Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:13:23 (3187)

1997-02-06 14:13:23# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:13]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mjög þessa umræðu sem hér hefur staðið yfir um skýrslu Íslandsdeildar Evrópuþingsins. Ég vil þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir mjög yfirgripsmikla skýrslu og þá ágætu ræðu sem hún flutti áðan. Það er alveg ljóst af þessari skýrslu að íslenska sendinefndin er mjög atkvæðamikil. Það er rétt að það komi fram að það er ekki síst vegna þeirrar forustu sem hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir hefur veitt nefndinni. Það kemur fram í skýrslunni að hún hefur komið mjög víða að, flutt margar ræður og án efa, eins og ég veit af öðrum vettvangi, haldið mjög fast fram málstað Íslendinga. Það er líka vert að geta þess að hún hefur verið endurkjörin formaður sérstakrar nefndar um almannatengsl og samskipti þingsins við þjóðþingin og það er auðvitað heiður fyrir Íslendinga og viss viðurkenning á framlagi okkar ágætu sendinefndar á þessum vettvangi.

Þó var ýmislegt í ræðu hv. þm. sem var örlítið á skjön við það sem kemur fram í skýrslunni. Til að mynda lagði hv. þm. tvisvar sinnum í sinni skeleggu ræðu áherslu á þá miklu samheldni sem hefði verið með sendimönnum Íslands á þessum vettvangi. Það er auðvitað gott að menn sem aðhyllast ólíkar pólitískar skoðanir geti verið sammála þegar þeir koma fram fyrir hönd Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Því miður er staðreyndin sú að þegar skýrsla hv. þm. er lesin í gegn, kemur fram að a.m.k. í ýmsum veigamiklum málum hefur sendimönnum Íslands á þessum vettvangi tekist að deilast í eins marga parta og fræðilega er mögulegt. Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, og tel nauðsynlegt að það komi hér fram, ekki síst vegna þeirrar áherslu sem lögð er af hálfu formanns nefndarinnar á samheldni manna, að í einu eftirminnilegasta málinu sem tekið var fyrir á vettvangi Evrópuráðsins á síðasta þingi bar ekki mikið á þessari samheldni. Það var þegar Rússland var að sækja um að verða fullgildur aðili að Evrópuráðinu. Og það kemur fram í þessari skýrslu að samheldni manna var slík að hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir greiddi atkvæði með því að málinu yrði frestað og sat hjá. Hv. þm. Hjálmar Árnason, fulltrúi Framsfl., trúr stefnu hans í þessu máli sem hafði komið fram hjá hæstv. utanrrh., greiddi atkvæði með aðildarumsókninni. En hv. þm. Tómas Ingi Olrich., annar fulltrúi Sjálfstfl., greiddi atkvæði gegn. Með öðrum orðum, einn fulltrúi í þessari samheldnu sendinefnd greiddi atkvæði með, annar greiddi atkvæði gegn og sá þriðji sat hjá.

[14:15]

Ég verð að segja að það er í stíl við þá hugkvæmni og þann vaskleika í máli hv. formanns nefndarinnar að koma síðan hingað og lýsa því yfir að það sem helst var uppi í starfi þessara ágætu manna hafi verið samheldnin. Ég vek einungis eftirtekt á þessu vegna þess að mér sýnist að hér hafi bersýnilega verið átök og það er í sjálfu sér ekkert við því að segja. Menn koma þarna fram og eru á þessum vettvangi, ekki bara sem fulltrúar Íslands, heldur ákveðinna pólitískra stefna. Og ég geri engar sérstakar athugasemdir við þetta. En óneitanlega hefði verið æskilegt að Ísland hefði getað talað þarna einni röddu. Óneitanlega hefði það verið farsælla, ekki síst í ljósi þeirrar miklu samheldni sem hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir telur að hafi einkennt störf nefndarinnar. En ég er alls ekki að finna að þessu og vil ekki, herra forseti, að þetta sé með nokkru móti túlkað þannig að ég sé að draga úr mikilvægi sendinefndar okkar á þessu þingi né vaskrar framgöngu formannsins.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, og ég tek eftir því í máli hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur að hún er mér sammála um það, að Evrópuráðið er stöðugt að verða mikilvægari vettvangur. Þar eru sífellt að koma upp mál sem eru ráðin fullkomlega til lykta innan ráðsins. Og það er alveg ljóst að eins og framvinda Evrópusamstarfsins er að þróast, þá mun Evrópuráðið hafa meiru hlutverki að gegna. Ég er þess vegna sammála hv. þm. um að það ber síst að lasta þó að menn taki tíma frá þingstörfum hér, eins og hún gat um í ræðu sinni, til þess að sinna þessu. Og ég er þeirrar skoðunar að fulltrúar okkar hafi þarna í mörgum málaflokkum komið ýmsu góðu til leiðar og ég nefni sérstaklega það atriði sem er rætt nokkuð í skýrslunni og hv. þm. gat nokkuð í framsögu sinni að einum þingmanni okkar, hv. þm. Tómasi Inga Olrich, tókst að því er fram kemur hjá formanninum að eiga þátt í því að felld var tillaga sem hefði getað haft óheillavænleg áhrif á íslenskan sjávarútveg. Þetta er gott mál og ég þakka hv. þm. Tómasi Inga fyrir þetta. Við eigum auðvitað hvar í flokki sem við stöndum að vera þakklát okkar fulltrúum þegar þeim tekst að setja íslensk lóð á vogarskál okkar eigin hagsmuna. Þetta var mjög jákvætt.

