Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 12:48:48 (3172)

1997-02-06 12:48:48# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[12:48]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt það sem ég var að nefna. Það þarf að endurskoða hlutverk þessara alþjóðastofnana mjög vel og skipta með sér verkum o.s.frv. Hitt er annað mál sem ég vil gjarnan ræða því ég veit ekki hvort hv. þm. Pétur H. Blöndal var að meina að færri menn ættu að sinna þessum störfum eða fleiri. Ég vil gjarnan að það komi mjög skýrt og greinileg fram og ég vona að það komi fram bæði hér sem á almennum vettvangi að þingmenn þeir, sem hafa hvað mest sinnt alþjóðastörfum og hafa átt drjúgan hlut að máli, hafa verið gagnrýndir fyrir það að vera ekki á vettvangi Alþingis þegar þeir hafa verið að vinna fyrir Ísland erlendis. Ég tel að þau störf sem verið er að vinna fyrir Ísland á erlendum vettvangi séu ekki síður mikilvæg. Það þurfa ýmsir aðilar að gera slíkt, embættismenn, viðskiptamenn, alþingismenn og fleiri. Spurningin er bara sú hvort það eigi að vera á fleiri eða færri höndum. Mér er mjög vel ljóst að þetta háir okkur að mörgu leyti í því starfi sem við erum í hér á þinginu. En við tökum því og reynum að axla þá ábyrgð sem okkur er lögð á herðar með því að taka þátt í þessu alþjóðastarfi. Við verðum að gera það en það þýðir þá hugsanlega að við verðum að vinna tvöfalda vinnu eða jafnvel þrefalda þegar heim er komið. En við kyngjum því vegna þess að við teljum að þátttaka okkar á erlendum vettvangi sé það mikilvæg að við megum ekki týnast í hafi þjóðanna.