Fríverslunarsamtök Evrópu 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 15:06:00 (3200)

1997-02-06 15:06:00# 121. lþ. 64.4 fundur 287. mál: #A Fríverslunarsamtök Evrópu 1996# skýrsl, VE
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:06]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Ég hyggst kynna skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 1996. Þingmannanefnd EFTA var stofnuð á árinu 1977 og hafði það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Nefndin hefur starfað ötullega allan þennan tíma en það var fyrst á árinu 1991 sem þátttaka í henni af hálfu Íslands var sett í gang af fullum krafti. Á þeim tíma stóðu samningarnir um hið Evrópska efnahagssvæði yfir og þótti ástæða til þess að fulltrúar Alþingis tækju þá þátt í starfinu af fullum krafti.

Í þingmannanefnd EFTA sitja þingmenn þjóðþinganna frá Íslandi, Liechtenstein, Noregi og Sviss, en þetta eru þau lönd sem eftir standa í EFTA eftir að Svíþjóð, Finnland og Austurríki yfirgáfu klúbbinn og gengu til liðs við Evrópusambandið. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi nokkrum sinnum á ári þar sem fjallað er um þau verkefni sem enn þá eru á verksviði EFTA. Enn fremur er á vegum þingmannanefndar EFTA mikið fjallað um samskipti EFTA við önnur ríki en Evrópusambandsþjóðirnar og fyrst og fremst þau ríki sem EFTA er að gera fríverslunarsamninga við, svo sem eins og í Mið- og Austur-Evrópu, Ísrael, Tyrkland og jafnvel núna Marókkó og eyríkin í Miðjarðarhafinu.

Þá hefur það komið í hlutverk þingmannanefndar EFTA að manna EFTA-hlutann í þingmannanefnd EES, en þingmannanefnd EES samanstendur af 24 þingmönnum, 12 frá Evrópuþinginu og öðrum 12 frá eftirstandandi EES-aðildarríkjum EFTA. EFTA-hlutann af þessari nefnd skipa sex norskir þingmenn, tveir frá Liechtenstein og fjórir íslenskir.

EES-nefndin hittist að jafnaði tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda og skipuleggur starf nefndarinnar. Í þingmannanefnd EES skiptast EFTA-þingmannahlutinn og Evrópuþingsþingmannahlutinn á um formennsku og á árinu 1997 kemur formennska í nefndinni í hlut Íslands. Svisslendingar taka ekki formlega þátt í störfum þingmannanefndar EES en eru hins vegar með áheyrnaraðild að henni.

Í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA áttu sæti á árinu 1996 sá sem hér talar og gegndi þar formennsku, og auk þess hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson og Hjörleifur Guttormsson. Áheyrnaraðild áttu hv. þm. Ágúst Einarsson og Kristín Ástgeirsdóttir.

Hæstv. forseti. Ef við lítum aðeins yfir starfsemi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á síðasta ári, þá lagði EES-nefndin megináherslu á að fylgjast með framvindu EES-samningsins en í þingmannanefnd EES gefst mjög gott tækifæri til að fylgja eftir ýmsum málum sem varða þróun samningsins. Nefndin starfar þannig að hún tekur fyrir ákveðin mál í einu sem tengjast samningnum og hefur frumkvæði að því að semja skýrslur um þau mál sem eru svo ræddar og helst endar sú umfjöllun með ákveðnum tillögum um þróun samningsins. Þessar tillögur fara síðan til ráðherraráðsins og fá þar umfjöllun. Síðan reynir þingmannanefnd EES að fylgja þessum tillögum eftir þegar fundir eru haldnir með ráðherrunum.

Ég vil geta þess að á síðasta ári voru fimm slíkar skýrslur kynntar á fundi nefndarinnar. Ein fjallaði um framkvæmd EES-samningsins árið 1995, sem er árlegt viðfangsefni, en síðan voru sérstakar skýrslur gerðar um fjarskiptaþjónustu, samkeppnisstefnu, samræmingu upprunareglna og fjórfrelsið. Nefndirnar fylgdust á árinu grannt með framvindu ríkjaráðstefnu EES og framvindu mála í viðræðum um fríverslunarsamninga við lönd utan Evrópusambandsins. Þá voru farnar ferðir á vegum nefndarinnar til Kýpur og Möltu í því skyni.

Það má segja að fulltrúar Íslandsdeildarinnar hafi verið mjög virkir í starfi þessara þingmannanefnda og Íslandsdeildin átti m.a tvo framsögumenn af fimm sem EFTA-hluti þingmannanefndar EES hafði á að skipa í tilefni af þeim skýrslum sem nefndin tók fyrir.

Þá vil ég, hæstv. forseti, sérstaklega minnast á það í lokin að Íslandsdeildin átti fundi með fulltrúum þjóðþinga þeirra ríkja sem voru næst í röðinni að taka við forsæti innan Evrópusambandsins, en ESB-ríkin skiptast á um formennsku þar til hálfs árs í senn. Þannig fundaði nefndin með Evrópu- og utanríkismálanefnd írska þingsins í Dublin í febrúar og með Evrópunefnd hollenska þingsins í Haag í október. Megintilgangur þessara funda hefur verið að kynna stöðu Íslands innan EFTA og innan EES, sérstaklega með það í huga að hvetja þingmenn þessara þjóðþinga til þess að stuðla að því að gildi EES-samningins rýrni ekki við þær breytingar sem væntanlegar eru á Evrópusambandinu í kjölfar ríkjaráðstefnunnar og stækkunar Evrópusambandsins.

Í skýrslunni er síðan gerð grein fyrir einum 14 viðburðum sem áttu sér stað á vegum nefndarinnar á síðasta ári en ég tel ekki ástæðu til þess, hæstv. forseti, að rekja þá sérstaklega en er að sjálfsögðu fús til þess að svara spurningum ef einhverjum verður til mín beint.