Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 16:24:17 (3150)

1997-02-05 16:24:17# 121. lþ. 63.96 fundur 175#B kynferðisleg misnotkun á börnum# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:24]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég verð að vísa til fyrri ræðu minnar varðandi þau úrræði sem við höfum á prjónunum og ætla ekki að endurtaka það.

Nefndarskipanir eru yfirleitt samkvæmt tilnefningu að mestu leyti og er alltaf spurning hve marga á að kveðja til starfa. Ég held að í þessu tilfelli sé lítill hópur líklegri til að skila niðurstöðu skjótlega.

Varðandi orð Steingríms J. Sigfússonar, hv. 4. þm. Norðul. e., ætla ég ekkert að taka aftur af því sem ég sagði. Hér er um alvarlegan glæp að ræða jafnvel þó vafalaust sé hægt að færa sönnur á að hér sé í mörgum tilfellum um sjúka menn að ræða sem lífið hafi farið illa með. Ég vil undirstrika að þrátt fyrir þetta verðum við auðvitað að færa sönnur á sekt og við megum ekki fara að efna til galdrabrenna í þessu sambandi. Maður telst saklaus þangað til sekt hans hefur verið sönnuð. Við getum ekki horfið frá þeim ákvæðum sem stjórnarskráin markar okkur. En við verðum að horfast í augu við það, því miður, að svona óþverri viðgengst í þjóðfélagi okkar. Við neyðumst til að vera meðvituð um það, og við komumst ekki hjá því að takast á við þennan vanda ef við viljum teljast siðað samfélag.