Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:36:15 (3195)

1997-02-06 14:36:15# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:36]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt beiðni hv. þm. Össurs Skarphéðinssonar kem ég í andsvar og svara spurningunni hvort draga eigi úr starfi okkar innan ÖSE-þingsins. Í því sambandi vil ég geta þess að þegar ég fór á fyrsta fundinn minn í Ottawa fannst mér oft á tíðum að starfið væri dálítið marklaust. Þá var staðan í Júgóslavíu með versta móti. Fréttir af mannréttindabrotum og ófriði dundu yfir okkur, inn í stofu til okkar, og þetta kannast hv. þm. við. Síðan hefur margt breyst. ÖSE-þingið og ÖSE sjálft hefur fengið mjög veigamikið hlutverk, sem er einmitt að gæta mannréttinda og framkvæmd Dayton-samkomulagsins. Kosningaeftirlit sér ÖSE um mjög víða, sem ég held að sé af hinu góða, t.d. á þessu ári í Tsjetsjeníu í janúar og það sá um framkvæmd kosninga í Bosníu-Hersegóvínu. Mér líður því betur í dag að sækja glæsta fundi ÖSE-þingsins heldur en mér leið í fyrsta skipti vegna þess að mér finnst og ég hef á tilfinningunni að við Íslendingar fáum eitthvað fyrir okkar snúð, sem eru þá meiri mannréttindi í Evrópu. Ég verð því að svara þessari spurningu neitandi. Ég hygg að ÖSE-þingið sé núna loksins farið að starfa og farið að ná árangri. Og ég minni á blaðafréttir bæði í DV í dag og Morgunblaðinu í gær um að þeir eru að ýta á að niðurstöður kosninga í Bosníu-Hersegóvínu nái fram að ganga. Ég held því að það væri tímaskekkja að minnka þetta.

Hins vegar er Evrópuráðið sem við erum að ræða hér með nákvæmlega sama markmið, þ.e. kosningaeftirlit. Og ég hygg að það leiði til aukins kostnaðar, tvíverknaðar og ekki eins mikillar virkni. Þess vegna get ég fallist á þessa tillögu hv. þm. Hjálmars Árnasonar um að það þurfi að passa að þessi verkefni skarist ekki.