Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:34:49 (3194)

1997-02-06 14:34:49# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að það hefur farið fram málefnaleg umræða um afstöðuna til inngöngu Rússa í Evrópuráðið innan nefndarinnar. Sú umræða sem fór fram hins vegar í fjölmiðlum af hálfu hv. nefndarmanna var ekki málefnaleg. Það vottaði ekki fyrir málefnum þar þegar nefndarmenn voru að tjá sig út og suður í fjölmiðlum á þeim degi sem málið var leitt til lykta innan Evrópuráðsins. Það er aukaatriði í þessari umræðu núna.

En það sem ég kom hér upp til þess að inna hv. þm. eftir var einfaldlega þetta: Hvert er tilefni þeirrar tillögu sem hann er 1. flm. að innan Evrópuráðsins um að kannað sé hvort starfssvið ákveðinna alþjóðastofnana skarist? Ég hef spurt hann um þá alþjóðastofnun sem ég þekki til og ég spyr hann: Hvar er það sem starfsemi Vestur-Evrópusambandsins skarast við aðrar alþjóðastofnanir? Hvert er tilefnið? Og hv. þm. hefur ekki svarað því enn þá. Hann hefur hins vegar vísað til ofurvalds ráðherranna, þeir hafi miklu betra skyn á þessu en hann. En þá allt í einu er ég kominn, og vona að ég sé ekki að hrapa, að þessari niðurstöðu: Hv. þm. er að leggja fram tillögu sem hann hefur ekki hundsvit á um hvað fjallar. Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af því, hv. þm., (Forseti hringir.) þegar hv. þm. tekst ekki að koma hingað og skýra út fyrir okkur hvers vegna verið er að leggja fram þessa tillögu.