Tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 13:51:54 (3179)

1997-02-06 13:51:54# 121. lþ. 64.95 fundur 178#B tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:51]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég giska á að upphaf þessa máls og þessarar umræðu sé að fyrir nokkru síðan tjáði nýr stjórnarformaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sig um markaðsmál og hvernig ætti að standa að þessu fyrirtæki. Sumir urðu til að hneykslast á þeim ummælum og ég reikna með því að það sé hvatinn að því að hér er málið til umræðu. Þannig lít ég á það.

Mér fannst ákaflega ferskur andblær koma fram hjá hinum nýja stjórnarformanni og þakka mjög fyrir það því að ég hafði verið einn af þeim sem hvatti fjmrh. mjög til að skipa stjórn fyrir þetta félag eins og félagi minn og upphafsmaður þessa máls, Steingrímur J. Sigfússon, man kannski eftir. Og hann var mjög ósammála því. Sighvatur var nú þarna líka. (Gripið fram í: Hann er nú ekki mikill félagi þinn.) Nei, nei, en við erum saman í þessari nefnd samt og getur enginn við því gert.

Ég fagna þessum ummælum vegna þess að mér hefur fundist stjórn þessa félags alveg með endemum. (GÁ: Þetta er fyrsta stjórnin.) Stjórnunin á þessu félagi, þ.e. þessari verslun. Mér þótti gott að þetta viðhorf er komið núna fram. M.a. skal ég benda á það sem ég þekki úr mínu kjördæmi. Við erum búin að bíða í tvö ár eftir að útsala væri sett upp á Patreksfirði. Það tók tvö ár að taka ákvörðun um það. (Gripið fram í: Það er fjmrh. sem ræður því.) Það tók tvö ár og þarna sjáum við, (Gripið fram í.) kæri þingmaður, hversu vel þetta fyrirtæki vakir yfir verslun sinni. Nú erum við búin að fá nýja stjórn yfir félagið og ég tel einmitt að ummæli formannsins bendi til þess að nú verði menn miklu meira opnir fyrir því að verða við þeim lagalegu skyldum sem þeim ber og hafa ekki orðið við áður, hver sem bar ábyrgð á hinu. Þessi breyting sem orðið hefur mun því örugglega verða til batnaðar. Ég er viss um það og því fagna ég að svo skuli vera komið.