Norræna ráðherranefndin 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 11:31:04 (3160)

1997-02-06 11:31:04# 121. lþ. 64.1 fundur 278. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1996# skýrsl, 293. mál: #A norrænt samstarf 1996# skýrsl, 294. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið# skýrsl, ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[11:31]

Árni Johnsen (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að skoðanir voru skiptar um þá kerfisbreytingu sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna þingmannaráðsins sl. sumar, en engu að síður var það afgerandi samþykkt og ég hygg að margir hafi verið þeirrar skoðunar að annaðhvort væri í rauninni að leggja þetta samstarf af eða gera þá kerfisbreytingu sem gerð var. Það hefur munað svo miklu um framgang þessa samstarfs því að í rauninni hafði þetta starf verið eins konar klúbbstarfsemi um áratugs skeið. Þó að við það sé miðað að kjósa eftir styrkleikahlutföllum flokka, þá er ekkert sem mælir gegn því að það geti ekki verið skipting á hefðbundinn hátt eins og tíðkast í skiptingu embætta í nefndum þingsins þó svo að það sé aldrei tryggt að allir flokkar komist að í þeim efnum á sama tíma. Það segir sig sjálft að það hlýtur að verða með sama hætti og tíðkast á annan hátt í starfsemi Alþingis.