Tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 13:43:56 (3176)

1997-02-06 13:43:56# 121. lþ. 64.95 fundur 178#B tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:43]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég harma að þessi umræða skuli ekki vera lengri en raun ber vitni. Hér hefur fjmrh. komið fram með yfirlýsingar sem þörf er á að ræða nánar. Hæstv. ráðherra er t.d. að gefa í skyn að þær breytingar sem gerðar hafa verið á ÁTVR hafi verið gerðar í samráði og jafnvel með samþykki starfsmanna ÁTVR. Í yfirlýsingu sem fram kom frá trúnaðarmönnum starfsmanna fyrir fáeinum dögum er lýst furðu á þeim vinnubrögðum stjórnar fyrirtækisins að leggja fram órökstuddar og ábyrgðarlausar tillögur um umbyltingu á sölu og dreifingu áfengis og tóbaks á Íslandi. Þetta þyrfti að sjálfsögðu að ræða miklu nánar.

En það sem ég vildi gera að umræðuefni hér er að í fréttum hefur komið fram að upplýst hafi verið um gám með smygluðu brennivíni, 850 kössum eða rúmlega 10.000 flöskum. Áfengisgjald plús virðisaukaskattur nemur um 2 þús. kr. af hverri flösku. Þetta þýðir að varlega áætlað verður ríkissjóður af 20 millj. kr. En þetta er aðeins brot af tapinu því gera má ráð fyrir að mestur hluti þessa smyglaða áfengis sé seldur svart á veitingahúsum án þess að af því sé greiddur skattur eða önnur opinber gjöld.

Ástæða þess --- og hér erum við að koma að kjarna málsins --- að þetta er hægt er sú að þegar hæstv. fjmrh., fulltrúi hugsjóna Verslunarráðs Íslands í Húsi verslunarinnar, byrjaði að tæta sundur almannafyrirtækið ÁTVR fyrir heildsalana og Verslunarráðið, var eitt af fyrstu skrefunum að afnema merkingar á áfengisflöskum. Þess vegna er ekki nokkur leið að fylgjast með því að smyglað áfengi flæði óhindrað um borð og sali vínveitingahúsa um land allt í skjóli fjmrh. Íslands því það var hann sem beitti sér fyrir því að merkingar yrðu afnumdar. Eða eru menn búnir að gleyma þeirri umræðu sem fram fór á Alþingi fyrir rúmu ári síðan? Þá var bent á þetta aftur og aftur og aftur og ítrekað varað við þessu. En línan var komin frá Verslunarráðinu og Húsi verslunarinnar og henni fylgdi hæstv. ráðherra.

Hér hef ég tekið dæmi af þeim eina gámi sem fjölmiðlar hafa greint frá. (Forseti hringir.) Ég fullyrði að einn smyglgámur hafi fundist til viðbótar og það leikur sterkur grunur á tveimur öðrum. Vita menn hvað almenningur hefur tapað miklu í þessu reikningsdæmi? Það eru ekki bara 80 millj. í áfengisgjaldi og virðisaukaskatti, heldur hverfur álagningin sem ríkið hefði ella af löglegum innflutningi og nemur virðisaukaskatti og tekjuskatti (Forseti hringir.) auk annarra opinberra gjalda --- hæstv. forseti, ég er að ljúka máli mínu --- á sölu í vínveitingahúsunum. Sumir telja að tapið af þessu nemi 250 millj. kr., fjórðungi úr milljarði, en það er helmingurinn af öllu fjármagni sem fer til forvarnastarfs á Íslandi.