundur 175#B kynferðisleg misnotkun á börnum# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:18]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka ráðherrum svörin og fagna þeim upplýsingum sem fram komu hjá þeim um aðgerðir sem þeir ætla að grípa til. Ekki síst vil ég þakka hæstv. félmrh. sem þegar hefur falið Barnaverndarstofu að koma fram með tillögur til að bæta úrræði gagnvart kynferðislegu ofbeldi á börnum. Ég vil líka þakka ráðherra fyrir að ætla að beita sér fyrir því að sett verði lágmarksíbúatala sem hver barnaverndarnefnd á að þjóna þannig að barnaverndarumdæmin stækki. Það er mjög nauðsynlegt að meðferð mála á frumstigi sé faglega unnin til að meiri möguleikar séu síðar í rannsóknarferlinu að þau fái fullnægjandi niðurstöðu. Ég þakka einnig hæstv. dómsmrh. fyrir þær upplýsingar sem hann veitti. Það olli mér að vísu svolitlum vonbrigðum að ég fann ekki í svörum hans að hann teldi ástæðu til eða kannski að það væri ekki hægt að endurskoða lögin um meðferð opinberra mála varðandi rannsóknarþáttinn. Það hafa vaknað spurningar hjá mér um hvort réttarkerfið sem við búum við henti ekki eða sé ekki sniðið fyrir svona alvarlega tegund afbrota. Málin eru oft orðin gömul þegar brotaþolar koma fram og leita réttar síns. Sönnunarbyrði er því erfið, sönnunargögn glötuð. Staðhæfing stendur gegn staðhæfingu o.s.frv. Því hef ég velt fyrir mér vegna sérstöðu þessara mála hvort sérdómstólar séu nauðsynlegir eða hvort það ætti ekki að vera skylda að dómarar með sérþekkingu á þessu sviði fjalli um þessi mál og hafi stöðu til að kalla til sín sérfræðinga sér til aðstoðar. Ég veit að umboðsmaður barna hefur sérstaklega verið að skoða þennan þátt málsins og bera saman löggjöf og dóma erlendis og hér, sem snerta kynferðislegt ofbeldi á börnum, sem ég tel mjög mikilvægt innlegg í þetta mál og vænti þess að ráðherrann skoði þá niðurstöðu þegar hún kemur og hvort ekki sé þá ástæða til að breyta þessum lögum.

Ég hafði gert mér vonir um að hér gæti farið fram skætingslaus umræða um þetta mikilvæga mál. Þess vegna ollu orð hv. þm. Árna Johnsens mér miklum vonbrigðum. Það kom öllum á óvart þessar tölur sem nú komu upp á yfirborðið, líka þeim sem hafa fjallað um þessi mál í mörg ár. Hv. þm. veit það, ef hann yfirleitt væri hér í þingsölunum, að meðan ég var ráðherra breyttist mjög margt í barnaverndarmálum á Íslandi. Embætti umboðsmanns barna var stofnað. Lögum var breytt til að koma með ný úrræði í barnaverndarmálum og framlag til barnaverndarmála var tvöfaldað. En ég vil þakka öðrum þingmönnum fyrir það innlegg (Forseti hringir.) sem þeir hafa haft í þessu máli og veit, af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, að það mun nást samstaða um það að vinna að úrræðum í góðri samvinnu Alþingis og framkvæmdarvaldsins.