Norræna ráðherranefndin 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 10:50:49 (3153)

1997-02-06 10:50:49# 121. lþ. 64.1 fundur 278. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1996# skýrsl, 293. mál: #A norrænt samstarf 1996# skýrsl, 294. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[10:50]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eitt atriði í ræðu hæstv. ráðherra sem ég vildi taka upp í andsvari og það varðar Schengen-samninginn, samstarfssamning Íslands við Schengen og stöðu þess samnings innan Evrópusamstarfsins. Síðustu vikur hefur komið fram í Evrópuþinginu afar hörð gagnrýni á þennan samning og stöðu hans, gagnrýni sem í rauninni er á þeim sömu nótum og hér hefur komið fram af minni hálfu og frá ýmsum fleiri sem lýst hafa miklum efasemdum um þetta Schengen-samstarf. Sérstök nefnd innan Evrópuþingsins, nefndin fyrir frjálsræði borgaranna og innri málefni, hefur að meiri hluta til ályktað um þetta efni eða fjallað um það. Það er belgískur sósíaldemókrati sem er talsmaður nefndarinnar, Anne von Lanker, og þetta er stutt af fjölmörgum sósíaldemókrötum, nokkrum kristilegum, og fjölda í Evrópuþinginu sem hafa annars verið miklir talsmenn þróunar Evrópusambandsins, dýrkunar Evrópusamstarfsins. Hér er verið að gagnrýna fjölmörg atriði, m.a. skort á persónuvernd og skort á lýðræðislegu aðhaldi í sambandi við þennan samning um leið og tekið er undir þá kröfu sem mjög er uppi innan ríkjaráðstefnunnar að færa þetta samstarf að öllu leyti undir Evrópusambandið og Evrópudómstólinn. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi sett sig inn í þessar aðstæður og þessa umræðu innan Evrópuþingsins og hvort hann hefur ekki áhyggjur af stöðu þessara mála í ljósi þeirra upplýsinga og afstöðu sem þar kemur fram og reyndar mætti margt fleira þar nefna.