Tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:09:37 (3186)

1997-02-06 14:09:37# 121. lþ. 64.95 fundur 178#B tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:09]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég tel að ekkert hafi komið fram á þessum fundi hér í dag sem bendir til þess að eitthvað óeðlilegt sé við reglugerð þá sem sett var á grundvelli laga og varðar stjórn ÁTVR. Þar er skýrt og skilmerkilega tekið fram að henni ber m.a. að marka stefnu fyrirtækisins til framtíðar. Það er beinlínis hlutverk hennar og hlutverk stjórna fyrirtækja almennt.

Í öðru lagi varðandi þetta þá ber að leggja áherslu á að hér er verið að tala um fimm ára stefnu og í sumum tilvikum til lengri tíma. Það er hvergi minnst á það í þessari framtíðarsýn stjórnar ÁTVR að það eigi að opna fyrir sölu áfengis í almennum verslunum. Það er hins vegar ýjað að því að til lengri tíma litið þurfi á grundvelli reynslunnar að meta hvort slíkt skuli gert.

Þá vil ég í þriðja lagi benda á að breytingar á lögum eru auðvitað forsenda þess að hægt sé að fylgja þessari stefnu. Það hefur öllum alltaf verið ljóst og alltaf verið tekið fram.

Næst vil ég segja að það er ekkert sem bendir til þess að og það er alveg út í bláinn að orða það hér, að ætlunin sé að fara gegn stefnu ríkisstjórnarinnar í áfengis-, fíkniefna- og tóbaksvörnum. Það verður ekki gert. Það verður að sjálfsögðu ekki gert. Og ég vil taka fram að fjmrn. er þessa dagana að setja niður á blað sinn hluta stefnunnar og því verki verður lokið fyrir 1. mars eins og gert var ráð fyrir.

Aðalatriðið í þessum málum er það, virðulegi forseti, að umræður þurfa að vera málefnalegar. Það er ekki gott þegar verið er með upphrópanir eða tvískinningur kemur fram, m.a. í orðum Ögmundar Jónassonar sem blandar hassi inn í þessar umræður, lætur í það skína að tilgangur breyttrar stefnu sé að eitra fyrir börnum og ungmennum. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur úr leik. (Gripið fram í.) Við verðum að ræða þessi mál málefnalega. Hér á þinginu þurfa að takast á sjónarmið. En ég bið hv. þingmenn um að virða það sem stjórn ÁTVR er að segja, virða það á þann veg að hérna er verið að koma fram með tillögur sem ég veit að í mörgum efnum eru tillögur sem þjóðin vill styðja eins og m.a. hefur komið fram í þessum umræðum og í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið. (ÖJ: Til að koma meira brennivíni ofan í þjóðina og tóbaki.)