Hér hafa hins vegar spunnist umræður sem eru ekki ósvipaðar umræðum sem komu upp í fyrra og það er um verkaskiptingu milli ÖSE og Evrópuráðsins. Af því tilefni hefur hv. þm. Hjálmar Árnason flutt ásamt fleirum sérstaka tillögu á vettvangi Evrópuráðsins um að kannað verði hvernig væri hægt að samræma verkefni og starf þriggja alþjóðlegra stofnana, Evrópuráðsins, ÖSE og VES. Ég vildi þess vegna, af því að ég á líka sæti á þingmannasamkundu VES og þekki svolítið til þeirra starfa, æskja þess að hv. þm. skýri örlítið fyrir mér með hverjum hætti hann telur að starf Evrópuráðsins skarist við starfsemi þings Vestur-Evrópusambandsins vegna þess að ég er ekki alveg sammála því að svo sé. Mér er ekki fullkomlega ljóst að þar sé um skörun að ræða. En ég veit að hv. þm. leggur ekki fram tillögur að ófyrirsynju þannig að hann hefur án efa hugsað þetta mál til hlítar og ég vildi gjarnan að hann deildi með mér þeim ítarlegu vangaveltum sem ég veit að liggja að baki þessari tillögu hans.

Þeir þingmenn sem hér hafa talað virðast allir hafa talað í þá veru að það sé um skörun að ræða á milli ÖSE og Evrópuráðsins. Ég hjó sérstaklega eftir í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að hann virtist telja að ýmislegt sem Evrópuráðið er að véla um sýsli ÖSE líka með. Ég var ekki viss um hvernig bæri að skilja þessar athugasemdir hv. þm. Var hv. þm., ef hann heyrir mál mitt, að ýja að því að við ættum e.t.v. að draga úr vægi starfs okkar á vettvangi Evrópuráðsins og auka hlut starfsins innan ÖSE? Ég er viss um að hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir væri því ósammála. Ég er því ósammála.

Ég vek líka eftirtekt á því að hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir vék kurteislega og af hógværð að því að æskilegt hefði verið að svigrúm íslensku fulltrúanna til starfa innan Evrópuráðsins hefði verið meira. Ég held ég fari ekki með rangt mál og mig misminni ekki þegar ég segi að hv. þm. taldi að það hefði einungis verið mögulegt að sækja um það bil tíunda hluta þeirra funda sem hún og aðrir fulltrúar, sem aðalfulltrúar og formenn undirnefnda, hefðu gjarnan þurft að sækja. Ég spyr þess vegna hv. formann sendinefndarinnar, Láru Margréti Ragnarsdóttur: Er hún þeirrar skoðunar að íslenska sendinefndin sé vanbúin að fjármagni? Telur hún að það þurfi að auka fjárframlög til þessa starfs? Telur hún, að til þess að við getum í auknum mæli axlað þau störf sem nú þegar er að finna á þessum vettvangi og til þess að mæta þeim kröfum sem framtíðarþróun ráðsins virðist ætla að setja á herðar okkar, þá sé nauðsynlegt að fá meira fjármagn? Og þá spyr ég hana líka og hv. þm. Pétur H. Blöndal, ef hann er hér einhvers staðar: Kemur þá ekki til greina að draga úr starfi okkar innan ÖSE? Hv. þm. Pétur H. Blöndal sker aldrei skoðanir sínar við nögl og það er kostur að hann hefur skoðanir á flestu sem er lifandi og dautt undir sólinni og hann er líka óeigingjarn að því leyti til að maður sér hann aldrei reyna að skara eld að eigin köku. Telur þá ekki hv. þm. að það sé allt í lagi og væri jafnvel æskilegt að við einfaldlega drægjum úr okkar starfi innan ÖSE og reyndum að nýta það fjármagn sem þar er að finna til þess að auka starf okkar innan Evrópuráðsins og efla vægi þess? Og ef hv. þm. Hjálmar Árnason kemur hér upp, sem ég er ekkert sérstaklega að óska eftir, en ef hann kemur hér upp til þess að láta ljós sitt skína skært sem jafnan, langaði mig að hann kannski veiti mér þá ánægju að upplýsa mig um skoðanir hans á þessu því að í ræðu sinni áðan talaði hann um að heimurinn væri breyttur og í kjölfar þess væru alþjóðastofnanir og starf þeirra orðið talsvert flóknara heldur en áður. Og það mátti finna í máli hans að hann efaðist um tilgang sumra þessara alþjóðastofnana. Hann sagði að embættismennirnir vildu auðvitað treysta grunn sinna starfa og síðan klykkti hann út með því að segja að auðvitað lenti þetta allt um síðir á herðum okkar skattborgaranna. Er hv. þm. Hjálmar Árnason með þessu að segja að það sé e.t.v. fullmikill munaður að við skulum halda úti fulltrúa innan ÖSE? Því mér sýnist á máli þeirra fulltrúa sem hér hafa talað að það sé e.t.v. sá vettvangur sem hafi minnstu hlutverki að gegna og sér í lagi vegna þess að ég skil mál þeirra sem hér tala og þekkja Evrópuráðið miklu betur en ég að Evrópuráðið er hægt og sígandi að taka yfir sumt af þeim störfum sem hafa verið unnin innan ÖSE.

Þetta er nú það sem ég vildi inna þessa hv. fulltrúa okkar eftir vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að efla starf okkar innan Evrópuráðsins en ég geri mér grein fyrir að það kostar fjármagn og spurningin er: Er hægt að efla þetta starf með því að draga úr starfsemi annars staðar?